Skip to main content
28. september 2022

Allt á milli himins og jarðar hjá HÍ á Vísindavöku

Allt á milli himins og jarðar hjá HÍ á Vísindavöku - á vefsíðu Háskóla Íslands

Maurar á Íslandi, heimagert svarthol, handstyrks- og hoppmælingar, orðaforðalausnir fyrir snjallsíma, sebrafiskar í rannsóknum og íslensk og færeysk dægurlagatónlist er meðal þess sem bera mun fyrir augu og eyru á básum Háskóla Íslands á Vísindavöku sem fram fer í Laugardalshöll laugardaginn 1. október kl. 13-18. Hátíðin er öllum opin og ókeypis inn.

Vísindavaka var síðast haldin árið 2019. Rannís stendur fyrir vökunni hér á landi, en hún er haldin samtímis í helstu borgum Evrópu síðustu helgina í september undir heitinu Researchers' Night. Markmiðið með Vísindavöku er að færa vísindin nær almenningi, kynna manneskjurnar á bak við vísindin og vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi rannsókna- og vísindastarfs í nútímasamfélagi.

Stór hópur stofnana og fyrirtækja tekur þátt í þessari miklu vísindaveislu í Laugardalshöll á laugardag en þar á meðal er fræðifólk og nemendur frá öllum fimm fræðasviðum Háskóla Íslands, vísindafólk frá rannsóknasetrum skólans og starfsfólk og nemendur sem vinna að vísindamiðlun af ýmsu tagi á vegum skólans. Áhersla er á miðlun rannsókna og verkefna til allra aldurshópa á lifandi og gagnvirkan hátt og nú sem fyrr ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi á básum og stöðvum HÍ í Laugardalshöll.

Meðal þess sem gestir Vísindavöku geta kynnt sér hjá Háskóla Íslands eru verkefni og rannsóknir sem snerta notkun sýndarveruleika í skólastarfi, mælingu ókyrrðar í flugi með snjallsímum, talandi landakort, öryggi íslenska raforkukerfisins, eldgos á Íslandi, kolefnisfótspor á Norðurlöndum og listsköpun með gervigreind. Þar fást líka svör við því hvað Íslendingar borða, hvernig ónæmiskerfið virkar, hvaða dularfullu eiginleika vatn hefur, hvernig má greina ávexti með snjallsímanum og hvernig er hægt að koma auga á svikapósta. Auk þess verður hægt að berja augum ýmsar lífverur sem koma við sögu í rannsóknum skólans, s.s. krabbadýr og krossfiska, sebrafiska, ávaxtaflugur og maura. Þá verður Vísindasmiðjan sívinsæla með ótal tæki, tól og smiðjur fyrir unga sem aldna á staðnum en þar er m.a. hægt að smíða vindmyllu, búa til listaverk úr límbandi og kynnast dulkóðun og pappírsrafrásum.

Rannís stendur enn fremur fyrir Vísindakaffi í aðdraganda og eftir Vísindavöku, en þeir viðburðir fara bæði fram í borginni og víða um land, þar á meðal á rannsóknasetrum Háskóla Íslands. Þar láta vísindamenn Háskólans einnig að sér kveða með erindum og málþingum um m.a. stofnfrumur og krabbamein, ferðir fiskanna, hvali við Vestmannaeyjar, ýmis hlutverk borkjarna, heildarmynd Hólmavíkur og vöktun á hopun jökla.

Hægt er að kynna sér dagskrá og sýnendur á Vísindavöku á vef hátíðarinnar en þar er líka að finna upplýsingar um Vísindakaffi víða um land.

Frá Vísindavöku 2019