Skip to main content

Vélaverkfræði

Vélaverkfræði

Verkfræði- og náttúruvísindasvið

Vélaverkfræði

BS gráða – 180 einingar

Vélaverkfræðinám er afar fjölbreytt og hagnýtt og opnar margar leiðir út í atvinnulífið. Viðfangsefnin eru fjölbreytt og má finna mjög víða. Til dæmis við þróun á nýtingu jarðhita og sjálfbærri orku, við hönnun kerfa og tækja sem létta okkur lífið og í nýsköpun tengdri líftækni, heilsu og stoðtækjum og svo mætti lengi telja.

Skipulag náms

X

Eðlisfræði 1 V (EÐL102G)

Markmið: Að kynna nemendum aðferðir og grundvallarlögmál aflfræði, stöðufræði og bylgjufræði til þeirrar hlítar að þeir geti beitt þeim við lausn dæma. Námskeiðinu er m.a. ætlað að vera undirstaða í þessum greinum fyrir frekara nám í verkfræði.

Námsefni: Hugtök, einingar, tölur, víddir. Vigrar. Gangfræði. Hreyfifræði agna, tregða, kraftar og lögmál Newtons. Núningur. Vinna og orka og varðveisla orkunnar. Skriðþungi, árekstrar. Agnakerfi, massamiðja. Snúningur stjarfhlutar. Hverfiþungi og hverfitregða. Stöðufræði. Þyngd. Storka og straumefni, jafna Bernoullis. Sveiflur: Hreinar, deyfðar og þvingaðar. Bylgjur. Hljóð.

Verklegt: Gerðar eru 3 verklegar æfingar þar sem viðfangsefnin eru einkum sótt í aflfræði og áhersla lögð á að kynna nemendum verklag við gagnasöfnun og úrvinnslu gagna.  Nemendur skila vinnubókum fyrir verklegu æfingarnar og fá einkunn.

Athugið að kennslubókin er aðgengileg nemendum í gegnum Canvas án endurgjalds.

X

Stærðfræðigreining I (STÆ104G)

Þetta er grunnnámskeið um stærðfræðigreiningu í einni breytistærð. Æskilegur undirbúningur er að nemendur hafi lokið námskeiðum á framhaldsskólastigi sem fjalla um algebru, rúmfræði, hornaföll, diffrun og heildun. Námskeiðið leggur grunn að skilningi á greinum á borð við náttúrufræði, verkfræði, hagfræði og tölvunarfræði. Umfjöllunarefni námskeiðsins eru meðal annars:

  • Rauntölur.
  • Markgildi og samfelld föll.
  • Deildanleg föll, reglur um afleiður, hærri afleiður, hagnýtingar deildareiknings (útgildisverkefni, línuleg nálgun).
  • Torræð föll.
  • Meðalgildissetning, setningar l'Hôpitals og Taylors.
  • Heildun, ákveðin heildi og reiknireglur fyrir þau, stofnföll, óeiginleg heildi.
  • Undirstöðusetning stærðfræðigreiningarinnar.
  • Hagnýtingar heildareiknings: Bogalengd, flatarmál, rúmmál, þungamiðjur.
  • Venjulegar afleiðujöfnur: fyrsta stigs línulegar diffurjöfnur, annars stigs línulegar diffurjöfnur með fastastuðlum.
  • Runur og raðir, samleitnipróf.
  • Veldaraðir, Taylor-raðir.
X

Línuleg algebra (STÆ107G)

Einingar til BS-prófs gilda aðeins fyrir annaðhvort REI201G  Stærðfræði og reiknifræði eða STÆ107G Línuleg algebra.

Fjallað er um undirstöðuatriði línulegar algebru yfir rauntölurnar.

Viðfangsefni: Línuleg jöfnuhneppi,fylkjareikningur, Gauss-Jordan aðferð.  Vigurrúm og hlutrúm þeirra.  Línulega óháð hlutmengi, grunnar og vídd.  Línulegar varpanir, myndrúm og kjarni.  Depilfargfeldið, lengd og horn.  Rúmmál í margvíðu hnitarúmi og krossfeldi í þrívíðu.  Flatneskjur, stikaframsetning og fólgin framsetning.  Hornrétt ofanvörp og einingaréttir grunnar.  Aðferð Grams og Schmidts.  Ákveður og andhverfur fylkja.  Eigingildi, eiginvigrar og hornalínugerningur.

X

Tölvunarfræði 1a (TÖL105G)

Einingar til BS-prófs gilda aðeins fyrir annaðhvort TÖL101G Tölvunarfræði 1 eða TÖL105G Tölvunarfræði 1a.

Forritun í Python (sniðið að verkfræðilegum og raunvísindalegum útreikningum): Helstu skipanir og setningar (útreikningur, stýri-setningar, innlestur og útskrift), skilgreining og inning falla, gagnatög (tölur, fylki, strengir, rökgildi, færslur), aðgerðir og innbyggð föll, vigur- og fylkjareikningur, skráavinnsla, tölfræðileg úrvinnsla, myndvinnsla. Hlutbundin forritun: klasar, hlutir, smiðir og aðferðir. Hugtök tengd hönnun og smíði tölvukerfa: Forritunarumhverfi, vinnubrögð við forritun, gerð falla- og undirforritasafna og tilheyrandi skjölun, villuleit og prófun forrita.

X

Verkfræðileg hönnun (VÉL101G)

Markmið: Að gera nemendur færa um að þróa og hanna framleiðsluvörur og vinnslukerfi.

Námsefni: Hönnunaraðferðir og huglæg hönnun: Þarfagreining aðgerðagreining, matsskilyrði, jaðarskilyrði, lausnarrúm og ákvörðunartaka. Hlutlæg hönnun: Form, samtengingar og víddir. Ákvörðunartaka, kerfisgreining og þekkingarkerfi. Tölvustudd hönnun: Þráðlíkan, yfirborðslíkan, rúmmálslíkan, framsetning og frágangur. Flutningakerfi, vörumeðhöndlun, vinnsla og pökkun. Vörugæði, ending og urðun.

X

Eðlisfræði 2 V (EÐL201G)

Kennt í 12 vikur. Markmið: Að kynna nemendum aðferðir og grundvallarlögmál rafsegulfræði og ljósfræði. Námsefni: Hleðsla og rafsvið. Lögmál Gauss. Rafmætti. Þéttar og rafsvarar. Rafstraumur, viðnám, rafrásir. Segulsvið. Lögmál Ampères og Faradays. Span. Rafsveiflur og riðstraumur. Jöfnur Maxwells. Rafsegulbylgjur. Endurkast og ljósbrot. Linsur og speglar. Bylgjuljósfræði. Verklegt: Gerðar eru fjórar tilraunir í ljósfræði og almennri rafsegulfræði. Nemendur skila vinnubókum fyrir allar tilraunir og formlegri skýrslu um eina tíma tilraun.

X

Líkindareikningur og tölfræði (STÆ203G)

Grundvallarhugtök í líkindafræði og tölfræði, stærðfræðileg undirstaða þeirra og beiting með tölfræðihugbúnaðinum R. 

