Fræðsluferð um lífið í fjörunni á laugardag
– Komdu með vísindamönnum HÍ og European Molecular Biology Laboratory í fræðsluferð á Geirsnefi um líffrræðilegan fjölbreytileika og rannsóknir í lífríki í fjörum landsins laugardaginn 13. ágúst.
Vísindamenn frá European Molecular Biology Laboratory (EMBL), samevrópskrar stofnunar á sviði sameindalíffræði, og Háskóla Íslands bjóða upp á fræðslugöngu á Geirsnefi laugardaginn 13. ágúst kl. 11. Þar kynna þau samstarfsverkefni sem nú er að hefjast og mun varpa nýju ljósi á líffræðilegan fjölbreytileika á strandsvæðum, samspil smæstu og stærstu lífvera og áhrifum þeirra á umhverfið og viðbrögðum lífveranna við umhverfisbreytingum, bæði náttúrulegum og af mannavöldum. Ferðin er opin öllum áhugasömum.
Í upphafi göngunnar munu vísindamennirnir segja frá verkefninu, sem nefnist Traversing European Coastlines (TREC), og þýðingu þess. Í framhaldinu verður farið á sýnatökustað við Geirsnef þar sem vísindamennirnir sýna hvernig sýnataka fer fram, hverju er safnað og hvers vegna. Þar gefst jafnframt tækifæri til að skoða þann búnað og tækni sem notaður er til sýnatöku í fjörum og hafi og til að meta ástand umhverfisins. Einnig munu vísindamennirnir fjalla um þýðingu verkefnisins fyrir þekkingu okkar á íslensku vistkerfi.
Markmið TREC-verkefnisins er m.a. að nýta nýjustu aðferðir og tækni í sameindalíffræði til að varpa ljósi á stöðu einstakra vistkerfa og heilbrigði plánetunnar og skilja betur samskipti örvera, þörunga, plantna og dýra í sínu náttúrlegu umhverfi og hvernig þau bregðast við breytingum í umhverfi sínu.
Vísindamenn frá EMBL og öðrum evrópskum stofnunum verða staddir á Íslandi næstu vikurnar í tilraunaleiðangri fyrir TREC-verkefnið en hann er undanfari stærri leiðangurs sem farinn verður með fram ströndum Evrópu á árunum 2023 og 2024. Í tilraunaleiðangrinum verður sjónum m.a. beint að lífríkinu við strendur Íslands og sýnum safnað og aðferðir, sem beita á í rannsóknarverkefninu, prófaðar, allt í þeim tilgangi að geta svarað nýjum vísindalegum spurningum sem ekki hafa enn kviknað.
Leiðangurinn hér á landi er í nánu samstarfi við vísindamenn við fjölmargar stofnanir og háskóla hér á landi sem stundað hafa vistkerfisrannsóknir. Þeir starfa saman á nýjum vettvangi hér á landi sem nefnist BIODICE og vinnur að því að efla vitund og skilning þjóðarinnar og rannsóknir á líffræðilegri fjölbreytni á Íslandi.
Í fræðsluferðinni á laugardag verður farið á einn af þeim stöðum þar sem vísindamenn hafa safnað sýnum, sem fyrr segir.
Fræðsluferðin hefst við bílastæðið á Geirsnefi kl. 11 og stendur í um eina og hálfa klukkustund. Hún er opin öllum og verður bæði á íslensku og ensku.