Foreldrafræðsla og uppeldisráðgjöf
Foreldrafræðsla og uppeldisráðgjöf
MA gráða – 120 einingar
Fjölskyldan og skólinn eru hornsteinar uppeldis og menntunar hverrar kynslóðar sem vex úr grasi. Fagfólk á sviði foreldrafræðslu og uppeldisráðgjafar styrkir foreldra í uppeldishlutverki sínu með velferð fjölskyldunnar og framtíðarhag barnanna, sem og samfélagsins alls, í huga. Fjarnám.
Skipulag náms
- Haust
- Inngangur að foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf
- Eigindlegar rannsóknaraðferðir I
- Megindlegar rannsóknaraðferðir I
- Vor
- Ígrundaðar samræður í foreldrafræðsluE
- Samskipti foreldra og barna
- Skipulagning og framkvæmd fræðslu með fullorðnum
- Óháð misseri
- Hið hæfa foreldri? Orðræður um foreldrahlutverkið
Inngangur að foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf (FFU101M)
Viðfangsefni
Markmið námskeiðsins er að nemendur kynnist helstu kenningum og rannsóknum um uppeldi barna og undirbúi sig undir að geta frætt foreldra um þær aðferðir sem best hafa reynst. Fjallað verður um efnið á breiðum grunni, þannig að nemar fái sem víðasta sýn á uppeldishlutverkið og aðferðir til að sinna því sem best.
Vinnulag
Námskeiðið er skipulagt sem staðbundið. Kennsla fer fram í samræðum og gagnvirkum fyrirlestrum. Námið er auk þess byggt upp á lestri, hópvinnu, kynningum og skriflegum verkefnum.
Fyrirkomulag kennslu miðar við að nemendur geti stundað námið óháð búsetu. Þá er fjarfundabúnaður notaður í rauntíma fyrir nemendur sem búsettir eru fjarri höfuðborgarsvæðinu.
Eigindlegar rannsóknaraðferðir I (MVS301F, MVS302F)
Í námskeiðinu verða teknar fyrir eigindlegar rannsóknaraðferðir, einkenni þeirra og saga. Rauður þráður í gegnum námskeiðið verður gildi og hlutverk rannsókna við þróun skólastarfs og tengsl við fagmennsku í uppeldis-, menntunar- og þjálfunarstörfum. Kynntar verða helstu rannsóknarleiðir eða nálganir innan eigindlegar aðferða, s.s. etnógrafía, fyrirbærafræði. Fjallað verður um aðferðir við gagnasöfnun og mismunandi tegundir gagna, s.s. vettvangsathuganir, áhorfsathuganir, viðtöl af ýmsum gerðum, vettvangsnótur og fyrirliggjandi gögn bæði sjónræn og textar. Kynntar verða mismunandi leiðir til að túlka og greina gögnin t.d. þema-, frásagnar- og orðræðugreining og nemendur þjálfaðir í að koma niðurstöðum frá sér á skipulegan og vandaðan hátt.
Vinnulag:
Fastir kennslutímar verða vikulega. Tímarnir (fyrir utan staðlotur) verða teknir upp og verða aðgengilegir fjarnemum. Kennslan samastendur af fyrirlestrum, umræðum og/eða verkefnum. Nemendur vinna virkniverkefni saman sem þeir skila vikulega. Staðnemar vinna þau í tímum en fjarnemar vinna þau saman í hópum. Einnig er gert ráð fyrir umræðum um efni fyrirlestranna á facebook.
Megindlegar rannsóknaraðferðir I (MVS301F, MVS302F)
Markmið
Að nemendur þekki og geti beitt algengustu tölfræðiaðferðum við úrvinnslu gagna og geti metið tölfræðilegar niðurstöður. Að nemandi hafi kunnáttu og þekkingu til þess að greina og miðla tölulegum upplýsingum skv. APA útgáfustaðlinum (t.d. í lokaritgerð) og geti sýnt frumkvæði við tölfræðilega úrvinnslu gagna. Einnig að nemendur kynnist helstu rannsóknarsniðum í megindlegri aðferðafræði.