  • Líkindi, slembistærðir og væntigildi þeirra
  • Mikilvægar líkindadreifingar
  • Úrtök, lýsistærðir og úrtaksdreifing lýsistærða
  • Metlar og öryggisbil
  • Hugmyndafræði tilgátuprófa
  • Mikilvæg tilgátupróf
  • Línuleg aðhvarfsgreining

X

Stærðfræðigreining II (STÆ205G)

Í námskeiðinu er fengist við stærðfræðigreiningu falla af mörgum breytistærðum. Helstu hugtök sem koma vip sögu eru:

Opin mengi og lokuð. Varpanir, markgildi og samfelldni. Deildanlegar varpanir, hlutafleiður og keðjuregla. Jacobi-fylki. Stiglar og stefnuafleiður. Blandaðar hlutafleiður. Ferlar. Vigursvið og streymi. Sívalningshnit og kúluhnit. Taylor-margliður. Útgildi og flokkun stöðupunkta. Skilyrt útgildi. Fólgin föll og staðbundnar andhverfur. Ferilheildi, stofnföll. Heildun falla af tveimur breytistærðum. Óeiginleg heildi. Setning Greens. Einfaldlega samanhangandi svæði. Breytuskipti í tvöföldu heildi. Margföld heildi. Breytuskipti í margföldu heildi. Heildun á flötum. Flatarheildi vigursviðs. Setningar Stokes og Gauss.

X

Tölvuteikning og framsetning (VÉL201G)

Í námskeiðinu er farið yfir grunnaðferðir teiknifræðinnar.  Markmiðið er að nemendur öðlist fræðilega undirstöðu, færni í lestri teikninga og miðlun upplýsinga með teikningum. Áhersla er lögð á tengsl milli rúmfræði 3-víðra hluta og 2-víðra varpanna af þeim. Ennfremur er farið yfir framsetningu upplýsinga í máli og myndum þannig að nemendur öðlist þekkingu og færni í að ganga frá teikningum og texta í samræmi við kröfulýsingu. Við lausn verkefna er stuðst við teikniforritið AutoCAD.

X

Burðarþolsfræði (VÉL202G)

Markmið námsskeiðsins er að gera nemendur færa um að reikna spennur, tognanir og færslur í einföldum burðarvirkjum vegna ytra álags. Námsefni m.a.: tog-, þrýsti- og skerspennur, vinduvægi, skerkraftar og beygjuvægi bita, spennur og færslur í bitum, spennur í plani og stöðufræðilega óákvörðuð kerfi. Kynnt eru sérhæfð forrit til að greina burðarvirki.

X

Stærðfræðigreining III (STÆ302G)

Í námskeiðinu er fjallað undistöðuatriði um tvö svið stærðfræðigreiningar, tvinnfallagreiningu og afleiðujöfnur, með áherslu á hagnýtingu og útreikninga á lausnum.

Viðfangsefni: Tvinntölur og varpanir á svæðum í tvinntalnasléttunni. Föll af einni tvinnbreytistærð. Fáguð föll. Veldisvísisfallið, lograr, rætur og horn. Cauchy-setningin og Cauchy-formúlan. Samleitni í jöfnum mæli. Veldaraðir. Laurent-raðir. Leifareikningur. Hagnýtingar á tvinnfallagreiningu í straumfræði. Venjulegar afleiðujöfnur og afleiðujöfnuhneppi. Línulegar afleiðujöfnur  með fastastuðlum. Ýmsar aðferðir til að reikna út sérlausnir. Green-föll fyrir upphafsgildisverkefni. Línuleg afleiðujöfnuhneppi. Veldisvísisfylkið. Veldaraðalausnir og aðferð Frobeniusar. Laplace-ummyndun og notkun hennar við lausn á afleiðujöfnum. Leifaformúlur fyrir Fourier-myndir og andhverfar Laplace-myndir.

X

Efnisfræði V (VÉL301G)

Markmið námskeiðsins er að kenna grundvallaratriði efnisfræði þannig að nemandi verði fær um að skilja hegðun efna og velja réttu efnin fyrir viðfangsefni sín. Fræðilegur grundvöllur er gefinn fyrir skilningi á hegðun efnisins út frá smásæjum sjónarhóli.
Námsefni m.a.: kristalgerðir málma, kristalveilur, atómsveim, aflfræðilegir eiginleikar, bjögun og hersluaðferðir málma, brot og málmþreyta, fasalínurit, fasahvörf, forsendur tæringar og fyrirbygging hennar. Nokkrir efnisflokkar eru teknir fyrir sérstaklega, svo sem stál, ál og aðrir léttmálmar og fjallað er um framleiðslu þeirra, eiginleika og notkunarsvið. Aðrir efnisflokkar, svo sem fjölliðuefni, keramíkefni og samsett efni eru kynntir og bornir saman við málma.
Í námskeiðinu eru dæmaæfingar og verklegar tilraunir.

X

Varmafræði og efnahvörf (VÉL303G)

Markmið: Að nemendur öðlist grunnþekkingu á varmafræði og skilning á helstu hugtökum hennar. Einnig að nemendur kunni skil á mismunandi formum orku, hvort sem er í orkuflutningi eða umbreytingu úr einu formi í annað og að nemendur kunni skil á ferlum í útreikningi á efnahvörfum og orkuummyndun tengdum þeim.

Námsefni:

  • Grunnhugtök og stærðfræðiaðferðir í varmafræði.
  • Núllta lögmál varmafræðinnar. 
  • Vinna, varmi og fyrsta lögmál varmafræðinnar.
  • Kjörgas, raungas, ástandsjöfnur og ástandsmyndir.
  • Óreiða og annað lögmál varmafræðinnar.
  • Óreiða og hámarksvinna.
  • Kynning á vinnuhringjum (Otto, Diesel, Brayton, Stirling og gufuvinnuhringjum), kælivélum og varmadælum.
  • Varmafræðileg mætti, Maxwell-vensl.
  • Varma- og hraðafræði efnahvarfa. 
  • Jafnvægisskilyrði.
  • Efnajafnvægi: sýru-basa, fellingar-, komplex- og afoxunar.
  • Efnablöndur, efnahvörf og efnalausnir.
  • Sjálfgeng efnahvörf, óreiða og fríorka – jafna van t' Hoff
  • Þriðja lögmál varmafræðinnar.
X

Mælitækni og gagnavinnsla (VÉL304G)

Markmið námskeiðs er að þjálfa nemendur að hanna og setja upp tilraunir og vinna úr niðurstöðum þeirra. Farið er í hönnun tilrauna, framkvæmd þeirra, söfnun gagna, framsetningu og úrvinnsla þeirra með tölfræðilegum aðferðum.  Nemendur vinna með hina ýmsu skynjara (þrýsting, hita, hröðun o.s.frv.) forrita miðlægar gagnageymslur aðgengi að þeim og miðlun gagna og niðurstaðna. Lögð er áheyrsla á að nemendur geti hannað tilraunir fyrir sérhvert viðfangsefni og hvernig draga megi ályktanir út frá gögnum/upplýsingum við hönnun.

X

Straumfræði (VÉL502G)

Markmið:

1. Að kynna helstu hugtök straumfræðinnar og koma nemendum í skilning um hvernig stærðfræði er beitt við flókin viðfangsefni og hvernig hægt er að fá nálgunarlausnir með einföldun án þess að tapa miklu í nákvæmni.

