Ný móttaka fyrir klínískar rannsóknir
Ný klínísk móttaka fyrir rannsakendur við Heilbrigðisvísindastofnun hefur verið opnuð í Læknagarði. Móttakan veitir vísindafólki góða aðstöðu til þess að taka á móti þátttakendum í klínískar rannsóknir.
Eitt af lykilmarkmiðum Heilbrigðisvísindastofnunar er að auka gæði og samlegðaráhrif í rannsóknum með því að efla samstarf og byggja upp sameiginlega innviði og þjónustu. Þetta kristallast í nýrri móttöku fyrir klínískar rannsóknir sem hefur verið sett á laggirnar. Hingað til hefur verið skortur á aðstöðu fyrir vísindafólk sem stundar klínískar rannsóknir til þess að taka á móti þátttakendum sínum. Það hefur einnig skort aðstoð við umsýslu með rannsóknargögn. Opnun Klínísku móttökunnar er því mjög þýðingarmikil. Hún eflir bæði þjónustu og stuðlar að hagkvæmni með samnýtingu aðstöðu og tækja.
Bergrós Guðmundsdóttir, lífeindafræðingur og verkefnastjóri veitir Klínísku móttökunni forystu. Hún segir undirbúning hafa gengið vel. „Ég hef verið að vinna í undirbúningi með þarfagreiningu, uppsetningu og innkaupum til að koma upp móttöku fyrir klínískar rannsóknir. Einnig hefur mikill tími farið í að vinna að gæðamálum“ segir hún. Bergrós hefur útbúið gæðaskjöl til að gera starf móttökunnar einfalt, skilvirkt og til að standast gæðakröfur.
Við Klínísku móttökuna er fjölbreytt aðstaða, þar er m.a. móttökurými og biðstofa, viðtalsherbergi með möguleika á upptöku, tannlæknastóll, skoðunarbekkur, aðstaða til blóðsýnatöku og mælinga á blóðþrýstingi, hæð og þyngd, kælar og margt fleira.
Hlutverk Bergrósar verður ekki síst að veita vísindafólki þjónustu og ráðgjöf. Hún mun meðal annars aðstoða við samskipti við þátttakendur, senda og taka á móti rannsóknagögnum, sjá um blóðtöku og frágang sýna. „Við vonumst eftir jákvæðum viðbrögðum og góðu samstarfi við vísindafólk HVS sem er að vinna í klínískum rannsóknum og vonum að þau nýti aðstöðuna sem best. Einnig viljum við þróa starfsemina í takt við kröfur samtímans hverju sinni“ segir hún.
Bergrós bætir við að helstu áskoranirnar í starfi Klínísku mótkunnar verða jafnframt tækifærin. „Að byggja upp gagnkvæmt traust og samstarf við vísindafólk á HVS,“ segir Bergrós.
Bergrós lauk BS-gráðu í lífeindafræði frá Tækniháskóla Íslands árið 1995. Hún hefur m.a. starfað sem sérfræðingur á rannsóknastofu hjá Íslenskum Lyfjarannsóknum, Íslenskri erfðagreiningu og nú síðast sem verkefnastjóri í lyfjaskráningum til Evrópu hjá skráningadeild Actavis.