Skip to main content
22. nóvember 2019

Þróa líkön til að styðja við kolfefnishlutleysi í Evrópu

Reykjavík

Vísindamenn við Háskóla Íslands taka nú þátt í samevrópsku verkefni þar sem markmiðið er að þróa samþætt líkön sem nýst geta stjórnvöldum og stefnumótendum í Evrópu til að stíga rétt skref í átt að sjálfbærari og kolefnishlutlausri framtíð. Félagasamtök og stefnumótendur munu koma að þróun líkananna.

Mannkynið horfir nú fram á fordæmalausar ógnir í umhverfismálum þar sem útrýming fjölda tegunda lífvera og hrun lífkerfa blasir við, verði ekkert að gert. Ríki heims setja sér því nú hvert af öðru markmið til þess að draga úr bæði mengun og útblæstri gróðurhúsaloftegunda til framtíðar. Ríki Evrópusambandsins hafa til að mynda hafið vinnu við Græna efnahagsstefnu Evrópu (e. European Green Deal) og sambandið stefnir enn fremur á loftslagshluteysi fyrir árið 2050. En hvernig geta ríki innan sambandsins og víðar um heim náð þessu markmiðum sínum? Hvaða lausnir standa þeim til boða og hvaða afleiðingar munu þær ákvarðanir sem teknar verða, hafa á samfélagið, efnahag og umhverfi?

Til þess að svara þessum spurningum þarf að þróa flókin líkön, sem varpa ljósi á áhrif stefnumótandi ákvarðana, og það er einmitt markmið hins samevrópska verkefnis ‘Low-carbon society: an enhanced modelling tool for the transition to sustainability’ (LOCOMOTION) sem hófst í sumar. „Við ætlum að þróa svokölluð samþætt matslíkön (e. Integrated Assessment Models - IAMs) sem eiga að gera stefnumótandi aðilum kleift að meta samfélagsleg og umhverfisleg áhrif mismunandi ákvarðana þannig að þeir geti tekið upplýstar ákvarðanir fyrir samfélög sem vilja stíga skrefið átt að sjálfbærari framtíð,“ segir Anna Hulda Ólafsdóttir, lektor í iðnaðar- og vélaverkfræði við Háskóla Íslands, sem kemur að verkefninu ásamt Kristínu Völu Ragnarsdóttur, prófessor við Jarðvísindadeild.

Ýmis líkön eru nú þegar til en að sögn Önnu Huldu hafa þau ákveðnar takmarkanir sem varða til dæmis sjálfbærni þeirra og getu til að meta sviðsmyndir í framtíðinni. „Flest núverandi líkön taka ekki nægilegt tillit til takmarka náttúrunnar og lífkerfisins og við því erum við að bregðast með verkefninu,“ segir hún. Ætlunin sé því að hin samþættu matslíkön taki mið af takmörkuðum steinefna- og jarðefnaeldsneytisbirgðum heimsins og ekki síst náttúrulegum takmörkunum lífkerfa. „Við ætlum að þróa aðgengileg og notendavæn líkön sem taka á efnahagslegum, tæknilegum og líffræðilegum þáttum og takmörkunum og flóknu samspil þeirra, allt í þeim tilgangi að styðja stefnumótendur í að taka réttar ákvarðanir fyrir samfélög þannig að þau geti orðið kolfefnishlutlaus,“ segir Anna Hulda og bætir við að líkönin verði þróuð í samstarfi við væntanlega notendur þannig að þau nýtist þeim sem allra best. 

Að verkefninu kemur stór hópur vísindamanna með sérhæfingu á sviði ýmiss konar líkana og eiga þátttakendur það sammerkt að vinna að rannsóknum og þróunarverkefnum sem snerta orku-, sjálfbærni- og umhverfismál. Sjálf hefur Anna Hulda sérhæft sig í svokölluðum kvikum kerfislíkönum sem eru öflugt tæki sem auðvelda mat á flóknum viðfangsefnum. Hún hefur m.a. sinnt rannsóknum með kvikum kerfislíkönum á síðustu árum í tengslum við auðlindir, matvælakeðjur, lífeldsneyti, sjálfbærni og fleira.  

LOCOMOTION-verkefnið hlaut rúmar sex milljónir evra, jafnvirði nærri 820 milljóna króna, í styrk til fjögurra ára úr H2020-rannsóknaráætlun Evrópusambandsins. Að því koma, auk fulltrúa Háskóla Íslands, háskólar og vísinda- og rannsóknastofnanir í Austuríki, Spáni, Grikklandi, Portúgal, Serbíu og Ítalíu ásamt European Environmental Bureau, stærsta netverki umhverfisverndarsamtaka í Evrópu, og Stofnun umhverfismála og öryggis manna innan Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-EHS). 

Vefsíða verkefnsins
 

Anna Hulda Ólafsdóttir, lektor í iðnaðar- og vélaverkfræði við Háskóla Íslands,