Jarðvísindamenn Háskólans fylgjast vel með landrisi á Reykjanesskaga
Vísindamenn við Jarðvísindastofnun Háskólans og Jarðvísindadeild skólans hafa staðið í ströngu síðustu sólarhringa eftir að jarðskorpuhreyfinga og óvenjuhraðs landriss varð vart nærri fjallinu Þorbirni við Grindavík á Reykjanesskaga. Talið er að landrisið gefi vísbendingar um kvikusöfnun á nokkurra kílómetra dýpi.
Jarðvísindastofnun Háskólans fylgist með jarskorpurhreyfingum á Reykjanesskaga í samstarfi með HS Orku, Veðurstofu Íslands og ÍSOR og hefur stofnunin hefur rekið fjórar síritandi GPS-mælistöðvar þar í samstarfi við HS Orku síðan 2013. Megintilgangur stöðvanna er að fylgjast með landbreytingum vegna jarðhitavinnslu en stöðvarnar nýtast einnig til mælinga á flekahreyfingum og kvikuhreyfingum.
Í kjölfar jarðskjálftahrinu við Grindavík 22. janúar 2020 fóru síritandi stöðvar í grennd Svartsengis að sýna hreyfingar sem vísa út frá fjallinu Þorbirni í grennd við Grindavík. Hreyfingarnar nema nú, 27. janúar, um 8 mm í láréttu plani en um 3 sm í lóðréttum þætti og sýna mælingarnar svipaðan aflögunarhraða yfir þessa daga.
Svokallaðar InSAR-bylgjuvíxlmælingar, sem framkvæmdar eru með Sentinel-gervitunglum Evrópsku geimvísindastofnunarinnar (ESA), sýna samsvarandi aflögunarmerki. Við staðsetningu á miðju merkisins ber að gæta að flugstefnu gervitunglsins, en sumar myndir er teknar er gervitunglið horfir til vinstri og sumar er gervitunglið horfir til hægri, og hefur það áhrif á hvað miðja merkisins virðist vera. Gervitunglin mynda Reykjanesskaga á nokkurra daga fresti.
Bráðabirgðalíkanreikningar sýna að rismiðjan er undir eða skammt vestan við fjallið Þorbjörn á nokkurra kílómetra dýpi.
Jarðvísindastofnun Háskólans fylgist með jarskorpurhreyfingum á Reykjanesskaga í samstarfi með HS Orku, Veðurstofu Íslands og ÍSOR og hefur stofnunin hefur rekið fjórar síritandi GPS-mælistöðvar þar í samstarfi við HS Orku síðan 2013. Meðfylgjandi mynd sýnir færslur á GPS-stöðvum síðustu daga.
Vísindamenn frá Háskólanum sátu ásamt fulltrúum Veðurstofunnar, ÍSOR og viðbragðsaðilum fund í gær þar sem farið var yfir atburðarásina og í framhaldinu var ákveðið að lýsa yfir óvissustigi Almannavarna vegna atburðanna.
Á vef Veðurstofunnar má sjá mögulegar sviðsmyndir í framhaldi af landrisinu en þar kemur fram að óvíst er hvort atburðarásin leiði til frekari atburða á svæðinu.
Til stendur að halda íbúafund í íþróttahúsinu Grindavík kl. 16 í dag þar sem vísindamenn frá Veðurstofunni og Jarðvísindastofnun munu gera grein fyrir stöðunni auk fulltrúa frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Suðurnesjum.