Varði doktorsritgerð um orðspor Williams Faulkners á Íslandi

Haukur Ingvarsson hefur varið doktorsritgerð í íslenskum bókmenntum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Ritgerðin nefnist „Orðspor Williams Faulkners á Íslandi 1930–1960“. Andmælendur við vörnina voru dr. Soffía Auður Birgisdóttir, bókmenntafræðingur og fræðimaður hjá Rannsóknarsetri HÍ á Hornafirði, og dr. Rósa Magnúsdóttir, dósent í sagnfræði við Institut for Kultur og Samfund við Háskólann í Árósum í Danmörku. Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn dr. Jóns Karls Helgasonar, prófessors í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands. Í doktorsnefnd sátu dr. Ástráður Eysteinsson, prófessor í almennri bókmenntafræði og dr. Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði við sama skóla. Gauti Kristmannsson, forseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands 27. ágúst síðastliðinn. Hér er hægt að horfa á upptöku frá vörninni.
Um rannsóknina
Í ritgerðinni er leitað svara við því hvernig nafn bandaríska höfundarins, Williams Faulkners (1897–1962), varð til og þróaðist á íslenskum menningarvettvangi frá því að það bar fyrst á góma í íslenskum prentmiðli 8. maí 1933 og þar til sjöunda og síðasta þýðing Kristjáns Karlssonar á smásögu eftir Faulkner birtist á prenti árið 1960. Víðtækara markmið ritgerðarinnar er að kanna samspil íslenska bókmenntakerfisins við erlend bókmenntakerfi á umbrotatímum í Íslandssögunni þegar staða landsins gagnvart umheiminum tók miklum breytingum. Á því tímabili sem hér er til skoðunar breytist Ísland úr hjálendu Dana í sjálfstætt ríki, úr herlausu landi í hersetið og úr hlutlausu landi í hernaðarlega mikilvægt svæði á tímum seinni heimstyrjaldarinnar og síðar kalda stríðsins.
Um doktorsefnið
Haukur Ingvarsson lauk B.A.- og meistaraprófi í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands. Hann er rithöfundur og fæst jöfnum höndum við skáldskap og fræðileg skrif. Hann er stundarkennari við Háskóla Íslands og annar ritstjóra Skírnis – Tímarits Hins íslenska bókmenntafélags.
(Hér er hægt að skoða ljósmyndir sem teknar voru við vörnina).