Inntak og viðfangsefni
Fjallað verður um megindlegar rannsóknaraðferðir og rannsóknarsnið. Í tölfræði verður mest áhersla lögð á fylgni og fjölbreytuaðhvarfsgreiningu. Einnig verður unnið með aðferðir dreifigreiningar og þáttagreiningar (leitandi og staðfestandi). Að lokum verða nemendur kynntir fyrir grunnhugsun Bayesískrar tölfræði og mati á heildarvillu (e. Total survey error). Nemendur læra að vinna greiningar með tölfræðiforriti. Sérstök áhersla verður á túlkun gagnasafna sem tengjast jafnréttismálum og inngildandi menntun.
Vinnulag
Námskeiðið verður kennt vikulega á fjarfundum. Tvær staðlotur eru á önninni. Skyldumætingu er í staðlotunum. Þeir sem eiga um langan veg að fara geta tekið þátt í staðlotunum í fjarfundi. Nemendur verða að hafa nýjustu stöðugu (e. solid) útgáfu af Jamovi (sjá jamovi.org) uppsetta á fartölvum sem þeir mæta með í kennslustundir.
Ígrundaðar samræður í foreldrafræðslu (FFU101F)
Markmið námskeiðsins er að dýpka þekkingu á ígrunduðum samræðum í foreldrafræðslu og efla færni í að beita slíkri nálgun í fræðslu og/eða vinnu með foreldrum, hvort sem er í hópfræðslu eða einstaklingsráðgjöf. Nemendur kynnast fræðilegum bakgrunni ígrundaðra samræðna í foreldrafræðslu (Reflective Dialogue Parent Education Design). Fjallað verður um stundaglas aðferðina og fá nemendur tækifæri til að beita henni með foreldrahópi og í einstaklings- eða paraviðtali, með eða án myndbanda. Nemendur skipuleggja fræðslu eða samtal við foreldra sem byggir á ígrunduðum samræðum.
Samskipti foreldra og barna (FFU201F)
Fjallað verður um rannsóknir og kenningar um samskipti foreldra og barna. Skoðuð verður þýðing þessara kenninga fyrir samband og samskipti foreldra og barna og þroska þeirra. Umfjöllunin á að geta nýst í faglegri vinnu með foreldrum.
Skipulagning og framkvæmd fræðslu með fullorðnum (NAF002F)
Á þessu námskeiði undirbúa þátttakendur sig undir að skipuleggja nám fyrir fullorðna. Þátttakendur auka færni sína í að sinna helstu þáttum þess að undirbúa, skipuleggja, og útfæra hvers kyns námstilboð fyrir fullorðna: Námskeið, fyrirlestra, ráðstefnur, fundi, jafningjafræðslu og sjálfsnámsferli svo eitthvað sé nefnt.
Inntak / viðfangsefni
Þátttakendur skoða algengar nálganir við skipulagningu námsferla fyrir fullorðna, rýna í viðkomandi nálganir og læra að nota þær, greina og gagnrýna. Þátttakendur kynna sér nýlega fræðilega umræðu um viðfangsefnið, kynna sér rannsóknir um afmarkaða þætti kennsluhegðunar og bera saman við innihald bókanna sem lesnar eru á námskeiðinu og við þeirra eigin vinnu.
Á námskeiðinu takast þátttakendur á við ýmsa þætti þess að skipuleggja nám fyrir aðra í ólíku samhengi. Þeir kynnast öllum helstu skrefum við skipulagningu náms, allt frá greiningu fræðsluþarfa að skipulagningu kennsluathafna, kennslu og mati á kennslu, þó aðal áherslan liggi á skipulagningarferlið. Þátttakendur kynna sér nokkrar gagnlegar kennsluaðferðir, prófa þær og þjálfa sig í notkun þeirra. Þátttakendur þjálfast einnig í því að nota kennslutæki og nýta þjálfunina þegar þeir æfa sig í kennslu og í því að meta kennslu hver annars. Flest verkefnanna eru mjög hagnýt og geta nýst beint í starfi. Þátttakendur læra t.d. að útbúa námskeiðsmöppu sem inniheldur öll gögn sem þeir þurfa til að kenna tiltekið námskeið. Að námskeiði loknu munu þeir hafa undir höndum slíka möppu og vera tilbúin að halda námskeið með þeim gögnum sem eru í möppunni.
