15. mars 2021
Samskiptasaga Spánar og Íslands

Út er komin bókin Á fjarlægum ströndum – Tengsl Spánar og Íslands í tímans rás í ritstjórn Erlu Erlendsdóttur, prófessors í spænsku, og Kristínar Guðrúnar Jónsdóttur, dósents í spænsku.
Bókin er safn greina eftir fjórtán höfunda. Víða er komið við í samskiptasögu landanna og má finna margt forvitnilegt sem hefur tengt löndin allt fram á okkar daga:
- Ásdís Egilsdóttir og Erlendur Sveinsson fjalla um ferðir Íslendinga um Jakobsveginn fyrr og síðar, en við sögu koma m.a. Hrafn Sveinbjarnarson og Thor Vilhjálmsson.
- Már Jónsson segir frá hvalveiðum Spánverja við strendur Íslands á 17. öld og Baskavígunum svokölluðu.
- Ragnheiður Mósesdóttir rekur samskipti íslenskrar konu og spænsk hvalfangara sem kom til Íslands á þeim tíma.
- Stefán Svavarsson tekur fyrir viðskipti með saltfisk og vín.
- Róbert Sigurðarson gerir grein fyrir þátttöku Íslendinga í spænsku borgarastyrjöldinni.
- Þórarinn Sigurbergsson segir frá íslenskum tónlistarmönnum sem hafa farið til Spánar í gítarnám.
- Erla Erlendsdóttir og Karl Jóhannsson taka saman yfirlit um upphaf sólarlandaferða Íslendinga.
- Kristín Guðrún Jónsdóttir rekur sögu spænskra bókmenntaverka sem hafa verið þýdd á íslensku.
- Enrique Bernárdez, helsti þýðandi íslenskra bókmennta á spænsku, segir frá þýðingum íslenskra bókmenntaverka á spænsku. Núria Frías fylgir úr hlaði með skrá yfir þessi þýddu verk.
- Sigrún Á. Eiríksdóttir gerir sögu spænskukennslu á Íslandi skil.
- Erla Erlendsdóttir fjallar um spænsk tökuorð í íslensku og íslensk tökuorð í spænsku.
- Matthew Driscoll greinir frá merkum spænskum handritum í safni Árna Magnússonar; einnig er sagt frá íslenskum handritum sem geyma sögur af landafundum Spánverja í Vesturheimi.
- Í bókarlok eru minningarbrot Íslendinga sem hafa dvalið lengri eða skemmri tíma á Spáni á fyrri hluta síðustu aldar og Spánverja sem hafa búið á Íslandi til lengri tíma.
Á fjarlægum ströndum – Tengsl Spánar og Íslands er gefin út af Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Háskólaútgáfunni. Ragnar Helgi Ólafsson sá um kápuhönnun.