2. Að gera nemendur færa um að beita straumfræðinni til þess að reikna mótstöðu hluta og þrýstifall í pípum.

3. Að þjálfa þá í að beita mæliaðferðum í straumfræði.

4. Að beita þverfaglegri þekkingu á helstu sviðum vélaverkfræðinnar.

Námsefni m.a.: Eiginleikar kvikefna (vökva og lofttegunda). Þrýstingur og kraftasvið í kyrrstæðum vökvum, þrýstingsmælar. Rennslisfræði, samfellujafna, skriðþunga- og orkujafna. Hreyfijafna Bernoullis. Víddargreining og líkanlögmál. Tvívítt streymi, seigjulausir vökvar, jaðarlög, lag- og iðustreymi, vökvamótstaða og formviðnám. Streymi þjappanlegra vökva, hljóðhraði, Mach tala, hljóðbylgjur, lögun túðu fyrir yfirhljóðhraða. Rennsli í opnum og lokuðum farvegum. Dæmaæfingar og verklegar tilraunir.

X

Töluleg greining (STÆ405G)

Einingar til BS-prófs gilda aðeins fyrir annaðhvort REI201G Stærðfræði og reiknifræði eða STÆ405G Töluleg greining.

Undirstöðuhugtök um nálgun og skekkjumat. Lausn línulegra og ólínulegra jöfnuhneppa. PLU-þáttun. Margliðubrúun, splæsibrúun og aðhvarfsgreining. Töluleg nálgun afleiða og heilda. Útgiskun. Töluleg lausn upphafshafsgildisverkefna fyrir venjuleg afleiðujöfnuhneppi. Fjölskrefaaðferðir. Töluleg lausn jaðargildisverkefna fyrir venjulegar afleiðujöfnur.

Gefin er einkunn fyrir skriflegar úrlausnir á forritunarverkefnum og vegur hún 30% af heildareinkunn. Stúdent verður að hafa lágmarkseinkunn 5 bæði fyrir verkefni og lokapróf.

X

Orkuferli (VÉL405G)

Markmið: Gera nemendur færa um: 1. Að skoða varmafræði í ljósi annars lögmáls varmafræðinnar. 2. Að skilja fræðilega vinnuhringi véla og hvernig hægt er að beita þeim til að reikna út afl þeirra. 3. Að skilja og meta nauðsyn loftræsikerfa. 4. Að skilja varmaefnafræði og meta og reikna varma, sem myndast við bruna. Námsefni: Vinna, varmi og umbreyting orku. Exergía og anergía. Orka, verð og gæði. Fræðilegir vinnuhringar varmavéla og kælivéla. Gufuvinnuhringir, nýting jarðvarma. Gasblöndur, rakt andrúmsloft, loftræsing og hreinlætistæki. Mollier rit. Varmaefnafræði, brennslufræði og efnahvörf, jafnvægi efnahvarfa. Ný orkukerfi. Dæmaæfingar og hönnunarverkefni.

X

Hreyfikerfi og sveiflur (VÉL406G)

Markmið: Að nemendur öðlist grunnþekkingu í hreyfikerfum og sveiflufræði og skilning á helstu hugtökum þessara greina. 

Námsefni:

  • Aflfræði Newtons, línulegar sveiflur, deyfðar og þvingaðar sveiflur.
  • Frjálsar og drifnar sveiflur í línulegum kerfum með einni frelsisgráðu.
  • Svipular sveiflur, eigintíðnir og dempun.
    Laplace ummyndanir og Fourier raðir.
  • Sveiflur í kerfum með tveimur frelsisgráðum.
  • Hnikareikningur, regla Hamiltons, jöfnur Lagrange og Hamiltons, alhnit og skorður.
  • Aflfræði stjarfra hluta, tregðufylki, höfuðásar hverfitregðu, horn Eulers, jöfnur Eulers um áhrif vægis á snúning hlutar, snúðhreyfing og stöðugleiki hennar.
  • Tölulegar aðferðir til lausnar á kerfum með mörgum frelsisgráðum.
  • Sveiflur í samfelldum kerfum.
X

Hönnun vélbúnaðar (VÉL407G)

Markmið námsskeiðsins er að gefa yfirlit yfir helstu tegundir vélhluta. Jafnframt að gera nemendur færa um að velja viðeigandi íhluti byggða á þeim kröfum sem þeir þurfa að uppfylla. Einnig er farið yfir aðferðir við að hanna vélhluti og greina, velja efni og ákvarða líftíma þeirra.

Námsefnið inniheldur m.a.: Brotkenningar við stöðuálaga, þreytubrot, bolta- og suðusamskeyti, velti- og rennilegur, reimdrif, keðjudrif, gírar, öxlar, tengi og hemla.

X

Örtölvur og vélbúnaður (VÉL408G)

Markmið námskeiðsins er að kenna nemendum að hanna vélbúnað sem byggir á stýritækni, rafbúnaði og aflliðum. Jafnframt að tengja saman stýritækni, rafmagnsfræði og vélhlutafræði. Námsefni: Aflgjafar, drifbúnaður, færslukerfi, mælinemar, reglar og tölvustýringar. Vökvaþrýstikerfi, loftþrýstikerfi, færibönd, flutningakerfi og fiskvinnsluvélar. 

Námsefni: 

  • Einfaldar rafrásir og notkun þeirra til mælinga á eðlisfræðilegum stærðum, svo sem færslu, þrýstingi, hitastigi og rennsli.
  • Einfalda hreyfla og notkun þeirra til færslu eða stýringar á vélrænum kerfum, t.d. þjörkum.
  • Grunnatriði sjálfvirkrar stýritækni og notkun afturvirkni við stýringar.
  • Notkun örgjörva til mælinga og stýringa á einföldum tæknilegum kerfum.
  • Vinnubrögð við hönnun tæknilegra kerfa, þ.m.t. markmiðssetning, greining, útfærsla, smíði, prófanir og endurbætur.
X

Mentor í Spretti (GKY001M)

Í námskeiðinu felast verkefni nemenda í  að vera mentor fyrir þátttakendur á framhalds- og háskólastigi í verkefninu „Sprettur”. Mentorar sinna því mikilvæga starfi að styðja og hvetja ungmenni í námi og félagslífi. Hlutverk mentora er að skapa uppbyggjandi samband við þátttakendur, vera jákvæð fyrirmynd og taka þátt í sameiginlegum viðburðum skipulögðum í Spretti. Mentorhlutverkið snýst um tengslamyndun og samveru sem felur í sér skuldbindingu gagnvart ungmennunum sem mentor styður.  

Sprettur er verkefni sem styður við nemendur með innflytjenda- eða flóttamannabakgrunn sem koma úr fjölskyldum þar sem fáir eða engir hafa háskólamenntun.  Nemendur í námskeiðinu eru mentorar þátttakenda og eru þeir tengdir saman með hliðsjón af sameiginlegu áhugasviði. Hver mentor ber ábyrgð á að styðja tvo þátttakendur. Mentorar skipuleggja samveru og verja þremur klukkustundum á mánuði (frá ágúst fram í maí) með þátttakendum í Spretti, þremur klukkustundum í mánuði í heimavinnuhópi og mæta í fimm málstofur sem dreifast yfir skólaárið. Nemendur skila dagbókarfærslum á Canvas í nóvember og mars. Dagbókarfærslur byggjast á lesefni og hugleiðingum nemenda um mentorstarfið. Námskeiðið er kennt á íslensku og ensku.  

