Skip to main content
25. febrúar 2021

Markadrottning með meistarapróf í sjúkraþjálfun

Markadrottning með meistarapróf í sjúkraþjálfun - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Ég alltaf verið mikil íþróttakona og elskað allt sem tengist hreyfingu. Ég vissi að ég myndi vilja fara í nám sem tengist íþróttum og hreyfingu á einhvern hátt. Einnig vildi ég finna vettvang þar sem ég get gefið af mér og svo hef líka haft mikinn áhuga á að læra um það hvernig mannslíkaminn virkar,“ segir ein fremsta handknattleikskona landsins, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, sem tók við útskriftarskírteini sínu í sjúkraþjálfun frá Háskóla Íslands á laugardaginn var. Hún segir það hafa verið afar krefjandi að sinna náminu samhliða afreksmennsku í íþróttum og segir frábæra bekkjarfélaga og kennara standa upp úr eftir námið.

Hrafnhildur, sem er borinn og barnfæddur Selfyssingur, leikur nú með ÍBV í Olís-deild kvenna í handknattleik og státar jafnframt af tugum landsleikja með íslenska A-landsliðinu. Hún hefur þrisvar á síðustu sex árum verið markahæsti leikmaður Olís-deildarinnar og hefur haldið áfram að raða inn mörkunum í keppni vetrarsins sem hefur einkennst af hléum vegna kórónuveirufaraldursins. 

Mikið púsluspil að vera afreksíþróttamaður í kefjandi háskólanámi

Hrafnhildur innritaðist í sjúkraþjálfunarnám haustið 2015 og þar hefur keppnisskapið eflaust komið að notum því aðeins 35 nemendur komast að í náminu ár hvert. Hrafnhildur segir aðspurð það vera mikið púsluspil að vera afreksíþróttamaður í erfiðu háskólanámi. „Það hefur verið mjög krefjandi að sinna náminu samhliða æfingum og keppni á háu stigi síðustu ár. Það hefur krafist mikillar skipulagningar og fórna á ýmsum sviðum að láta þetta ganga vel upp samhliða hvoru öðru,“ segir hún og telur Háskólann gjarnan mega veita afreksíþróttafólki meiri sveigjanleika þegar verkefni og próf stangast á við strangar æfingar fyrir landslið þjóðarinnar. Hún vilji engan afslátt á kröfum, bara meiri sveigjanleika þegar þannig standi á.

Hrafhildurihandbolta

Hrafnhildur á fleygi ferð í leik með ÍBV. MYND/Úr einkasafni

Á síðasta ári Hrafnhildar í sjúkraþjálfunarnámi fékk hún langþráðan draum uppfylltan þegar henni bauðst að fara í atvinnumennsku hjá franska úrvalsdeildarliðinu Bourg-de-Péage Drôme. Á meðan á þeirri dvöl stóð vann hún að meistaraverkefni sínu. „Ég var það heppin með verkefni að ég gat safnað flestum mínum gögnum, sem kröfðust þess að ég væri á staðnum, sumarið áður en ég flutti út og vann svo úr gögnunum og safnaði síðustu gögnunum í gegnum netið á meðan ég var úti ásamt því að vinna að verkefninu sjálfu,“ segir hún.

Meistaraverkefni tengt endurhæfingu einstaklinga með mænuskaða

Meistaraverkefnið tengdist námskeiði til endurhæfingar einstaklinga með mænuskaða sem byggist á jafningjaþjálfun og tekur við af formlegri endurhæfingu. „Þetta er hugmynd sem kviknaði hjá leiðbeinandanum mínum sem hefur verið að vinna mikið í kringum sambærileg námskeið víða erlendis. Til stóð að halda svona námskeið í fyrsta sinn á Íslandi þegar ég var að fara af stað með mitt meistaraverkefni og í samvinnu við skipuleggjendur námskeiðsins fórum við í þá vinnu að skoða námskeiðið og mögulegan ávinning þess fyrir þátttakendur. Mér fannst þetta mjög spennandi hugmynd og vildi því slá til,“ segir hún.

Hrafnhildur segist hafa alist upp í kringum einstaklinga með mænuskaða og því kynnst mörgum áskorunum sem því fylgja. „Einnig fékk ég dýrmætt tækifæri í náminu að fara í verknám á Grensás þar sem ég kynntist betur hvernig formleg endurhæfing eftir mænuskaða gengur fyrir sig hér á landi. Margir einstaklingar með mænuskaða sem þurfa að aðlagast lífi í hjólastól tala um að þeir hafi enn svigrúm til bætingar eftir formlega endurhæfingu og finnst dýrmætt að læra af einstaklingum sem hafa sjálfir gengið í gegnum svipaða reynslu. Það er einmitt það sem þetta námskeið snýst um og það fannst mér mjög spennandi,“ segir hún.

