Núvitundarmiðuð hugræn meðferð gegn þunglyndi og kvíða
„Í árafjöld hefur Ísland ávísað mest þunglyndislyfja allra aðildarríkja OECD. Það er því brýn nauðsyn að skoða ný meðferðarúrræði, sérstaklega er hópmeðferð ákjósanleg, til að getað meðhöndlað fleiri einstaklinga í hvert sinn,“ segir Svala Sigurðardóttir, læknir og doktorsnemi í lýðheilsuvísindum, sem rannsakar nú nýja meðferð á heilsugæslunni við þunglyndi og kvíða. Hún telur mjög mikilvægt að heilsugæslan geti boðið þeim sífellt stækkandi hópi sem til hennar leitar með geðræn vandamál nýjustu og bestu mögulegu þjónustu sem völ er á, byggða á sterkum vísindalegum grunni.
Meðferðin sem um ræðir kallast Núvitundarmiðuð hugræn meðferð (e. Mindfulness based cognitive therapy, MBCT). Að sögn Svölu er þetta átta vikna löng meðferð sem er samblanda af núvitundarmeðferð (e. Mindfulness Based Stress Reduction, MBSR) og hugrænni atferlismeðferð (HAM), sem er sú hópmeðferð heilsugæslan býður nú upp á. Þátttakendur hittast í hópi í um tvo og hálfan tíma vikulega og fá heimaverkefni þess á milli í formi hugleiðsluæfinga og jóga meðal annars.
Meðferðin er vísindalega gagnreynd og hefur gefið góðan árangur við meðhöndlun á þunglyndi, sérstaklega sem fyrirbyggjandi meðferð við endurteknum þunglyndislotum. Einnig hefur meðferðin reynst vel við kvíða og mildari formum af þunglyndi en er minna rannsökuð í þessum hópum og sem meðferð í boði innan heilsugæslu.
Áhugi Svölu á þessari ákveðnu meðferð kviknaði þegar hún fór í diplómanám í jákvæðri sálfræði þar sem hún lærði meðal annars um núvitundarmeðferðir. „Sem sérnámslæknir í heimilislækningum veit ég að margir skjólstæðinga minna eru með væg til miðlungs einkenni þunglyndis og kvíða. Þessi hópur er oftar en ekki settur á þunglyndislyf þrátt fyrir að klínískar leiðbeiningar segi það ekki fyrsta val.“
Svala segist hafa orðið þess vör að margir þessara sjúklinga vilji einhver önnur úrræði en lyf eða HAM sem heilsugæslan býður upp á og margir hafa prófað áður. Allt að 15 til 20 manns geta tekið þátt í einu í Núvitundarmiðaðri hugrænni meðferð, eins og HAM-meðferðinni, og þótti Svölu því kjörið að bjóða upp á báðar meðferðir þar sem gera má ráð fyrir að ein meðferð hentar ekki öllum og því möguleiki að ná til stærri hóps skjólstæðinga.
Fyrstu niðurstöður rannsóknar Svölu benda til þess að hópurinn sem fékk núvitundarmeðferðina sem viðbót við hefðbundna meðferð hjá heimilislækni sýni minni einkenni þunglyndis og kvíða en hópurinn sem fékk hefðbundna meðferð. Einnig dró hópurinn úr þunglyndislyfjanotkun sinni en í hópnum sem fékk hefðbundna meðferð jókst geðlyfjanotkunin hins vegar.