 Nemendur sækja um þátttöku á námskeiðinu. Sjá rafrænt umsóknareyðublað.  Umsækjendur fara í viðtal og eru 15-30 nemendur valdir til þátttöku.   

Frekari upplýsingar um verkefnið „Sprettur” má nálgast hér: www.hi.is/sprettur 

X

Hagverkfræði (IÐN502G)

Markmið námskeiðsins er að gera nemendur færa um:

1. Að skilja helstu hugtök bókhalds, kostnaðarreiknings og fjárfestingarfræði.

2. Að nota aðferðir til að meta hagkvæmni verktæknilegra kosta.

3. Að gera reiknilíkan til að meta arðsemi fjárfestinga, virði fyrirtækja og verðleggja hlutabréf og skuldabréf.

Meðal námsefnis er  bókhald, kostnaðarreikningar, greining á fjárstreymi, fjárfestingarfræði, mælikvarðar á arðsemi, þar á meðal núvirði og innri vextir, og gerð  arðsemilíkana. Námskeiðinu lýkur með hópverkefnum þar sem nemendur æfa arðsemimat verkefna.

X

Töluleg burðarþolsgreining (VÉL103M)

Markmið námskeiðsins er að kynna fræðilegan grunn finite element greiningar, ásamt því að þjálfa nemendur í að setja upp og sannreyna greiningar á raunverulegum hlutum/viðfangsefnum í vélaverkfræði.

Námsefni m.a. eftirfarandi: grunnjöfnur, formföll, stífnifylki (element- og  kerfisstífnifylki), ísoparametrísk framsetning, hnitaskipti, töluleg tegrun. Tekin eru fyrir mismunandi element eins og stangar- og bitaelement, skífuelement, þrívíddar element, plötu- og skeljarelement. Aðaláherslan í námskeiðinu er á spennugreiningu í burðarþolsfræði (reikna færslur og spennur) en nemendur geta valið hönnunarverkefni á öðru sviði t.d. sveiflufræði og varmaflutningsfræði.

Námskeiðið samanstendur af fyrirlestrum og vinnutímum. Námsmat byggir á heimaverkefnum, misserisprófum og hönnunarverkefni. Nemendur nýta Python (líka val um Matlab) og Ansys við lausnir á verkefnum.

X

Sjálfvirk stýrikerfi (VÉL504G)

Helstu aðferðir hefðbundinnar sjálfvirkrar stýritækni. Líkön ýmissa kerfa á formi yfirfærslufalla og ástandsjafna, hermun, tíma- og tíðnisvörun kerfa. Eiginleikar stýrikerfa með afturvirkni, stöðugleiki, næmni, þol gegn truflunum, skekkjustuðlar. Stöðugleikagreining, regla Routh. Greining og hönnun með rótarferlum og í tíðnirúmi, fasaflýtir, fasaseinkari, PID stýringar. Tölvustýrð kerfi, A/D og D/A breytur, vörpun á samfelldum stýringum yfir á stakrænt form. Greining og hönnun stakrænna kerfa.

X

Gæðastjórnun (IÐN101M)

Markmið: Nemendur fái skilning á uppruna og þróun gæðastjórnunar og hvernig fyrirtæki og stofnanir geta byggt upp stjórnkerfi á grundvelli alþjóðlegs gæðastjórnunarstaðals. Í námskeiðinu er meðal annars fjallað um gæðahugtakið, innri og ytri viðskiptavini, gæðabrag, umbótaferli, liðsvinnu, gæðakostnað og gæðahringhrás og samhengi gæðastjórnunar og hönnunar og notkun tölfræði í gæðastjórnun. Sérstök áhersla er lögð á umfjöllun um ISO9001 gæðastaðalinn og nemendur fást við hann í hópvinnu með því að skoða kröfur hans í samhengi við starfandi fyrirtæki.

X

Verkefnastjórnun (IÐN503G)

Í námskeiðinu eru kennd grunnatriði í verkefnastjórnun. Farið verður yfir grunnhugtök, umhverfi og val verkefna, áætlunargerð, eftifylgni, stjórnun verkefnateyma og lok verkefna. Nemendur fá þjálfun í gerð verkefnaáætlana og að takast á við áskoranir við framkvæmd og lok verkefna. Sérstök áhersla er á notkun verkefnastjórnunar við tækninýsköpun í skipuheildum.

X

Vörustjórnun og umhverfismál (IÐN510M)

Tilgangur námskeiðsins er að fara í gegnum grundvallaratriði lokistik (vörustjórnunar), stjórnun aðfangakeðja og áhrif þeirra á umhverfið. Námskeiðið er í raun þríþætt þar sem byrjað er á að fara í gegnum þá þætti sem snúa að innkaupum á vörum og þjónustu ásamt stjórnun birgða. Því næst er tekið á þeim þáttum sem snúa að flutningum og dreifingu. Að lokum er áhrifum aðfangakeðja á umhverfi gert greinagóð skil og öllum þremur þáttunum steypt saman í eina heild sem styður sjálfbærni.

Námskeiðið er kennt með því fyrirkomulagi að haldnir eru fyrirlestrar til að útskýra fræðilega undirstöðu greinarinnar en til að fá aukinn skilning á einstökum þáttum verða reiknuð dæmi sem skila þarf inn til yfirferðar. Samhliða fyrirlestrum og dæmatímum verður unnið með fyrirtækjaspil í hópum auk þess að spila „The Beer game“ - þar sem þáttakendur leika hlutverk fyrirtækja sem og taka þátt í raunhæfum hlutverkum stjórnenda.

X

Umhverfisverkfræði G (UMV302G)

Markmið námskeiðsins er að veita nemendum innsýn í þverfaglegan heim umhverfisverkfræðinnar. Áhersla er lögð á að auka skilning á ástæðum fyrir umhverfisvandamálum og kynna hagnýtar aðferðir til að greina og leysa þau. Viðfangsefni eru: Staðbundin og hnattræn umhverfisvandamál, massavarðveislulögmál, umhverfisefnafræði, áhættugreining, mengun í vatni, vatns- og skólphreinsun, loftmengun, sorphirða, hnattræn hlýnun og heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Fyrirlestrar og dæmatímar verða kenndir á íslensku. Skriflegt efni (glærur, heimadæmi og kennslubók) er á ensku. Nemendur vinna hóprannsóknaverkefni sem innifelur gagnasöfnun úr felti, ritgerðarskrif og munnlega kynningu. 

X

Starfsþjálfun í vélaverkfræði (VÉL064G)

Markmið starfsþjálfunarinnar er að þjálfa nemendur í að vinna störf undir handleiðslu sérfræðinga hjá fyrirtækjum og stofnunum.  Verkefnin skulu tengjast einhverjum þeirra námsgreina sem kenndar eru við Námsbraut í vélaverkfræði og skulu þau reyna á þá þekkingu og færni sem nemandi hefur aflað sér þar. 

 Í lok starfstímans skal nemandi skila til umsjónarmanns: 

  • Skýrslu um meginverkefni nemandans og tengslum þess við nám hans í vélaverkfræði. Í skýrslunni skal einnig koma fram hvaða námsmarkmið nemandinn setti sér í upphafi starfsþjálfunar og hvernig hann náði þeim í verkefnunum. 
  • Dagbók sem nemandi hefur haldið meðan á starfstíma stóð. Dagbókin skal fela í sér vikulegt yfirlit þar sem fram kemur hver verkefni vikunnar voru og hve miklum tíma var varið í einstök verkefni. 

