HÍ og Matís vinna áfram saman að matvælarannsóknum og matvælaöryggi
Efla á enn frekar menntun á sviði matvælarannsókna og matvælaöryggis samkvæmt nýjum samstarfssamningi Háskóla Íslands og Matís sem undirritaður var á dögunum. Stór hópur nemenda hefur unnið að spennandi nýsköpunarverkefnum á vegum þessara aðila á undanförnum árum.
Samninginn nýja undirrituðu Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Oddur Már Gunnarsson, forstjóri Matís, en hann er til fimm ára og tekur við af eldri samningi stofnananna.
Háskóli Íslands og Matís hafa átt í afar farsælu kennslu-, rannsókna- og nýsköpunarsamstarfi undanfarin ár með það fyrir augum m.a. að efla samkeppnishæfni innlendra matvælaframleiðenda og fyrirtækja, bæta lýðheilsu og matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu auðlinda.
Með nýjum samningi á að styrkja samstarfið enn frekar, m.a. með því að auka rannsóknir hér á landi á sviði matvælafræði, matvælaverkfræði, fæðu- og matvælaöryggis, erfða- og líftækni og örverufræði. Um leið á að stuðla að því að stofnanirnar verði leiðandi á afmörkuðum sérfræðisviðum og laða þannig að bæði nemendur og fræðimenn á alþjóðlegum vettvangi. Í samningnum er einnig kveðið á um samstarf um rekstur tækjabúnaðar í þágu sameiginlegra rannsóknaverkefna og fjölgun slíkra verkefna.
Stofnanirnar hafa enn fremur ráðið inn sameiginlega starfsmenn og munu gera áfram samkvæmt samningnum nýja, en áhersla er á hlutverk þessara starfsmanna við leiðbeiningu nemenda í framhaldsnámi. Þá er heimild í samningnum um að bjóða sérfræðingum Matís akademísk gestastörf við þær deildir skólans sem tengjast samningnum.
Fjöldi doktors- og meistaranema hefur á undanförnum árum lokið námi undir sameiginlegri handleiðslu starfsmanna HÍ og Matís, en nemendur hafa að jafnaði haft starfsaðstöðu hjá Matís. Verkefnin hafa mörg hver verið unnin í nánu samstarfi við íslensk fyrirtæki sem skapar í senn tækifæri fyrir nemendurna til framtíðar og leggur grunn að nýjum tækifærum fyrir íslenskt atvinnulíf.
Áfram verður haldið á þessari braut og jafnframt verður leitast við að tengja starfsemi Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands og starfsstöðva Matís utan Reykjavíkur eftir því sem við á.
Sérstök samstarfsnefnd Háskóla Íslands og Matís hefur umsjón með samningnum.