Jafningjaráðgjöf við fræðileg skrif í Ritveri HÍ
Emma Björg Eyjólfsdóttir hefur tekið við starfi forstöðukonu Ritvers Háskóla Íslands. Emma hefur starfað sem verkefnastjóri í ritverinu frá hausti 2020 með það meginverkefni að efla þjónustu ritvers við nemendur og starfsfólk Háskóla Íslands með erlent móðurmál. Emma hefur lokið MA-prófum í heimspeki og menningarfræði og leggur nú stund á doktorsnám í heimspeki. Hún hefur starfað sem stundakennari við Háskóla Íslands og starfaði á vettvangi vinnumarkaðssamskipta á árunum 2015-2020, meðal annars sem fræðslu- og upplýsingafulltrúi embættis ríkissáttasemjara.
„Jafningjaráðgjöf við fræðileg skrif fyrir alla nemendur Háskólans hefur verið meginþáttur starfsemi ritvers frá upphafi og í vetur reynum við að efla þann þátt starfseminnar á háskólasvæðinu sjálfu eftir COVID-faraldurinn. Starfsfólk ritvers eru stúdentar í námi við Háskóla Íslands og okkur vantar alltaf fólk. Við hjálpum stúdentum á öllum fræðasviðum og viljum þess vegna hafa starfsmenn af öllum fræðasviðum.
Við vinnum samkvæmt þeirri hugmyndafræði að allir geti tileinkað sér að skrifa og að jafningjaráðgjöf í samtali, augliti til auglitis, sé besta leiðin til þess. Í samtalinu fær hver og einn umræðu og ráðgjöf á sínum eigin forsendum og markmiðið er að hver og einn verði færari og sterkari höfundur og um leið sterkari námsmaður.
Við höfum lagt áherslu á að ná til þeirra hópa sem eru að skrifa í fyrsta sinn um fræðilegt efni snemma í náminu eða eru að takast á við stór skrifleg verkefni í lok námsins, að doktorsritgerð meðtalinni. Undanfarin ár höfum við unnið sérstaklega að því að ná til nemenda og starfsfólks með erlent móðurmál og aðstoða það við að skrifa á íslensku og á vegum ritvers er líka í boði aðstoð við að skrifa á ensku.
Vefur ritvers hefur stækkað jafnt og þétt og þar er nú þegar margvíslegt efni um fræðileg skrif. Fram undan eru ýmis spennandi verkefni eins og að opna fræðilegt setningasafn sem hefur verið í þróun síðastliðið ár og gerð námsefnis um fræðileg skrif sem verður aðgengilegt öllum kennurum Háskóla Íslands.“