Starfsþjálfun telst ekki lokið fyrr en umsjónarmaður fyrirtækis/stofnunar hefur skilað staðfestingu á ástundun nemandans og verkefnavinnu og umsjónarmaður starfsþjálfunar hjá Námsbraut í vélaverkfræði hefur staðfest skilin. 

ATH: Nemendur geta ekki skráð sig sjálfir í þetta námskeið heldur eru þeir skráðir í námskeiðið þegar þeir hafa tryggt sér starfsþjálfunarstöðu hjá fyrirtæki eða stofnun. 
 
Allar starfsþjálfunarstöður verða auglýstar sérstaklega á Tengslatorgi (www.tengslatorg.hi.is ) í upphafi hvers kennslumisseris og nemendur sækja sérstaklega um að komast í starfsþjálfun.  Umsókn ásamt ferilskrá og kynningarbréfi, þar sem nemendur tilgreina hvers vegna þeir hafa áhuga á að komast í starfsþjálfun hjá viðkomandi fyrirtæki skal senda á von-starfsthjalfun@hi.is 

X

Valið efni í vélaverkfræði (VÉL072M)

Farið er yfir valið efni í rannsóknum og þróun í vélaverkfræði. Umfjöllunarefni er breytilegt milli ára.

Nemendur hafa samband við kennara og námsbrautarformann varðandi skráningu í námskeiðið.

X

Orkufrek framleiðsluferli (VÉL102M)

Markmið: Að nemendur fræðist um framleiðsluferli í efnistækni. Að hvetja nemendur til að hugsa um möguleika Íslands til að hagnýta endurnýjanlega orku. Farið verður yfir framleiðsluferli í íslenskum framleiðslufyrirtækjum, t.d. framleiðslu kísiljárns, rafgreiningu áls, framleiðslu steinullar og fleira. Kynnt verða ýmis stærri framleiðsluferli í efnistækni, með sérstakri áherslu á þau ferli sem þykja fýsilegur kostir á Íslandi. Lögð verður áhersla á að nemendur fái yfirsýn yfir framleiðsluferlin, hráefni, orkugjafa/orkuþörf, framleiðsluaðferðir, mengun, afurðir o.fl. Einnig verður rætt um efnahagslegan bakgrunn, þ.e. kostnað, hagnað og markaðssveiflur. 1-2 stór hagnýt verkefni eru unnin samhliða fyrirlestrum allt misserið og farið er í vettvangsferðir.

X

Tæring (VÉL501M)

Markmið: Að nemendur þekki tæringu sem rafefnafræðilegt hvarf, geti lagt mat á tæringarhættu mismunandi málma við mismunandi aðstæður og kunni skil á aðferðum til tæringarmælinga og tæringarvarna. Námsefni: Tæring sem rafefnafræðilegt hvarf, áhrif spennu- og straumbreytinga. Tæringarflokkar, samhengi við málmgerðir og áhrif umhverfis. Aðferðir til tæringarmælinga; vigttap, rafefnafræðilegar aðferðir (electrochemical corrosion measurements) og viðnámsmælingar (electrical resistance). Möguleikar og takmarkanir aðferða til að mæla tæringarhraða og meta tæringarferli. Aðferðir til tæringarvarna.

Námskeiðið er kennt annað hvert ár þegar ártal endar á slétri tölu.

X

Hönnun og smíði rafknúins kappakstursbíls - hluti A (VÉL503M)

Valnámskeið fyrir BS- og MS-nemendur í verkfræði og raunvísindum.

Markmið:
Að taka þátt í hinu alþjóðlega Formula Student verkefni með því hanna og smíða rafknúinn kappakstursbíl frá grunni með það í huga að taka þátt í alþjóðlegum keppnum háskóla. Bíllinn er af Go-Kart gerð. Kröfur sem gerðar eru til slíks farartækis eru miklar og því mun það veita nemendum víðtæka reynslu af lausnum verkfræðilegra vandamála, sem er meginmarkmið verkefnisins.

Nemendum verður skipt í teymi sem hér segir: Stoðgrind/fjöðrun, vél/drif, rafbúnaður/skynjarar, bremsur/stýring og verkefnastjórnun/hönnunarsamræming. Einn leiðsögumaður úr hópi kennara verður tengiliður hvers teymis. Teymin vinna sjálfstætt en leiðsögumaður er teymum til halds og trausts og ber ábyrgð á námsmati.

Hluti A snýst um undirbúning verkefnisins, áætlanagerð og hönnun bílsins.

X

Verkefni (VÉL509G)

Nemendum á þriðja ári er gefinn kostur á að vinna að verkefni sem tengist vélaverkfræði. Verkefnið er unnið undir umsjón a.m.k. eins fastráðins kennara deildarinnar. Verkefninu lýkur með samningu ritgerðar eða munnlegu prófi, sem metin er til einkunnar.

Nemendur hafa samband við kennara og námsbrautarformann varðandi skráningu í námskeiðið.

X

Rannsóknir, nýsköpun og þróun (VÉL510G)

Nemendum á þriðja ári er gefinn kostur á að vinna að rannsóknum sem tengist rannsóknum kennara í vélaverkfræði í 8-10 tíma á viku yfir misserið.

Verkefnið tengist öðrum rannsóknar- og þróunarverkefnum við deildina og lýkur með veggspjaldi eða erindi sem kynnt er á árlegri ráðstefnu Verkfræðistofnunnar eða með grein á ráðstefnu.

Mögulegt er að endurtaka námskeiðið og taka samtals 12 einingar.

Nemendur hafa samband við kennara og námsbrautarformann varðandi skráningu í námskeiðið.

X

Varmaflutningsfræði (VÉL601G)

Markmið:

1. Að kynna helstu hugtök varmaflutningsfræði og koma nemendum í skilning um hvernig varmaflutningur milli tveggja efna fer fram.

2. Að gera nemendur færa um að hanna varmaskipta.

Námsefni m.a.: Varmaleiðing, einvítt og tvívítt kerfi, stöðug og óstöðug varmaleiðni, töluleg greining tvívíddarkerfa. Ribbur og stækkaður hitaflötur. Efnisflutningur og varmaburður (convection), lag- og iðustreymi. Frjálst og þvingað streymi. Eiming og þétting. Varmageislun, lögmál Stefan-Boltzmanns og Plancks. Geislunareiginleikar efna. Formstuðull, geislaflutningur milli flata og geislunareiginleikar lofttegunda. Dæmaæfingar og hönnunarverkefni.

X

Tölvustudd framleiðsla (VÉL608G)

Markmið námskeiðsins er að gera nemendum fært að gera sér skipulega mynd af mismunandi framleiðsluferlum, mismunandi efnum, velja ferla fyrir mismunandi verkefni og átta sig á kostum og göllum við hvern feril. Tekin er fyrir framleiðsla úr hráefni að endanlegum hlutum með mismunandi ferlum s.s. steypu, völsunar, útpressun, vélvinnslu og skurðar. Tengingar hluta í samsetningar með varanlegum og óvaranlegum aðferðum eru útskýrðar ásamt meðhöndlun yfirborðs til styrkingar og varnar gagnvart umhverfi. Helstu frumgerðartækni eru útskýrð og nýting þeirra í hönnun nýrra hluta. Verklegur hluti námskeiðsins hermir þessa framleiðsluferla og tengir námsefnið við raunverulega framleiðslu hluta úr málmum eða plasti.

