Góður árangur af ósæðarlokuísetningu með þræðingartækni
Langflestir sjúklingar sem gengust undir ósæðarlokuísetningar með þræðingatækni, sem byrjað var að framkvæma á Landspítala fyrir um átta árum, voru lífi einu ári eftir aðgerð. Lífshorfur þeirra voru því sambærilegar lífshorfum annarra landsmanna af sama aldri og kyni sem ekki þurftu á slíkri aðgerð að halda. Þetta sýna niðurstöður rannsóknar vísindamanna og nemenda við Háskóla Íslands og Landspítala sem sagt er frá í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.
Greinin ber heitið „Ábendingar og árangur ósæðarlokuísetningar með þræðingartækni (TAVI) á Íslandi“. Ósæðarlokuþrengsl eru langalgengasti hjartalokusjúkdómurinn á Vesturlöndum. Þá kalkar og stífnar ósæðarlokan sem gerir hjartanu erfiðara um vik að tæma sig. Til að bregðast við slíkum þrengslum hefur venjulega þurft að gera opna hjartaaðgerð þar sem lokunni er skipt út fyrir gerviloku.
Árið 2012 var hins vegar byrjað að framkvæma svokallaða ósæðarlokuísetningu með þræðingartækni á Landspítala sem erlendis kallast TAVI-aðgerð (Transcatheter Aortic Valve Implantation). Þá er lífrænni gerviloku komið fyrir á mótum ósæðar og hjarta með því að þræða hana í gegnum náraslagæð. Með þessu má komast hjá opinni hjartaaðgerð, sjúklingurinn er vakandi og getur oftast útskrifast fáeinum dögum síðar.
Fyrsti höfundur greinarinnar í Læknablaðinu er Katrín Júníana Lárusdóttir, læknanemi á 4. ári, en rannsóknin er hluti af BS-verkefni hennar sem hún varði sl. vor við Læknadeild Háskóla Íslands. Hún er hér fyrir miðju ásamt leiðbeinendum sínum Ingibjörgu Jónu Guðmundsdóttur lektor og Tómasi Guðbjartssyni prófessor, sem bæði eru yfirlæknar á Landspítala. MYND/Landspítalinn
Frá 2012 og fram á mitt ár 2020 voru framkvæmdar á Landspítala 189 TAVI-aðgerðir. Meðalaldur sjúklinga var 83 ár og 42% þeirra voru konur. Flestir sjúklinganna höfðu alvarleg hjartabilunareinkenni, rúmlega helmingur sögu um kransæðasjúkdóm og fimmtungur hafði áður gengist undir opna hjartaaðgerð. Greining á árangri aðgerðanna leiddi í ljós að rúmlega 98% sjúklinganna lifðu fyrstu 30 dagana, sem þykir mjög góður árangur í erlendum samanburði. Alls voru 94% sjúklinganna á lífi einu ári eftir aðgerð, sem reyndust sambærilegar lífshorfur og fyrir viðmiðunarþýði Íslendinga af sama aldri og kyni sem ekki höfðu gengist undir TAVI-aðgerð. Auk þess reyndust alvarlegir fylgikvillar eftir aðgerðina fátíðir en hins vegar þurfa allmargir gangráð eftir aðgerðina.
Ljóst er að ósæðalokuísetning hentar vel sjúklingum sem eru taldir síður þola opna aðgerð, t.d. eldri sjúklingum og þeim sem áður hafa gengist undir opna hjartaðaðgerð. Stöðugar framfarir í gerð gervilokanna og bætt aðgerðartækni hafa orðið til þess að meðferðinni er í vaxandi mæli beitt hjá sjúklingum með lægri áhættu, einnig hér á landi. Ljóst er að árangur þessara flóknu hátækniaðgerða er mjög góður hér á landi en á næstu árum er búist við frekari niðurstöðum um langtímaárangur þessara aðgerða.
Fyrsti höfundur greinarinnar í Læknablaðinu er Katrín Júníana Lárusdóttir, læknanemi á 4. ári, en rannsóknin er hluti af BS-verkefni hennar sem hún varði sl. vor við Læknadeild Háskóla Íslands. Leiðbeinendur hennar voru Ingibjörg Jóna Guðmundsdóttir lektor og Tómas Guðbjartsson prófessor, sem bæði eru yfirlæknar á Landspítala.