Rannsókn á þjónustu heilsugæslustöðva við fólk með langvinna sjúkdóma
Háskóli Íslands tekur þátt í alþjóðlegri rannsókn á heilsu fólks með langvinn veikindi í samstarfi við heilsugæslustöðvar á Íslandi. Rannsókninni er stýrt af Efnahags og framfarastofnun Evrópu (OECD) og megininntak hennar er að skoða þjónustu heilsugæslunnar við þá sem glíma við langvarandi einkenni vegna veikinda, þar á meðal COVID-19, og áhrif eða útkomu þjónustunnar fyrir þessa skjólstæðinga.
Vegna öldrunar þjóða mun fólki með langvarandi heilsubrest fjölga um allan heim á komandi árum. Afleiðingar þess eru aukið álag á heilbrigðisþjónustuna og samfélagið í heild. OECD hannaði PaRIS SUR rannsóknina til að skoða og bera saman þjónustu sem fólk með langvarandi heilsubrest fær í mismunandi löndum. Í mörgum ríkjum OECD eru u.þ.b. 2/3 íbúanna 45 ára og eldri með einn eða fleiri langvarandi sjúkdóma. Flest af þessu fólki fær hefðbundna eftirfylgni í heilsugæslunni, hjá sérfræðilæknum eða á göngudeildum sjúkrahúsa. Að mati OECD getur ósamfelld og ósamræmd þjónusta frá mismunandi aðilum aukið hættu á ófullnægjandi meðferð.
Ávinningurinn
Mat á reynslu þátttakenda mun varpa ljósi á hvort umönnunin sem þeir fá stuðli að bættri heilsu, auki virkni í lífi og starfi, lini sársauka, eða bæti upplifun af umönnun sem sniðin sé að þörfum þeirra. Niðurstöðurnar gætu nýst við gerð tillagna um hagkvæma, skilvirka og einstaklingsmiðaða þjónustu.
Niðurstöður rannsóknarinnar munu gagnast:
- Stjórnvöldum í þátttökuríkjum, með því skapa grundvöll fyrir áherslur, forgangsröðun og gæðastjórnun til næstu framtíðar
- Fólki með langvinn veikindi, með því að veita því tækifæri til að tjá sig um reynslu sína, heilsufar og heilbrigðisþjónustu
- Heilsugæslu á Íslandi, með því að auka skilning á því sem bætir þá þjónustu sem í boði er
Framkvæmdin
Sjúklingar 45 ára og eldri munu svara spurningalista rafrænt. Einnig svarar starfsfólk á þeim heilsugæslustöðvum sem taka þátt spurningalista rafrænt.
Í spurningalistum sem lagður er fyrir sjúklinga er m.a. spurt um líkamlega- og andlega heilsu, lífsgæði, lyf, einkenni, lífsstíl, aðgengi að þjónustu og samskipti við heilsugæsluna. Í spurningalistanum sem lagður er fyrir starfsfólk er m.a. spurt um aðbúnað og þjónustustig heilsugæslustöðvarinnar, samskiptaleiðir og þau áhrif sem COVID-19-heimsfaraldurinn hefur haft á starfsemi- og starfsfólk stöðvarinnar, gagnavinnslu og starfshætti.
Úrtakið
Rannsóknin verður forprófuð sumarið 2022, aðalrannsókn fer fram 2023. Úrtak for- og aðalrannsóknar verður unnið með slembiþáttalíkani (e. multilevel model). Fyrst eru valdar með slembiaðferð heilsugæslustöðvar til þátttöku úr þýði allra heilsugæslustöðva á landinu. Því næst eru þátttakendur úr hópi sjúklinga valdir með slembiaðferð úr þýði allra sjúklinga 45 ára og eldri sem hafa haft samband við viðkomandi heilsugæslustöð í úrtaki.
Forrannsókn tekur til 10 heilsugæslustöðva og koma 5 frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Í forrannsókninni verður haft samband við 200 skjólstæðinga hverrar heilsugæslu fyrir sig. Í aðalrannsókn er gert ráð fyrir því að allar heilsugæslustöðvar á landinu verði í úrtaki.
Úrvinnslan
Úrvinnsla rannsóknarinnar fer fram á vegum OECD. Hvert þátttökuland fær þó eigin gögn til frekari vinnslu. Ekki verður hægt að rekja svör til einstakra heilsugæslustöðva né annara þátttakenda. Til að auka ávinning af verkefninu verða meðal annars birtir alþjóðlegir samanburðarhæfir vísar byggðir á mati á umönnun og útkomum fólks á aldrinum 45 ára og eldri sem lifir með langvinn veikindi og heilsufarseinkenni og þiggur meðferð á heilsugæslustöðvum. Samantekt á meginniðurstöðum og önnur greiningarvinna mun verða birt í skýrslum OECD og vísindagreinum.
Herdís Sveinsdóttir, deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar, er ábyrgðarmaður rannsóknarinnar.