Réttlæti handan refsiréttar
Samfélagslegar hugmyndir um réttlæti í kynferðisbrotamálum taka almennt mið af refsirétti og hegningarlögum. Rannsóknir á reynslu og hugmyndum þolenda kynferðisbrota sýna aftur á móti að réttlætið er mun flóknara fyrirbæri sem getur tekið á sig ólíkar myndir eftir aðstæðum fólks og getur tekið breytingum yfir tíma.
Á ráðstefnunni „Recognising Sexual Violence: Developing Pathways to Survivor-Centred Justice“, sem fram fer í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands þann 28. september, verður fjallað um hvernig við tökum þolendamiðað réttlæti alvarlega en það krefst þess að við endurhugsum ólík réttlætiskerfi og þróum pólitískar, félagslegar og lagalegar leiðir að réttlæti í þeim tilgangi að mæta betur réttlætishagsmunum þolenda. Þá verður fjallað um hvernig hægt er að leiðrétta þann réttlætishalla sem þolendur kynferðisofbeldis búa við, bæði gagnvart ríkinu og þeim sem ofbeldinu beita.
„Ég held að það sé óhætt að segja að við höfum orðið vitni af miklum samfélagsbreytingum á síðustu árum þegar kemur að skilningi okkar á kynferðisofbeldi, þá sérstaklega í kjölfar #MeToo hreyfingarinnar. Hér á landi hefur umræðan m.a. leitt til ýmiss konar lagabreytinga til að koma betur til móts við réttlætishagsmuni þolenda, t.a.m. breytingar á nauðgunarákvæði laga sem nú gengur út frá samþykki tjáðu af frjálsum vilja, sterkari réttarstöðu brotaþola og gjafsókn handa þolendum til að höfða einkamál. Einnig er verið að ræða hvort eigi að bjóða upp á uppbyggilega réttvísi í kynferðisbrotamálum, hvernig fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök geti sem best tekið á kynferðisbrotamálum innan sinna vébanda og hvernig hægt sé að umbreyta samfélaginu í þágu félagslegs réttlætis í þessum málaflokki. Við munum fá til okkar afar spennandi fræðafólk sem hefur einmitt verið að hugsa um þessar ólíku leiðir að réttlæti og hvað þessi þróun felur mögulega í sér,“ segir Hildur Fjóla Antonsdóttir, nýdoktor við Eddu rannsóknasetur við Háskóla Íslands og einn af skipuleggjendum ráðstefnunnar.
Ráðstefnan samanstendur af sex málstofum þar sem leitast verður við að svara þessum spurningum út frá ólíkum nálgunum, þ.m.t. refsirétti, skaðabótarétti, fagráðum um kynferðisofbeldi, uppbyggilegri réttvísi, umbreytandi réttlæti og samfélagslegum ábyrgðarferlum.
Ráðstefnan er skipulögð af RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands í samstarfi við Lundarháskóla og Oslóarháskóla. Jafnréttissjóður Íslands, Norræna ráðherranefndin og forsætisráðuneytið styrkja ráðstefnuna.
Ráðstefnan er öllum opin og skráning er á vef RIKK. Upptökur af ráðstefnunni verða gerðar aðgengilegar á heimasíðu RIKK að henni lokinni.
Nánari upplýsingar, skráningu og dagskrá má nálgast á vef RIKK.