Áframhaldandi Sálrækt á nýju ári
Sálfræðiráðgjöf háskólanema við Háskóla Íslands heldur áfram að bjóða upp á Sálrækt, hópmeðferð fyrir háskólanema sem vilja leysa úr sálrænum vanda og rækta geðheilsu sína, á nýju ári.
Sálrækt fór á stað á síðasta skólaári og skilaði samkvæmt mælingum góðum árangri. Þrír sálfræðingar, sem eru í doktorsnámi við Sálfræðideild, og forstöðumaður ráðgjafarinnar stýra hópmeðferðinni. Nú á vormisseri 2020 verða hópfundir haldnir á föstudögum vikulega, kl. 13-14.30.
Áhugasamir geta sent póst á hopmedferd@hi.is með nafni sínu og símanúmeri til að sækja um þátttöku og verða svo boðaðir í inntökuviðtal. Athugið að þátttökufjöldi er takmarkaður. Um er að ræða opinn hóp þar sem þátttakendur vinna að markmiðum sínum og nýir þátttakendur geta komist að þegar þau markmið hafa náðst og pláss losna.
Nánari upplýsingar um Sálrækt má finna á vefsíðu Sálfræðideildar.
Sálfræðiráðgjöf háskólanema hefur verið starfrækt frá árinu 2013. Markmið hennar er að þjálfa framhaldsnema í sálfræði í klínískum störfum og veita bæði háskólanemum og börnum þeirra sálfræðiþjónustu gegn afar vægu gjaldi. Frá upphafi hafa um 120 sálfræðinemar hlotið þar starfsþjálfun og skipta málin sem komið hafa til kasta þeirra hundruðum. Við Sálfræðiráðgjöf háskólanema er fengist við fjölbreyttan vanda, t.d. kvíða, þunglyndi, frestanahneigð, fullkomnunaráráttu, lágt sjálfsmat, svefntruflanir, félagsfælni og fleira.
Nánari upplýsingar um Sálfræðiráðgjöf háskólanema er að finna á vef Háskóla Íslands.