Viðgerðir á míturloku hjartans reynast vel á Íslandi
Árangur viðgerða á míturloku hjartans sem unnar eru hér á landi er mjög góður og á pari við árangur á stærstu og sérhæfuðustu hjartaskurðdeildunum í nágrannalöndum okkar. Nánast allir sjúklingar sem gengust undir þessa umfangsmiklu aðgerð á 15 ára tímabili hér á landi voru á lífi fimm árum eftir aðgerð. Frá þessu er sagt í grein í nýjasta tölublaði Læknablaðsins sem ber heitið Langtímaárangur viðgerða vegna hrörnunartengds míturlokuleka á Íslandi.
Míturlokan liggur djúpt í hjartanu og beinir blóðinu úr vinstri gátt í vinstri slegil. Þessi mikilvæga einstefnuloka getur átt til að leka sem getur orsakað alvarlega hjartabilun sem svarar illa lyfjameðferð. Er þá gripið til opinnar hjartaaðgerðar þar sem reynt er að gera við lokuna í stað þess að skipta henni út fyrir gerviloku. Takist viðgerðin heldur sjúklingurinn sinni eigin míturloku og því sjaldan þörf á ævilangri blóðþynningarmeðferð. Þrátt fyrir að míturlokuviðgerðir séu umfangsmiklar og tæknilega flóknar hjartaðgerðir hafa þær verið framkvæmdar hérlendis í rúma tvo áratugi. Þessi rannsókn lýsir árangri þeirra, bæði á fyrstu vikum eftir aðgerðina en einnig til langs tíma.
Á 15 ára rannsóknartímabili voru gerðar 105 aðgerðir, að meðaltali 7 aðgerðir árlega, en 14 aðgerðir árið 2016. Meðalaldur sjúklinga var tæp 58 ár og konur voru 20% þeirra sem gengust undir aðgerðina. Langflestir sjúklinganna voru með alvarlega hjartabilun fyrir aðgerð. Oftast var hluti aftara blaðs lokunnar skorinn í burtu og saumaður saman og hringur úr gerviefni saumaður í kringum lokublöðin til að styrkja viðgerðina. Loks var notast við stög úr Gore-Tex® i lokublöðin hjá 2/3 sjúklinga.
Fyrsti höfundur greinarinnar í Læknablaðinu er Árni Steinn Steinþórsson, læknanemi á 4. ári, en rannsóknin er framhald af BS-verkefni hans við Læknadeild Háskóla Íslands. Aðalleiðbeinandi hans var Tómas Guðbjartsson, hjarta- og lungnaskurðlæknir og prófessor við læknadeild Landspítala, sem jafnframt stýrði rannsókninni.
Í aðeins fjórum tilvikum þurfti að skipta lokunni út fyrir gerviloku og viðgerðin tókst því í 96% tilvika, sem þykir hátt hlutfall í samanburði við stærri hjartaskurðdeildir erlendis. Sama átti við um samanburð á lifun en 98% sjúklinga voru á lífi 30 dögum eftir aðgerðina. Langtímárangur reyndist einnig góður og aðeins einn sjúklingur þurfti að gangast undir endurviðgerð á lokunni sem telst mjög lágt hlutfall. Fimm árum eftir aðgerðina voru 94% sjúklinga á lífi sem reyndist sambærileg lifun og hjá samanburðarhópi Íslendinga af sama kyni og aldri sem ekki höfðu gengist undir hjartaaðgerð.
Rannsóknin sýnir að hægt er að framkvæma flóknar skurðaðgerðir á Íslandi með árangri sem stenst samanburð við stærri og sérhæfðari sjúkrahús erlendis. Lifun til langs tíma reyndist mjög góð og ekki frábrugðin lifun einstaklinga sem ekki höfðu gengist undir míturlokuviðgerð. Niðurstöðurnar eru ánægjulegar fyrir þá sem koma að meðferðinni en sérstaklega þó fyrir sjúklingana og aðstandendur þeirra.
Fyrsti höfundur greinarinnar í Læknablaðinu er Árni Steinn Steinþórsson, læknanemi á 4. ári, en rannsóknin er framhald af BS-verkefni hans við Læknadeild Háskóla Íslands. Aðalleiðbeinandi hans var Tómas Guðbjartsson, hjarta- og lungnaskurðlæknir á Landspítala og prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, sem jafnframt stýrði rannsókninni.