Mikill ávinningur af bólusetningu gegn rótaveiru hjá börnum
Með því að taka upp bólusetningar við rótaveiru, sem getur valdið alvarlegum niðurgangi og uppköstum hjá börnum, hér á landi mætti í senn draga úr þjáningum ungra barna og um leið kostnaði samfélagsins af hennar völdum sem nemur hátt í hálfum milljarði króna á ársgrundvelli. Þetta sýna niðurstöður nýrrar rannsóknar doktorsnema og vísindamanna við Háskóla Íslands sem birtar voru á dögunum í vísindatímaritinu Vaccine.
Greinin er hluti af doktorsrannsókn Írisar Kristinsdóttur í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands sem snýst um bólusetningar barna og hvort og hvernig bæta megi bólusetningarskema þeirra á Íslandi. Rannsóknin er unnin undir handleiðslu Ásgeirs Haraldssonar, prófessors í barnalækningum og yfirlæknis á Barnaspítala Hringsins, og Valtýs Stefánssonar Thors, lektors og barnasmitsjúkdómalæknis á Barnaspítalanum. Aðrir meðhöfundar rannsóknarinnar eru Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor við Hagfræðideild Háskóla Íslands, og Arthur Löve, prófessor í sýkla- og veirufræði við Læknadeild.
Rótaveira er algengasta orsök bráðra garnasýkinga hjá ungum börnum en þar er átt við pestir sem valda niðurgangi og uppköstum. Til eru bóluefni gegn rótaveiru en þau eru ekki á bólusetningarskema barna á Íslandi. Markmið rannsóknarinnar var að meta hversu þungt bráðar garnasýkingar af völdum rótaveiru legðust á ung íslensk börn og fjölskyldur þeirra og ákvarða mögulegan ávinning af því að hefja bólusetningu gegn veirunni hér á landi. Bólusetningar gegn rótaveiru hafa verið teknar upp víða um heim, s.s. í Noregi, Þýskalandi og Bretlandi, og hafa leitt til fækkunar á sýkingum, færri koma á bráðamóttökur og færri sjúkrahúsinnlagna.
Foreldrum allra barna 6 ára og yngri, sem komu á bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins vegna bráðra garnasýkinga á árunum 2017 og 2018, var boðin þátttaka í rannsókninni. Saursýnum var safnað frá þátttakendum og þau send í veiruleit. Enn fremur var ýmsum upplýsingum safnað, s.s. um aldur barnanna, tímalengd veikinda, veitta meðferð, hvort aðrir á heimilinu sýktust af veirunni og fjölda daga sem foreldrar misstu úr vinnu. Árlegur kostnaður vegna rótaveirusýkinga var svo áætlaður út frá sjúkrahúskostnaði og töpuðum vinnudögum foreldra.
Rannsóknin tók til 325 barna en þrjú af hverjum fjórum þeirra voru yngri en tveggja ára. Sjúkdómsvaldur greindist í 80% tilfella og þar af greindist rótaveira í 54% tilfella. Veiran olli alvarlegri veikindum en aðrir sjúkdómsvaldar sem skoðaðir voru. Þannig þurftu börn sem sýktust af rótaveirunni oftar á vökvameðferð á bráðamóttöku og innlögn á sjúkrahús að halda en börn sem greindust með aðra sjúkdómsvalda. Þá varð einkenna vart hjá börnum með rótaveirusýkingu að miðgildi í sex daga og misstu foreldrar að miðgildi fjóra daga úr vinnu. Rannsóknin sýndi enn fremur að áætlaður árlegur kostnaður samfélagsins vegna bráðra garnasýkinga af völdum rótaveiru var um 2,9 milljónir evra, jafngildi nærri 450 milljóna íslenskra króna.
Íris bendir á að þetta sé fyrsta rannsókn sinnar tegundar á Íslandi. „Hún sýnir að rótaveira veldur umtalsverðri sjúkdómsbyrði hjá ungum börnum og fjölskyldum þeirra. Með því að taka upp bólusetningar gegn rótaveiru í bólusetningarskema barna á Íslandi væri hægt að draga úr þessari byrði og um leið draga úr kostnaði samfélagsins af völdum veirunnar,“ bendir hún á.