X

Nýsköpun og hönnun (VÉL609G)

Í námskeiðinu kynnast nemendur hugtökum og aðferðum við nýsköpun, t.d. þarfagreiningu, SVÓT-greiningu, aðferðir við hugmyndaleit, notkun hugmyndabanka og síun á hugmyndum.

Nemendur öðlast góða yfirsýn yfir þann hugbúnað sem býðst fyrir verkfræðilega hönnun.  Auk þess munu nemendur kynnast því nýjasta sem er að gerast á fagsviðinu, s.s. í greiningu, hermun, frumgerðasmíði og bestun.  Nemendur verða færir um að beita aðferðum bestunarfræðinnar við hönnun. Bæði verður fjallað um línulega og ólínulega bestun. Áhersla verður á að sannreyna niðurstöður.

X

Stærðfræðigreining IV (STÆ401G)

Markmið: Að kynna fyrir nemendum Fourier-greiningu og hlutafleiðujöfnur og hagnýtingu á þeim.

Lýsing: Fourier-raðir og þverstöðluð fallakerfi, jaðargildisverkefni fyrir venjulega afleiðuvirkja, eigingildisverkefni fyrir Sturm-Liouville-virkja, Fourier-ummyndun, bylgjujafnan, varmaleiðnijafnan og Laplace-jafnan leystar á ýmsum svæðum í einni, tveimur og þremur víddum með aðferðum úr fyrri hluta námskeiðsins, aðskilnaður breytistærða, grunnlausn, Green-föll, speglunaraðferðin.

X

Framleiðsluferlar og tækni (VÉL216M)

Í þessum áfanga verður farið í nokkra fyrirferðarmikla orku- og framleiðsluferla og tækni þeirra í íslensku atvinnulífi; álframleiðsla, kísiljárnframleiðsla, gas- og jarðgerð úr lífrænum úrgangi, málningarframleiðsla o.fl.  Einnig verða skoðaðir nýir og umhverfisvænir framleiðsluferlar sem geta mögulega komið í stað eldri framleiðsluferla í framtíðinni.

X

Efnis- og orkujafnvægi (EVF401G)

Kynning á ferlum og almennt um efnis- og orkujafnvægi í iðnaðarferlum. Greining á hegðun gastegunda, gas-vökvakerfa og fasajafnvægi. Massa- og orkujafnvægi í kerfum með og án efnahvarfa.

X

Þróun hugbúnaðar (HBV401G)

Í þessu námskeiði stíga nemendur skrefið frá því að forrita sjálfir lítil forrit til að leysa vel skilgreind afmörkuð verkefni yfir í að vinna í hópi með öðrum að gerð stærri forritakerfa sem uppfylla stundum óljósar kröfur viðskiptavina. Námskeiðið fjallar um ýmsar grunnhugmyndir hugbúnaðarverkfræði til að fást við slík stærri kerfi, svo sem lipur hugbúnaðarferli, hugbúnaðarferli byggð á áætlunum, þarfaverkfræði, mat á vinnumagni, hlutbundna greiningu og hönnun, högun hugbúnaðar og þróun byggða á prófunum. Notkun þessara hugtaka er æfð í hópvinnuverkefnum þar sem nemendur þróa kerfi sem eru samsett úr minni þáttum og forrituð í Java.

X

Nýsköpun og gerð viðskiptaáætlana (IÐN202M)

Markmið: Gera nemendur færa um að skilja eðli og ferli nýsköpunar, einkenni og virkjun frumkvæðis og skrifa viðskiptaáætlun fyrir tiltekna hugmynd. Fjallað verður um öll atriði er tengjast gerð viðskiptaáætlana. Þar er einkum um að ræða; hugmyndaleit, hugmyndamat og skilgreining á viðskiptahugmynd (þörf og lausn). Markaðsmál, sölumál og samkeppni varðandi hugmyndina og framsetning eftirpurnarfalls. Tæknin sem lausnin byggir á og tæknileg sérstaða lausnarinnar. Gerð framkvæmdaáætlunar fyrir tæknilega útfærslu lausnarinnar (verk- og tímaáætlun). Vernd hugverka og einkaleyfi. Gerð stofnkostnaðar- og fjármögnunaráætlunar. Gerð fjárhagsáætlana; rekstrar- og greiðsluáætlun ásamt áætlun um efnahagsreikning og arðsemis- og andvirðismat. Útreikningur ýmissa lykiltalna. Umfjöllun um stofnendur, eigendur og stjórnskipulag. Verkefnavinna: Þátttakendur vinna verkefni á grundvelli hugmyndaleitar og hugmyndamats. Verkefnin eru annað hvort sprottin úr hugmyndum þátttakenda eða tengjast starfandi fyrirtækjum. Verkefnin eru unnin í þriggja manna hópum og skila nemendur 4 áfangaskýrslum og verja verkefnin munnlega í lok misseris. Lokaskýrsla skal vera fullmótuð viðskiptaáætlun ásamt arðsemismati og tillögum um hvernig verkefninu skuli hrint í framkvæmd.

X

Aðgerðagreining (IÐN401G)

Í námskeiðinu er nemendum kynnt hvernig gera á skipulega mynd af ákvörðunar- og bestunarverkefnum í aðgerðagreiningu.
Að námskeiði loknu eiga nemendur að hafa færni í að setja upp, greina og leysa stærðfræðileg líkön sem standa fyrir raunhæfum verkefnum og hvernig meta eigi lausn þeirra á gagnrýninn hátt. Tekin eru fyrir línuleg bestun og Simplex aðferðin, auk skyld fræðileg efni.
Námskeiðið kynnir auk þess stærðfræðileg líkön fyrir einstök verkefni; flutningsverkefni, úthlutunarverkefni, netverkefni og heiltölubestun. Nemendur kynnast einnig sérhæfðu forritunarmáli við líkangerð fyrir línulega bestun.

X

Hermun (IÐN403M)

Farið er yfir stakræna atburða hermun, tölfræðilega líkanagerð, hönnun hermilíkana, gerð tilrauna, prófanir líkana og túlkun niðurstaðna hermana. Fjallað er um sennileikamat á líkindadreifingum út frá mælingum. Námskeiðið kynnir auk þess fræðin á bak við gerð slembuframkallara og prófun þeirra. Farið er í grunnforritun á hermilíkönum og sérhæfðir hermihugbúnaðir kynntir. Nemendur vinna raunhæft hermiverkefni þar sem áhersla er lögð á hönnun og greiningu á framleiðslukerfi eða þjónustukerfi.

X

Hönnun og framkvæmd tilrauna (IÐN405G)

Tilgangur námskeiðs er að þjálfa verkfræðilega nálgun á tilraunir og tilraunahugsun. Farið er í hönnun tilrauna, framkvæmd þeirra, söfnun gagna og úrvinnsla þeirra með tölfræðilegum aðferðum. Að lokum er farið í hvernig draga megi ályktanir út frá gögnum / upplýsingum við notkun tilrauna við til dæmis vöruhönnun og hönnun og rekstur framleiðslukerfa.

