Nýjar eins árs námsleiðir í tungumálum veita forskot í námi og starfi

Mála- og menningardeild Háskóla Íslands býður nú upp á fjölda nýrra diplómanámsleiða í tungumálum sem ætlaðar eru þeim sem vilja styrkja samkeppnisstöðu sína í námi og starfi. Um er að ræða hagnýtt eins árs nám sem hægt er að stunda meðfram öðru námi eða vinnu. Lögð verður áhersla á að nemendur nái hratt og örugglega valdi á viðkomandi máli, öðlist lesskilning, byggi upp orðaforða og þjálfist í töluðu máli. Diplóman nýtist því vel þeim sem hyggja á frekara háskólanám erlendis eða þeim sem vilja ná forskoti á vinnumarkaði, t.d. í viðskiptum eða ferðaþjónustu. Í boði verður diplómanám í eftirfarandi greinum:
- Akademísk enska
- Danska
- Franska
- Ítalska
- Japanska
- Kínverska
- Klassísk fræði
- Mið-Austurlandafræði og arabíska
- Rússneska
- Spænska
- Sænska
- Þýska
Námsleiðin verður í boði frá og með skólaárinu 2019-2020 og er 60 ECTS diplóma. Þeir sem vilja skrá sig í námið þurfa að hafa lokið íslensku stúdentsprófi eða sambærilegu prófi frá erlendum skóla.