COVID-19, stefnan og fjölbreyttar rannsóknaraðferðir efst á baugi
Haustþing Heilbrigðisvísindasviðs og eins árs afmæli Heilbrigðisvísindastofnunar fóru fram í beinu streymi frá Hátíðasal Háskóla Íslands miðvikudaginn 16. september. Dagskrá þingsins var tileinkuð starfsemi Heilbrigðisvísindasviðs á tímum COVID-19 og stefnu sviðsins. Afmælisdagskráin fjallaði um fjölbreyttar rannsóknaraðferðir á Heilbrigðisvísindastofnun.
Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, var sérstakur gestur á haustþinginu og fjallaði í fróðlegu erindi um starfsemi heilsugæslunnar á tímum COVID-19 og einnig þær skipulagsbreytingar sem hafa orðið hjá heilsugæslunni undanfarin ár.
Síðan var sjónum beint að starfsemi Heilbrigðisvísindasviðs í COVID-19 faraldrinum. Guðrún Björk Friðriksdóttir, sem hóf störf á sviðinu í nóvember sl. sem verkefnisstjóri í upplýsingamálum og rafrænni kennslu, fjallaði um kennslu- og prófatækniforritin Canvas og Inspera sem hafa reynst ómissandi.
Þóra Jenný Gunnarsdóttir, dósent við Hjúkrunarfræðideild og Eiríkur Steingrímsson, prófessor við Læknadeild, veittu innsýn í áskoranir og viðbragðslausnir tengdar COVID-19 í klínísku námi og á rannsóknastofunni.
Þeir Brynjólfur Gauti Jónsson, doktorsnemi og starfsmaður Tölfræðiráðgjafar, og Thor Aspelund, prófessor og forstöðumaður ráðgjafarinnar, fjölluðu um spálíkanagerð á tímum COVID-19. Líkanagerð þeirra félaga og samstarfsfólks hefur hlotið verðskuldaða athygli.
Stefna Heilbrigðisvísindasviðs og HÍ voru einnig til umfjöllunar á þinginu. Brynhildur K. Ásgeirsdóttir, formaður sviðsráðs nemenda Heilbrigðisvísindasviðs, kynnti sýn Stúdentaráðs á vinnu að nýrri stefnu og ítrekaði mikilvægi aðkomu stúdenta.
Hákon Hrafn Sigurðsson, prófessor og verkefnastjóri við undirbúning nýs heilbrigðisvísindahúss, gerði grein fyrir stöðu vinnunnar, meðal annars notendahópum. Að lokum tók Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs, til máls og fór yfir skipulag við vinnu að stefnu 2021-2026, hvaða mátti læra af innleiðingu stefnu HVS og HÍ 2016-2021 með árangur sem útgangspunkt. Spennandi tímar fara í hönd.
Fundarstjóri haustþingsins var Herdís Sveinsdóttir, prófessor og forseti Hjúkrunarfræðideildar.
Að loknu hléi tók við eins árs afmælisdagskrá Heilbrigðisvísindastofnunar.
Horfa á upptöku frá haustþinginu.
Afmæli Heilbrigðisvísindastofnunar
Inga Þórsdóttir bauð gesti velkomna á eins árs afmælishátíð Heilbrigðisvísindastofnunar. Afmælishátíðinn var frestað í tvígang sl vor, fyrst vegna óveðurs og síðan vegna COVID-19 farsóttarinnar. Örfáir gestir voru nú í Hátíðasal HÍ og dagskrá streymt.
Afmælisdagskráin hófst síðan með ávarpi Jóns Atla Benediktssonar, rektors HÍ, sem óskaði afmælisbarninu til hamingju og lýsti mikilvægi Heilbrigðisvísindastofnunar fyrir íslenskt samfélag.
Einar Stefán Björnsson, prófessor og fyrrverandi formaður vísindanefndar Heilbrigðisvísindasviðs, fjallaði um undirbúninginn að stofnun Heilbrigðisvísindastofnunar.
Vísindafólk við Heilbrigðisvísindasvið kynnti helstu rannsóknaraðferðir Heilbrigðisvísinda. Fanney Þórsdóttir, dósent við Sálfræðideild, fjallaði um faraldsfræði og rannsóknir á lýðheilsu, Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild, um klínískar rannsóknir, Helga Jónsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild, um eigindlegar rannsóknir og Elvar Örn Viktorsson, lektor við Lyfjafræðideild, um votrannsóknir eða rannsóknir á hinni klassísku tilraunastofu.
Að lokum fjallaði Magnús Gottfreðsson, prófessor við Læknadeild, um COVID-19 heimsfaraldurinn og hvert hann stefnir.
Fundarstjóri afmælisdagskrárinnar var Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor og aðstoðarrektor vísinda.
Horfa á upptöku frá afmælisdagskránni.
Skoða myndir frá báðum viðburðum.