Námsefni: Línuleg og ólínuleg aðhvarfsgreining. Fervika- og þáttagreining. Hönnun tilrauna. Tölfræðilegt gæðaeftirlit. Stikalaus próf sem beita má við úrvinnslu á gögnum. Notkun tölfræðiforrita við lausn á verkefnum.

X

Inngangur að kerfislíffræði (LVF601M)

Kerfislíffræði er þverfaglegt svið sem rannsakar líffræðileg fyrirbæri byggt á samverkandi líffræðilegum þáttum. Í kerfislíffræði er sérstök áhersla lögð á það hvernig líffræðileg kerfi breytast yfir tíma. Í þessu námskeiði munum við fjalla sérstaklega um þá þætti kerfislíffræðinnar sem snúa að heilsu og sjúkdómum manna.

Þetta námskeið mun kynna 1) notkun líkana fyrir líffræðileg ferli (bæði genastjórnunarlíkön og efnaskiptalíkön); 2) frumulíffræðileg fyrirbæri sem stuðla að samvægi (e. homeostasis), t.d. þroskun vefja og seiglu örvera og 3) greiningu á sameindamynstri sem finnast í stórum erfðagreiningargögnum, sem tengjast sjúkdómum í mönnum og geta nýst í flokkun sjúklinga og uppgötvun lífmerkja. Þannig mun námskeiðið fjalla um notkun kerfislíffræðilegra aðferða á þremur helstu stigum líffræðinnar, þ.e. á sameindum, frumum og lífverum.

Námskeiðið felur í sér lestur og túlkun vísindagreina, útfærslu reiknirita, vinnslu á rannsóknarverkefni og kynningu á vísindalegum niðurstöðum.

Fyrirlestrar munu samanstanda af bæði (1) kynningu á grunnhugtökum kerfislíffræðinnar og (2) tölvukennslu þar sem Python forritunarmálið er notað. Námskeiðið verður kennt á ensku.

X

Starfsþjálfun í vélaverkfræði (VÉL064G)

Markmið starfsþjálfunarinnar er að þjálfa nemendur í að vinna störf undir handleiðslu sérfræðinga hjá fyrirtækjum og stofnunum.  Verkefnin skulu tengjast einhverjum þeirra námsgreina sem kenndar eru við Námsbraut í vélaverkfræði og skulu þau reyna á þá þekkingu og færni sem nemandi hefur aflað sér þar. 

 Í lok starfstímans skal nemandi skila til umsjónarmanns: 

  • Skýrslu um meginverkefni nemandans og tengslum þess við nám hans í vélaverkfræði. Í skýrslunni skal einnig koma fram hvaða námsmarkmið nemandinn setti sér í upphafi starfsþjálfunar og hvernig hann náði þeim í verkefnunum. 
  • Dagbók sem nemandi hefur haldið meðan á starfstíma stóð. Dagbókin skal fela í sér vikulegt yfirlit þar sem fram kemur hver verkefni vikunnar voru og hve miklum tíma var varið í einstök verkefni. 

Starfsþjálfun telst ekki lokið fyrr en umsjónarmaður fyrirtækis/stofnunar hefur skilað staðfestingu á ástundun nemandans og verkefnavinnu og umsjónarmaður starfsþjálfunar hjá Námsbraut í vélaverkfræði hefur staðfest skilin. 

ATH: Nemendur geta ekki skráð sig sjálfir í þetta námskeið heldur eru þeir skráðir í námskeiðið þegar þeir hafa tryggt sér starfsþjálfunarstöðu hjá fyrirtæki eða stofnun. 
 
Allar starfsþjálfunarstöður verða auglýstar sérstaklega á Tengslatorgi (www.tengslatorg.hi.is ) í upphafi hvers kennslumisseris og nemendur sækja sérstaklega um að komast í starfsþjálfun.  Umsókn ásamt ferilskrá og kynningarbréfi, þar sem nemendur tilgreina hvers vegna þeir hafa áhuga á að komast í starfsþjálfun hjá viðkomandi fyrirtæki skal senda á von-starfsthjalfun@hi.is 

X

Valið efni í vélaverkfræði (VÉL072M)

Farið er yfir valið efni í rannsóknum og þróun í vélaverkfræði. Umfjöllunarefni er breytilegt milli ára.

Nemendur hafa samband við kennara og námsbrautarformann varðandi skráningu í námskeiðið.

X

Tæknileg iðnhönnun (VÉL203M)

Markmið: Að gera nemendur færa um að þróa og hanna framleiðsluvörur og vinnslukerfi. Námsefni: Hönnunaraðferðir og huglæg hönnun: Þarfagreining aðgerðagreining, matsskilyrði, jaðarskilyrði, lausnarrúm og ákvörðunartaka. Hlutlæg hönnun: Form, samtengingar og víddir. Ákvörðunartaka, kerfisgreining og þekkingarkerfi. Tölvustudd hönnun: Þráðlíkan, yfirborðslíkan, rúmmálslíkan, framsetning og frágangur. Flutningakerfi, vörumeðhöndlun, vinnsla og pökkun. Vörugæði, ending og urðun.

X

Tölvustýrður vélbúnaður (VÉL205M)

Markmið: Að kenna nemendum að hanna vélbúnað sem byggir á stýritækni, rafbúnaði og aflliðum. Að tengja saman stýritækni, rafmagnsfræði og vélhlutafræði. Námsefni: Aflgjafar, drifbúnaður, færslukerfi, mælinemar, reglar og tölvustýringar. Vökvaþrýstikerfi, loftþrýstikerfi, færibönd, flutningakerfi og fiskvinnsluvélar.

X

Tölvuvædd hönnun (VÉL206M)

Í námskeiðinu kynnast nemendur hugtökum og aðferðum við stikaframsetningu ferla s.s. Bezier-, Hermite- og NURBSferla.  Auk þess kynnast nemendur aðferðum við framsetningu þrívíðra þráð-, yfirborðs- og rúmmálslíkana.  Farið verður yfir notkun stikaframsetningar við þrívíða líkanagerð, gerð samsetningateikninga með pörunaraðferðum og samskipti mismunandi hugbúnaðslausna. 

Nemendur öðlast góða yfirsýn yfir þann hugbúnað sem býðst fyrir verkfræðilega hönnun og framleiðslu.  Auk þessa munu nemendur kynnast því nýjasta sem er að gerast á fagsviðinu, s.s. í greiningu,hermun, frumgerðasmíði og tölvustýrðri framleiðslu.  Nemendur kynnast þessu í gegnum gestafyrirlestra, heimsóknir og smáráðstefnu þar sem nemendur skrifa greinar og kynna nýjar og spennandi rannsóknaniðurstöður eða nýja tækni (út frá ritrýndum vísindagreinum).  

Samhliða fyrirlestrum beita nemendur efni námskeiðsins á opið hönnunarverkefni, smíða frumgerð, skila skýrslu og kynna verkefnið.

X

Fiskiðnaðartækni 2 (VÉL601M)

ATH: námskeiðið verður ekki kennt vorið 2022. 