Hrafnhildur

Meistaraverkefnið var nokkurs konar forrannsókn fyrir viðameiri rannsókn áhrifum slíkra námskeiða. „Þessi forrannsókn sýndi að frekari rannsóknir á áhrifum námskeiða til virkrar endurhæfingar á Íslandi með núverandi rannsóknarsniði gætu verið framkvæmanlegar og gagnlegar. Frumniðurstöður um áhrif námskeiðsins gefa til kynna hugsanleg jákvæð áhrif og að þátttakendur í því hafi svigrúm til framfara samanborið við jafningjaleiðbeinendur námskeiðsins. Á einstaklingsgrundvelli sýndu þátttakendur framför í hjólastólafærni og einnig kom í ljós aukin seigla og ánægja með líkamlegt heilbrigði meðal þátttakenda við þriggja mánaða eftirfylgni samanborið við upphaf námskeiðs. Jafningjaleiðbeinendur námskeiðsins skoruðu jafnframt hærra en þátttakendur í flestum mælingum á færni,“ segir hún enn fremur.

Óvissa að lokinni útskrift vegna nýrra reglna

COVID-19-faraldurinn hafði í för með sér að Hrafnhildur þurfti að leggja atvinnumannadrauminn á hilluna í bili en eftir að hann skall á náði Hrafnhildur bæði að verja meistaraverkefni sitt við Háskóla Íslands og ljúka tilskildu starfsnámi sem er forsenda útskriftar og starfsleyfis sem sjúkraþjálfari hér á landi.

Hins vegar blasir nýr veruleiki við nýútskrifuðum sjúkraþjálfurum í kjölfar reglugerðarbreytingar stjórnvalda um síðustu áramót. „Hún kveður á um að nýútskrifaðir sjúkraþjálfarar þurfa, þrátt fyrir starfsleyfi frá landlækni, að starfa í tvö ár á heilbrigðisstofnunum í a.m.k. 80% starfshlutfalli áður en þeir fá að starfa sem sjálfstæðir sjúkraþjálfarar á stofu. Sökum búsetu hef ég ekki um marga möguleika að velja hvað varðar vinnu sem sjúkraþjálfari. Ég hafði hug á að hefja störf í Vestmannaeyjum á starfstöð sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara strax eftir útskrift samhliða því að spila handbolta með ÍBV. Ljóst er að það þarf að bíða betri tíma og þangað til einbeiti ég mér það því að spila handbolta og tíminn verður að leiða í ljós hvenær og hvernig ég get hafið minn starfsferil sem sjúkraþjálfari,“ segir Hrafnhildur og bætir við að þessar breytingar komi í raun að miklu leyti í veg fyrir að hún geti starfað við það sem hún hafi fórnað svo miklu fyrir síðustu ár. 

Handboltinn gæti þó að hennar sögn opnað henni ný tækifæri til að sinna draumastarfinu. „Stefnan er að spila handbolta í vonandi mörg ár í viðbót á flottu leveli. Ef vel gengur gæti ég séð fyrir mér að fara aftur út og leika í sterkari deild og ég gæti meira að segja slegið til og farið út, eingöngu vegna þess að ég fæ meira frelsi erlendis til að vinna með mína menntun. En eins og er líður mér vel í Vestmannaeyjum og ég er að spila í hörkuflottu liði og það er forgangurinn hjá mér í augnablikinu. Vonandi verður þessum nýju reglum breytt aftur svo ég geti starfað sem sjúkraþjálfari samhliða handboltanum,“ segir hún.

sjukraþjalfunarnemar

Hrafnhildur og bekkjarfélagar hennar í sjúkraþjálfun í Háskóla Ískands. MYND/Úr einkasafni

Frábærir skólafélagar og kennarar

Við brautskráningu er eðlilegt að spyrja hvað standi upp úr í dvöl og námi við Háskóla Íslands. „Það sem stendur mest upp úr fyrir mig eru þær frábæru vinkonur og bekkjarfélagar sem ég eignaðist í gegnum námið. Þetta var mjög samheldinn hópur sem náði mjög vel saman og kennararnir voru einnig frábærir. Námið sjálft var einnig mjög áhugavert og skemmtilegt. Mikið verklegt nám á vel við mig og mér fannst yfirleitt skemmtilegt í skólanum,“ segir þessi metnaðarfulla markamaskína að lokum.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir