Aukin áhersla á kynjasjónarmið í kennslu
Ný jafnréttisáætlun fyrir Heilbrigðisvísindasvið 2021-2023 er komin út. Í áætluninni er meðal annars nýr flokkur sem snýr að kynbundnu ofbeldi og kynbundinni og kynferðislegri áreitni og viðauki um hvernig innleiða má kynjasjónarmið í kennslu. Jafnréttisáætlunin nær til alls starfsfólks og nemenda sviðsins.
Skoða Jafnréttisáætlun Heilbrigðisvísindasviðs 2021-2023
Um áætlunina
Jafnréttisáætlun Heilbrigðivísindasviðs tekur á jafnrétti í viðum skilningi og þar er m.a. fjallað um fötlun, fjölmenningu, málefni hinsegin fólks auk kynjajafnréttis. Áætluninni er skipt upp í eftirfarandi fimm málaflokka þar sem sett eru fram markmið og aðgerðaráætlun fyrir hvern flokk.
- Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs
- Kynferðislegt og kynbundið áreiti
- Vinnumenning og starfsumhverfi
- Ráðningar og nefndir
- Auglýsingar og menntun
Í lok Jafnréttisáætlunarinnar er samantekt og samanburður á stöðu og kjörum kvenna og karla sem starfa á Heilbrigðisvísindasviði sem er einn lykilmælikvarða HÍ21.
Til viðbótar við áætlanir fyrri ára hefur verið bætt við málaflokki sem snýr að kynbundnu ofbeldi og kynbundinni og kynferðislegri áreitni. Það sem er líka nýtt er viðauki sem fer yfir hæfniviðmið um hvernig innleiða má kynjasjónarmið í kennslu og er gagnlegt bæði kennurum og nemendum.
„Sviðið er alltaf að reyna að bæta sig í þessum málaflokki og veitir áætlunin ákveðið aðhald og sýnileika hvernig bregðast skal við því sem betur má fara.“ segir Ólöf Júlíusdóttir, kennslustjóri Heilbrigðisvísindasviðs og starfsmaður Jafnréttisnefndar sviðsins.
Með Jafnréttisáætluninni skuldbindur Heilbrigðisvísindasvið sig til að vinna skipulega að því að útrýma hvers kyns mismunun innan sviðsins og stuðla að góðu starfsumhverfi þar sem hver og einn einstaklingur fær sín notið.
Jafnréttisáætlun Heilbrigðisvísindasviðs tekur mið af jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2018-2020 og stefnu Háskóla Íslands 2016-2021 (HÍ21).
Staða jafnréttismála
Ólöf segir Jafnréttisnefndina sjá mörg tækifæri til að bæta stöðuna á sviðinu í dag. Eitt af stóru verkefnunum séu bætt aðgengismál en nýtt húsnæði Heilbrigðisvísindasviðs verður mikið framfaraskref. „Fólk með hreyfihömlun mun finnast það velkomnara en áður og vonandi einnig trans og intersex einstaklingar.“ segir Ólöf.
Fjölbreytni í nemendahópum Heilbrigðisvísindasviðs er ekki nægileg en það er hluti af stærra máli í samfélaginu. Kynin eru of bundin við staðalmyndir við val á námi sem er sérstaklega sýnilegt í Hjúkrunarfræðideild en konur eru í meirihluta í öllum deildum á Heilbrigðisvísindasviði. „Við megum samt ekki gleyma að horfa á stærri myndina því fjölbreytileikinn einskorðast ekki bara við kyn, heldur líka við ólíkan uppruna, fötlun, kyngervi og kynhneigð. Markmiðið hlýtur að vera að bjóða alla velkomna til starfa innan heilbrigðiskerfisins og því verður sviðið að mennta alls konar fólk.“ segir Ólöf.
Heilbrigðisvísindasvið getur einnig bætt sig í upplýsingagjöf á ensku, hvort tveggja til starfsfólks og nemenda, til þess að auka sýnileika þeirra og virkni í háskólasamfélaginu. Í Jafnréttisáætluninni eru að finna hvaða aðgerðir sviðið hyggst grípa til svo verða megi við þessu.
Jafnréttisnefnd HVS
Jafnréttisáætlun Heilbrigðisvísindasviðs var unnin af Jafnréttisnefnd sviðsins veturinn 2020 – 2021. Hana skipuðu:
Jökull S. Gunnarsson, læknanemi
Margrét Þorsteinsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild
Ólöf Júlíusdóttir, kennslustjóri Heilbrigðisvísindasviðs
Sigríður Zoéga, dósent við Hjúkrunarfræðideild
Sævar Ingþórsson, dósent við Hjúkrunarfræðideild og formaður nefndarinnar