Góður langtímaárangur kransæðahjáveituaðgerða hjá sykursjúkum
Langtímalífslíkur sjúklinga með sykursýki, sem gangast undir kransæðahjáveituaðgerð hér á landi, eru almennt góðar en þó síðri en þeirra sem ekki glíma við sjúkdóminn. Þetta er meðal þess sem ný rannsókn íslenskra lækna leiðir í ljós en sagt er frá henni í vísindaritinu Interactive Cardiovascular and Thoracic Surgery.
Á Íslandi eru 17% sjúklinga sem gangast undir kransæðahjáveituaðgerð með sykursýki, sem er lægra hlutfall en í mörgum nágrannalanda okkar. Nefna má að í Bandaríkjunum er hlutfallið víðast hvar helmingi hærra. Sykursýki er þekktur áhættuþáttur kransæðasjúkdóms og sjúklingar með sykursýki þurfa oft að gangast undir hjáveituaðgerð. Ávinningur af slíkri aðgerð er mikill hjá þessum sjúklingahópi enda þótt langtímárangur sé síðri en hjá sjúklingum sem ekki glíma við sykursýki. Skýrist það aðallega af ýmsum fylgikvillum sem tengjast sykursýki og hafa áhrif á líffæri eins og nýru en einnig hjarta og æðakerfi.
Umrædd rannsókn, sem sagt er frá í grein í vísindaritinu Interactive Cardiovascular and Thoracic Surgery, hefur þá sérstöðu að öllum sjúklingunum var fylgt eftir í langan tíma, en afdrif þeirra könnuð bæði fyrst eftir aðgerðina en líka til langs tíma með því að safna upplýsingum frá öllum sjúkrahúsum landsins. Fyrsti höfundur greinarinnar er Tómas Andri Axelsson læknir en um er að ræða hluta af doktorsverkefni hans við Læknadeild Háskóla Íslands þar sem Tómas Guðbjartsson, prófessor og yfirlæknir, er handleiðari hans. MYND/Kristinn Ingvarsson
Rannsóknin nær til allra sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerðir á árunum 2001-2016 á Íslandi, alls 2060 manns, en þar af voru 17% með sykursýki. Sjúklingum var fylgt eftir í næstum níu ár að meðaltali og bornar saman langtímalífshorfur og tíðni alvarlegra fylgikvilla hjá sjúklingum með sykursýki og sjúklinga sem ekki voru með sjúkdóminn. Rannsóknin leiddi í ljós að dánartíðni eftir aðgerðina var almennt lág og 98% lifðu hana. Dánartíðni sjúklinga með sykursýki var þó ívið hærri innan 30 daga frá aðgerð. Auk þess voru langtímalífslíkur þeirra síðri enda þótt þær væru góðar fyrir báða hópa. Niðurstöðurnar eru í takt við sambærilegar erlendar rannsóknir og árangur hérlendis á pari við stærri sjúkrahús í nágrannalöndum okkar.
Rannsóknin sýnir að sykursýki er mikilvægur áhættuþáttur fyrir kransæðahjáveituaðgerðir, ekki aðeins fyrst eftir aðgerðina heldur einnig þegar til lengri tíma er litið. Því er sérstaklega mikilvægt að þessum sjúklingahópi sé fylgt náið eftir. Þá er mikilvægt er að sporna við aukinni sykursýki hér á landi en með vaxandi offitu, ekki síst hjá börnum, er búist við mikilli fjölgun slíkra tilfella á næstu árum. Þetta þýðir að fleiri sjúklingar sem gangast munu undir kransæðahjáveitu í framtíðinni verða með sykursýki en hlutfall þeirra hér á landi hefur verið frekar lágt í alþjóðlegum samanburði. Það breytir þó ekki því að ánægjulegt er að sjá hversu góður langtímaárangur er af þessum aðgerðum hér á landi, einnig fyrir sykursjúka.
Aðrir höfundar greinarinnar, auk Tómasanna tveggja, voru læknarnir Jónas A. Aðalsteinsson, Linda Ósk Arnardóttir, Daði Helgason, Hera Jóhannesdóttir, Sólveig Helgadóttir, Andri Wilberg Orrason og Karl Andersen prófessor.