Miðstöð framhaldsnáms hefur umsjón með og fylgir eftir settum viðmiðum og kröfum um gæði framhaldsnáms við Háskóla Íslands með það að markmiði að stuðla að kröftugu vísindastarfi sem stenst alþjóðlegan samanburð og samkeppni. Markmið Miðstöðvar framhaldsnáms er að tryggja og efla gæði framhaldsnáms við Háskóla Íslands og stuðla að viðgangi þess í samræmi við ákvarðanir háskólaráðs. Helstu verkefni Miðstöðvar framhaldsnáms eru: Gæðaefling og gæðaeftirlit skilgreina og fylgja eftir sameiginlegum viðmiðum og kröfum um gæði framhaldsnáms við háskólann, fylgjast náið með þróun framhaldsnáms á alþjóðlegum vettvangi og beita sér fyrir því að framhaldsnám við háskólann sé ávallt í samræmi við alþjóðlega viðurkenndar gæðakröfur, fjalla reglulega um og endurskoða Viðmið og kröfur um gæði framhaldsnáms við Háskóla Íslands og gera eftir atvikum tillögur til háskólaráðs um reglur og/eða viðmið sem stuðla að gæðum framhaldsnáms, taka við erindum doktorsnema telji þeir að viðkomandi fræðasvið, deild eða námsleið fullnægi ekki settum viðmiðum og kröfum um gæði doktorsnáms við skólann, yfirfara og veita umsögn um tillögur að breytingum á reglum sviða og deilda um framhaldsnám áður en þær eru lagðar fyrir háskólaráð til samþykktar, veita umsögn um tillögur fræðasviða um nýjar námsleiðir í framhaldsnámi sbr. Verklagsreglur um undirbúning og stofnun nýrra námsleiða við Háskóla Íslands, áður en beiðni um stofnun nýrrar námsleiðar er lögð fyrir háskólaráð til samþykktar, fylgjast með því að starfandi námsleiðir í rannsóknatengdu framhaldsnámi séu í samræmi við gildandi viðmið og kröfur með því að kalla reglulega eftir gögnum frá sviðum og nemendaskrá, yfirfara tillögur deilda um andmælendur við doktorsvörn og samþykkja eða hafna tillögunum, yfirfara og halda utan um sértæka samstarfssamninga um framhaldsnám og sameiginlegar prófgráður í samráði við kennslusvið. Stuðningur við leiðbeinendur og nema standa reglulega fyrir námskeiðum og umræðufundum fyrir leiðbeinendur í samvinnu við Kennslumiðstöð og fræðasvið, standa fyrir móttöku nýrra doktorsnema við háskólann, standa reglulega fyrir námskeiðum og umræðufundum fyrir doktorsnema er varða almenna færni og fagmennsku í rannsóknum, stuðla að því, eins og kostur er, að doktorsnemar öðlist kennslureynslu, veita stuðning við starfsþróun doktorsnema í samvinnu við náms- og starfsráðgjöf, þróa, viðhalda og hafa eftirlit með rafrænu umsýslukerfi doktorsnáms (Doktorsnáman). Upplýsingamiðlun halda úti virkri heimasíðu og öðrum viðeigandi vefmiðlum fyrir miðstöðina, þar sem m.a. eru birtar árlegar staðtölur um doktorsnám, upplýsingar um styrkjamöguleika doktorsnema, skiptinám og framboð námskeiða á framhaldsstigi, vera vettvangur samráðs og samvinnu um framhaldsnám innan skólans, þ.á m. um kröfur til framhaldsnema og leiðbeinenda. facebooklinkedintwitter