Skip to main content
10. mars 2021

Berst við fjölónæmar bakteríur

Berst við fjölónæmar bakteríur - á vefsíðu Háskóla Íslands

Flestir reyna að forðast sýkla sem mest þeir mega enda fylgja þeim gjarnan heilsufarsleg vandamál og jafnvel alvarlegar farsóttir. Þetta sýnir sagan svo ekki verður um villst. Nærtækast er að nefna COVID-19 heimsfaraldurinn sem nú geisar sem dæmi um þá alvöru sem fylgt getur smitsjúkdómum. 

Karl Gústaf Kristinsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, er ekki alveg eins og flestir þegar kemur að sýklum. Hann hefur nefnilega gríðarlegan áhuga á ýmsum þeirra, ekki síst pneumókokkum og streptókokkum auk E. coli svo að fátt eitt sé nefnt. Karl Gústaf er enda yfirlæknir við sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og hefur því mestan áhuga á að leysa þau heilsufarslegu vandamál sem tengjast sýklum, bæði bakteríum og veirum.  

Fjölbreyttar rannsóknir Karls Gústafs beinast einkum að útbreiðslu og áhættuþáttum sýklalyfjaónæmis sem er vaxandi vandamál sem ógnar nú lýðheilsu. Karl Gústaf hefur einnig rannsakað áhrif bólusetninga á sýkla, bæði af völdum baktería og veira.

Fjölónæmar bakteríur ógn við lýðheilsu

Í nýrri rannsókn hefur Karl Gústaf leitað að bakteríum í grænmeti á íslenskum markaði af flokki Enterobacterales, einkum Escherichia coli eða E. coli sem margir hafa lesið um í fréttum. Hann vill kanna næmi þessara baktería fyrir sýklalyfjum og hvort munur sé á bakteríum sem ræktast frá innlendu og innfluttu grænmeti. Þetta gerir hann með því að raðgreina erfðaefni úr þeim E. coli-bakteríum sem hann finnur og bera saman við stofna sem ræktast frá þvagfærasýkingum í fólki.

Kveikjan að rannsókninni er áðurnefnd ógn sem steðjar að fólki vegna vaxandi sýklalyfjaónæmis. Að auki er ekki vitað að hve miklu leiti fjölónæmar bakteríur koma frá dýrum, matvælum og umhverfi. Karl Gústaf segir að upplýsingar um hvaðan fjölónæmar bakteríur berist í menn séu afar mikilvægar til þess að hægt sé að beita viðeigandi íhlutandi aðgerðum sem hægja á útbreiðslu fjölónæmra baktería. „Aðstæður hér á landi eru ákjósanlegar til svona rannsókna.“

Mjög mikilvægar rannsóknir

„Mjög lítið er til af rannsóknum á sýklalyfjaónæmum bakteríum í grænmeti,“ segir Karl Gústaf. „Reglubundið eftirlit með sýklalyfjaónæmum bakteríum á EES-svæðinu tekur ekki til grænmetis og því er mikilvægt að kanna útbreiðslu ónæmra baktería í t.d. salati sem oftast er neytt beint án suðu. Þetta er einkum mikilvægt á Íslandi þar sem innflutningur á salati hefur aukist.“

En af hverju er E. coli svona óæskileg? Bakterían framleiðir ákveðna tegund eiturefnis sem veldur skaðlegum veikindum í hýslinum, í þessu tilviki í mönnum. Slíkar sýkingar hafa ekki verið mjög stórt vandamál hér en það hefur borið allmikið á slíkum sýkingum í nágrannalöndum okkar. Eitt helsta einkennið er niðurgangur og uppköst en í sumum tilvikum koma upp mjög alvarlegir fylgikvillar sem geta verið lífshættulegir. 

„Rannsóknin er hluti af stærra verkefni þar sem verið er að rækta E. coli frá mönnum með þvagfærasýkingar, dýrum, matvælum og umhverfi. Erfðaefnið verður raðgreint og borið saman til að greina skyldleika og meta hversu stór hluti kólíbaktería sem valda þvagfærasýkingum, kemur frá matvælum, dýrum og umhverfi. Einnig hvort tiltekin gen tengjast tilteknum dýrategundum,“ segir Karl. 

Um er að ræða samstarfsverkefni Sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans, Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum, MATÍS, MAST og George Washington háskólans í Bandaríkjunum. 

Karl Gústaf segir að mjög fá sýni hafi reynst með E. coli í rannsókninni en nokkuð hafi borið á skaðlausum bakteríur af sömu ættkvísl (Enterobacterales). Þar með er ekki öll sagan sögð því ónæmi fyrir sýklalyfjum getur borist með erfðaflutningum frá þeim yfir í skaðlegar bakteríur. 

„Slíkt ónæmi fannst í salati og var það algengara í því innflutta. Of fáir E. coli stofnar greindust til að hægt væri að skoða tengsl þeirra við þvagfærasýkingar í mönnum.“
 

Karl Gústaf Kristinsson