Lýsa samskiptum grindhvala og háhyrninga við Ísland í fyrsta sinn
Grindhvalir virðast hafa orðið tíðari gestir við Íslandsstrendur á undanförnum árum og stökkva háhyrningum á flótta með hátterni sínu í hafinu. Þetta sýnir ný rannsókn vísindamanna við Háskóla Íslands sem unnin er í nánu samstarfi við hvalaskoðunarfyrirtæki allt í kringum landið. Um er að ræða fyrstu rannsókn sinnar tegundar þar sem samskiptum grindhvala og háhyrninga við Íslandsstrendur er lýst.
Rannsóknin birtist á dögunum í vísindatímaritinu Acta Ethologica en hún er hluti af doktorsverkefni Önnu Selbmann í líffræði við Háskóla Íslands. Rannsóknina vinnur hún undir leiðsögn Filipu Samarra, sérfræðings við starfsstöð Stofnunar rannsóknasetra HÍ í Vestmannaeyjum, Jörundar Svavarssonar, prófessors við Háskóla Íslands, og Paul Wensveen, rannsóknasérfræðings við skólann.
Grindhvalir eru tíðir gestir í sjónum í kringum Ísland en lítið er vitað um það tíðni þeirra nærri ströndum landsins. Háhyrningar eru hins vegar vel þekktir gestir á strandsvæðum víða um land en rannsóknir á tegundinni hafa hingað til fyrst og fremst beinst að síldarsvæðum þar sem háhyrningar nærast. Markmið rannsóknarinnar, sem sagt er frá í Acta Ethologica, var að varpa ljósi á tíðni grindhvala og háhyrninga við strendur Íslands, þar á meðal hvar báðar tegundir væri að finna, og lýsa samskiptum milli þeirra. Rannsóknir við strendur Spánar og Noregs sýna að þessar tvær tegundir eiga í samskiptum og þær hafa m.a. leitt þær athyglisverðu niðurstöður í ljós að háhyrningar, sem tróna á toppi fæðukeðju undirdjúpanna, forðast grindhvali og virðast í sumum tilvikum flýja þá á miklum hraða.
Samstarfsverkefni stórs hóps
Í rannsókninni sameinuðu vísindamenn við Háskóla Íslands og rannsakendur og náttúrufræðingar sem störfuðu hjá hvalaskoðunarfyrirtækjum allt í kringum landið krafta sína. Gagnasöfnun fólst í því að skrá niður hvenær sást til tegundanna tveggja, bæði af rannsóknar- og hvalaskoðunarbátum og af landi, nánar tiltekið frá Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Jafnframt voru öll sýnileg samskipti tegundanna skráð niður. Gögnin í rannsókninni ná til áranna 2007-2020 og gagnasöfnun fór fram á sex stöðum á landinu: við Vestmannaeyjar, í Faxaflóa, Breiðafirði, Steingrímsfirði, Eyjafirði og Skjálfanda.
Að rannsókninni komu auk fulltrúa við starfsstöð Stofnunar rannsóknasetra HÍ í Vestmannaeyjum, vísindamenn og starfsfólk frá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Húsavík, starfsfólk frá Norðursiglingu og Gentle Giants á Húsavík, Whale Watching á Akureyri, Láki Tours og Orca Guardians Iceland í Grundarfirði, Special Tours og Eldingu í Reykjavík og Náttúrustofu Vesturlands í Stykkishólmi.
Rannsóknir Önnu Selbmann, Filipu Samarra og samstarfsfélaga fara aðallega fram við Vestmannaeyjar en þar hefur oftast sést til beggja tegunda. Þau urðu oftast vör við samskipti milli tegundanna við Vestmannaeyjar og í Breiðafirði, eða í 70% tilvika þegar sást til beggja tegunda. Í öllum tilvikum syntu grindhvalir að háhyrningum sem flúðu undan þeim. MYND/Rosmary Collins
Grindhvalakomum fjölgar við Ísland
Rannsóknin leiddi í ljós að grindhvala varð aðeins vart á sumrin og að komum þeirra að ströndum Íslands fjölgaði á rannsóknatímanum, sérstaklega sunnan við landið. Oftast sást til þeirra við Vestmannaeyjar, Breiðafjörð og Steingrímsfjörð. Háhyrningar sáust hins vegar allt árið um kring. Breytilegt var milli árstíða og staða hversu oft sást til þeirra en rannsakendur urður reglulega varir við háhyrninga við Vestmannaeyjar á sumrin og í Breiðafirði á veturna og vorin.
Eins og ráða má af ofansögðu urðu vísindamenn oftast varir við samskipti milli tegundanna við Vestmannaeyjar og í Breiðafirði, eða í 70% tilvika þegar sást til beggja tegunda. Í öllum tilvikum syntu grindhvalir að háhyrningum sem flúðu undan þeim. Grindhvalirnir nálguðust háhyrningana alla jafna á miklum hraða og í þriðjungi tilvika mátti sjá báðar tegundir í ölduflugi, þ.e. dýrin ráku hausana upp úr sjónum og stukku áfram á miklum hraða.
Rannsóknir bæði hér við land og annars staðar hafa m.a. leitt þær athyglisverðu niðurstöður í ljós að háhyrningar, sem tróna á toppi fæðukeðju undirdjúpanna, forðast grindhvali og virðast í sumum tilvikum flýja þá á miklum hraða. MYND/Curt Hanson
Aukin samskipti tegundanna geti haft áhrif á orkubúskap háhyrninga
Að sögn vísindamannanna sem standa að rannsókninni eru niðurstöðurnar afar mikilvægar því þær benda til að tíðni grindhvala við strendur Íslands sé mögulega að breytast. Aukin samskipti þeirra við aðrar tegundir geti hugsanlega haft áhrif á umræddar tegundir. „Samskiptin geta haft áhrif á orkubússkap háhyrninga, t.d. ef þeir þurfa að flýja grindhvali á miklum hraða eða hætta að nærast vegna ágengni grindhvalanna. Við þurfum hins vegar að rannsaka þessi samskipti betur til þess að öðlast betri skilning á áhrifum þeirra,“ segir Anna Selbmann, doktorsnemi í líffræði og fyrsti höfundur rannsóknarinnar.
Ekki er vitað hvers vegna komum grindhvala hingað til lands er mögulega að fjölga en vísindamennirnir benda á að niðurstöður þeirra um samskipti tegundarinnar við háhyrninga séu að hluta í samræmi við niðurstöður fyrri rannsókna við Noreg og Spán. „Hins vegar sýnir okkar rannsókn að viðbrögð háhyrninga við því þegar grindhvalir nálgast eru mismunandi sem bendir til þess að samskiptin séu flóknari en áður hefur verið lýst. Við þurfum að átta okkur betur á vistfræði og líffræði grindhvala við Ísland til þess að varpa skýrara ljósi á það hvers vegna þessar breytingar á útbreiðslu tegundarinnar eru að eiga sér stað og hvaða afleiðingar þær munu hafa fyrir vistkerfi sjávar við Ísland,“ segir Filipa Samarra, sérfræðingur við starfsstöð Stofnunar rannsóknasetra HÍ í Vestmannaeyjum og ábyrgðarhöfundur rannsóknarinnar.