Varautanríkisráðherra Indlands heldur erindi í HÍ
- Ræðir hlutverk Indlands í breyttum heimi
Meenakashi Lekhi, varautanríkisráðherra Indlands, flytur opinn fyrirlestur í Hátíðasal Háskóla Íslands föstudaginn 19. ágúst kl. 10. Hann er öllum opinn meðan húsrúm leyfir.
Fyrirlesturinn ber titilinn „Hlutverk Indlands í breyttum heimi – India@75“. Í fyrirlestrinum mun Meenakashi Lekhi fjalla um tengsl Íslands og Indlands á umliðinni hálfri öld og framtíðartækifæri í samstarfi þjóðanna, framlag ríkjanna á alþjóðlegum vettvangi, lærdóma af heimsfaraldrinum, loftslagsmál og framlag Indlands í baráttunni við áskoranir 21. aldarinnar.
Í ár eru liðin 75 ár frá því að Indland varð sjálfstætt ríki og 50 ár frá því að Ísland og Indland tóku upp stjórnmálasamband. Eiga ríkin í margvíslegu samstarfi, m.a. á sviði viðskipta, menningarmála, vísinda og tækni, tungumálakennslu o.fl.
Meenakashi Lekhi tók við embætti varautanríkisráðherra Indlands í júlí 2021. Hún starfaði sem lögfræðingur um árabil og var fyrst kjörin til setu á indverska þinginu 2014. Hún hefur m.a. getið sér orð fyrir baráttu sína fyrir félagslegum umbótum og réttindum kvenna og barna.