Markmið: Gera nemendur færa um að beita þverfaglegri þekkingu á helstu sviðum vélaverkfræðinnar til að hanna fiskvinnslurásir/flutningsferla. Námsefni m.a.: Vinnsluþrep og búnaður við vinnslu ferskfisks, frystingu, söltun, þurrkun, fiskmjölsvinnslu, lýsisgerð, meltugerð o.fl. Orku- og massavægi. Hönnunarforsendur fyrir fiskvinnslufyrirtæki. Vinnsluvélar, pökkunar- og geymsluaðferðir,  greining á starfsumhverfi sjávarútvegsfyrirtækja, markaðsmál, hreinni framleiðslutækni, samkeppnisstaða, arðsemi, gæðamál, tæknivæðing o.fl.

Geymsluskilyrði (ljós, raki, hiti, samsetning lofts, o.s.frv.) og lykilþættir sem áhrif hafa á breytingar fiskafurða við geymslu, flutning og sölu/dreifingu. Stöðug og tímaháð varmaflutningsfræði, hagnýting Heisler- og Mollier-rita. 

Verklegt: Fiskvinnslurás/fiskvinnslufyrirtæki greint og/eða endurhannað.

X

Hönnun og smíði rafknúins kappakstursbíls - hluti B (VÉL606M)

Valnámskeið fyrir BS- og MS-nemendur í verkfræði og raunvísindum.

Markmið:
Að taka þátt í hinu alþjóðlega Formula Student verkefni með því hanna og smíða rafknúinn kappakstursbíl frá grunni með það í huga að taka þátt í alþjóðlegum keppnum háskóla. Bíllinn er af Go-Kart gerð. Kröfur sem gerðar eru til slíks farartækis eru miklar og því mun það veita nemendum víðtæka reynslu af lausnum verkfræðilegra vandamála, sem er meginmarkmið verkefnisins.

Nemendum verður skipt í teymi sem hér segir: Stoðgrind/fjöðrun, vél/drif, rafbúnaður/skynjarar, bremsur/stýring og verkefnastjórnun/hönnunarsamræming. Einn leiðsögumaður úr hópi kennara verður tengiliður hvers teymis. Teymin vinna sjálfstætt en leiðsögumaður er teymum til halds og trausts og ber ábyrgð á námsmati.

Í hluta B fer sjálf smíði bílsins fram en sömu hópar sem unnu að áætlanagerð og hönnun starfa áfram að smíðavinnu og stjórnun verkefnisins skv. áætlun.  Einnig verður í hluta B lagt á ráðin um þátttöku í alþjóðlegri kappaksturskeppni háskóla.

X

Verkefni (VÉL607G)

Nemendum á þriðja ári er gefinn kostur á að vinna að verkefni sem tengist vélaverkfræði. Verkefnið er unnið undir umsjón a.m.k. eins fastráðins kennara deildarinnar. Verkefninu lýkur með samningu ritgerðar eða munnlegu prófi.

Nemendur hafa samband við kennara og námsbrautarformann varðandi skráningu í námskeiðið.

X

Rannsóknir, nýsköpun og þróun (VÉL610G)

Nemendum á þriðja ári er gefinn kostur á að vinna að rannsóknum sem tengist rannsóknum kennara í vélaverkfræði í 8-10 tíma á viku yfir misserið.

Verkefnið tengist öðrum rannsóknar- og þróunarverkefnum við deildina og lýkur með veggspjaldi eða erindi sem kynnt er á árlegri ráðstefnu Verkfræðistofnunnar eða með grein á ráðstefnu.

Mögulegt er að endurtaka námskeiðið og taka samtals 12 einingar.

Nemendur hafa samband við kennara og námsbrautarformann varðandi skráningu í námskeiðið.

X

Fiskiðnaðartækni 1 (MAT508M)

Markmið: Að gera nemendur færa um að skilja þýðingu góðrar meðferðar á fiskafla og fiskafurðum og að reikna út nauðsynlegar stærðir í vinnslu sjávarfangs. Námsefni m.a.:  Helstu fiskistofnar, veiðimynstur og veiðarfæri, aflameðferð, efni og efnabreytingar, prótein, fita o.fl., þættir, sem hafa áhrif á efnabreytingar, s.s. hitastig, selta, loftaðgangur, raki, sýrustig o.fl. Skemmdareinkenni á sjávarfangi vegna örveru- og efnabreytinga. Mikilvægar örverur og vöxtur örvera í sjávarfangi og tengsl við þrifavæna hönnun. Vöxtur örvera vegna hita, seltu, loftaðgangs, sýrustigs, raka, aukaefna o.fl. Kynning á helstu verkunar- og varðveisluaðferðum, s.s. saltfiskverkun, skreiðarverkun, harðfiskverkun, kælingu, ofurkælingu og frystingu. Orku- og massavægi fyrir hvert vinnsluþrep og vinnslurásina í heild sinni. Verklegt: Einstaka vinnslueiningar greindar og/eða endurhannaðar. 

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Íris Benediktsdóttir
Friðrik Valur Elíasson
Aron Óttarsson
Íris Benediktsdóttir
Nemandi í vélaverkfræði

Helsta ástæðan fyrir því að ég valdi að hefja nám í vélaverkfræði við Háskóla Íslands er sú að námið býður upp á óteljandi möguleika, í framhaldsnámi og á atvinnumarkaði. Námið er praktískt og skemmtilegt, kennararnir eru frábærir og vekja áhuga nemenda. Sú reynsla og þekking sem ég mun afla mér í vélaverkfræðinni mun eflaust nýtast mér á fjölbreyttum sviðum í framtíðinni. Til viðbótar er félagslífið í verkfræðinni frábært. Námið getur oft á tíðum verið krefjandi og þá spilar þáttur samnemenda og nemendafélagsins mikilvægt hlutverk. Ég mæli hiklaust með námi í vélaverkfæði.

Friðrik Valur Elíasson
Nemandi í vélaverkfræði

Ég valdi vélaverkfræði því að þetta er nám sem nýtist vel í allskyns framhaldsnámi og störfum. Strax á fyrstu önn eru sett fyrir þig raunveruleg vandamál og þér kennt að leysa þau á skilvirkan og gagnlegan máta. Hér gefst mér tækifæri til þess að hanna og smíða rafmagns-kappakstursbíl úr koltrefjum í samstarfi við mörg af öflugustu fyrirtækjum landsins, og það í frábærum félagsskap. Skíðaferð nemendafélagsins heim til Akureyrar er auðvitað mikilvægur partur af skólaárinu.

Aron Óttarsson
Vélaverkfræði

Námið í Háskóla Íslands hefur gefið mér allskonar tækifæri sem hefðu annars ekki verið í boði, til dæmis að fá að nýta fræðina sem ég læri í að hanna og smíða kappakstursbíl frá grunni. Svo er félagslífið mjög gott, það er mjög auðvelt að kynnast nýju fólki og nemendafélögin sjá til þess að hópurinn hristist saman með vísindaferðum og öðrum skemmtilegum uppákomum, en þau sjá einnig til þess að gæta hagsmuna félagsmanna.

Hafðu samband

Nemendaþjónusta VoN
s. 525 4466 - ​nemvon@hi.is
Opið virka daga frá 09:00-15:30

Einnig er hægt að hafa samband í gegnum netspjall hér á síðunni (í samræmi við þjónustutíma)

​Tæknigarður - Dunhaga 5, 107 Reykjavík
Askja - Sturlugata 7, 102 Reykjavík

Fylgstu með Verkfræði- og náttúruvísindasviði:

""

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.