Skip to main content
12. ágúst 2021

Eðli og einkenni ritdóma í fjölmiðlum

Eðli og einkenni ritdóma í fjölmiðlum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Út er komin bókin Þvílíkar ófreskjur eftir Auði Aðalsteinsdóttur bókmenntafræðing og nýdoktor við Rannsóknasetur Margrétar II. Danadrottningar og frú Vigdísar Finnbogadóttur um haf, loftslag og samfélag (ROCS). Ritið byggir á doktorsritgerð höfundar.

Bókin er afrakstur rannsóknar á eðli og einkennum ritdóma í fjölmiðlum, virkni þeirra á íslensku bókmenntasviði og ógnandi en ótryggu valdi ritdómarans. Ritdómar eru afurð prentmiðlanna og þróast með þeim, hér á landi sem annars staðar. Sú þróun er hér rakin í grófum dráttum, með megináherslu á sögu bókmenntagagnrýni á 20. öld. Sérstakur gaumur er gefinn að þætti kvenna í þessari sögu, þar sem hann hefur hingað til ekki fengið athygli sem skyldi, og í lokin er velt upp spurningum um framtíð ritdóma í nýju, tölvuvæddu umhverfi.

Bókarheitið er sótt til Jónasar Hallgrímssonar sem notaði orð þessi um Tristansrímur Sigurðar Breiðfjörðs. Ófreskjurnar sem Jónas vísaði til voru kaflar sem honum fundust til skammar, lélegar bókmenntir, og það hefur ætíð verið talin heilög skylda gagnrýnandans að berjast gegn slíkum ófögnuði. Það er því kaldhæðnislegt að ritdómarar verða oft sjálfir að ófreskjum í hugum fólks. Titillinn vísar til þessa tvíbenta hlutverks ritdómarans: að vera í senn skrímsli og bjargvættur bókmenntasviðsins.

Útgefandi bókarinnar er Bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi.