Skip to main content
29. ágúst 2022

Háskólanemar með um 30 þætti á Rás 1 í vetur

Háskólanemar með um 30 þætti á Rás 1 í vetur - á vefsíðu Háskóla Íslands

Bókmenntir, markaðsfræði, falsfréttir, vöruhönnun, umhverfið og þrívíddar-frumuprentun eru meðal viðfangsefna í útvarpsþáttunum Fólk og fræði sem nemendur við Háskóla Íslands hafa unnið og verða fluttir á laugardögum á Rás 1 í vetur.  

Þættirnir eru liðir í námskeiðinu „Þáttagerð fyrir útvarp – Vinnsla fræðilegs efnis fyrir útvarp“ á vegum Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands en námskeiðið er samvinnuverkefni HÍ og RÚV. Nemendur af öllum fræðasviðum og námsstigum Háskóla Íslands hafa tekið þátt í námskeiðinu. Nemendur setja saman útvarpsþætti þar sem þeir miðla efni af sínu fræðasviði. 

„Þetta eru fjölbreyttir þættir sem endurspegla fjölbreyttan nemendahóp í námskeiðinu en meðal efnis má nefna þætti um trans, kvikmyndir, bækur, viðburðastjórnun og margt fleira,“ segir dr. Ásdís Emilsdóttir Petersen, kennari námskeiðsins til margra ára.

Um þrjátíu útvarpsþættir verða frumfluttir á laugardögum kl. 14.10 og endurfluttir á sunnudagskvöldum. Þá er alltaf hægt að hlusta á þættina á vefnum eftir útsendingu.  

Í fyrsta þætti, laugardaginn 3. september kl. 14.10, verður fjallað um notkunarmöguleika þrívíddar-frumuprentunar, meðal annars til að hafa áhrif á meðalævilengd manna. 

 

Háskólanemarnir sem standa að þáttunum ásamt kennara sínum.