Vinnulag
Námskeiðið er skipulagt með formi sem er kallað "Valvíst nám". En það þýðir að þátttakendur geta á
hverjum tíma valið hvort þeir taka þátt í rauntímasamverum með því að mæta í skólann, taka þátt í gegnum fjarfundabúnað í rauntíma eða hlusta á upptökur og taka svo virkan þátt í samvinnu þátttakenda á netinu milli reglulegra funda. Þannig er reynt að koma til móts við þarfir þátttakenda svo að þeir geti lagað nám sitt að sínum aðstæðum hverju sinni.
Bestur árangur næst með rauntímaviðveru í stoðlotum og á vikulegum fundum. Þar er unnið með námsefnið og þátttakendur þjálfast í að vinna með innihald námskeiðsins.
Þátttakendur útbúa á námskeiðinu námskeiðsmöppu fyrir tiltekið námskeið eða undirbúa og rökstyðja námsskipulag fyrir tiltekinn vinnustað eða símenntunarmiðstöð.
Hið hæfa foreldri? Orðræður um foreldrahlutverkið (FFU102M)
Í þessu námskeiði verða orðræður um foreldrahlutverkið teknar til skoðunar. Fjallað verður um samfélagslegt samhengi þeirra krafna sem gerðar eru til foreldra, meðal annars um einstaklingsvæðingu foreldrahlutverksins og ákafa mæðrun. Til skoðunar verða þær kröfur sem eru gerðar til foreldra í dag svo sem skólaval, tómstundaval, samskipti heimilda og skóla/tómstunda, heimanám, matarræði, skjátímastjórnun, örvun, brjóstagjöf og kröfuna um að vera upplýst og meðvitað foreldri. Skoðað verður í gagnrýnu ljósi hvaðan þessar kröfur koma, hvaða áhrif þær hafa á foreldra og þær settar í samhengi við nýfrjálshyggju, markaðsvæðingu og orðræðu frá sérfræðingum. Ríkjandi menntastraumar gera ráð fyrir foreldrum sem eins konar „neytendum“ á „menntamarkaði“ og því er skólaval og –þátttaka á menntavettvangi vaxandi rannsóknarsvið í skóla- og uppeldisrannsóknum. Lesnar verða erlendar og íslenskar rannsóknir um foreldrahlutverkið og hvernig forréttindi og jaðarsetning mótar möguleika foreldra til að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru. Áhersla verður lögð á að skoða sérstaklega þá hópa fólks sem hafa fengið stöðu „hæfra“ og „vanhæfra“ foreldra og tengja við kenningar um kyn, stétt, uppruna, fötlun, kynhneigð og kynvitund. Nemendur fá innsýn inn í foreldrarannsóknir á sviði gagnrýnnar félagsfræði, félagssálfræði, menntunarfræði og kenninga um vald og jaðarsetningu.
- Haust
- Eigindlegar rannsóknaraðferðir I
- Megindlegar rannsóknaraðferðir I
- Foreldrafræðsla: Stuðningur við foreldra í uppeldishlutverkinu
- Lokaverkefni
- Vor
- Lokaverkefni
Eigindlegar rannsóknaraðferðir I (MVS301F, MVS302F)
Í námskeiðinu verða teknar fyrir eigindlegar rannsóknaraðferðir, einkenni þeirra og saga. Rauður þráður í gegnum námskeiðið verður gildi og hlutverk rannsókna við þróun skólastarfs og tengsl við fagmennsku í uppeldis-, menntunar- og þjálfunarstörfum. Kynntar verða helstu rannsóknarleiðir eða nálganir innan eigindlegar aðferða, s.s. etnógrafía, fyrirbærafræði. Fjallað verður um aðferðir við gagnasöfnun og mismunandi tegundir gagna, s.s. vettvangsathuganir, áhorfsathuganir, viðtöl af ýmsum gerðum, vettvangsnótur og fyrirliggjandi gögn bæði sjónræn og textar. Kynntar verða mismunandi leiðir til að túlka og greina gögnin t.d. þema-, frásagnar- og orðræðugreining og nemendur þjálfaðir í að koma niðurstöðum frá sér á skipulegan og vandaðan hátt.
Vinnulag:
Fastir kennslutímar verða vikulega. Tímarnir (fyrir utan staðlotur) verða teknir upp og verða aðgengilegir fjarnemum. Kennslan samastendur af fyrirlestrum, umræðum og/eða verkefnum. Nemendur vinna virkniverkefni saman sem þeir skila vikulega. Staðnemar vinna þau í tímum en fjarnemar vinna þau saman í hópum. Einnig er gert ráð fyrir umræðum um efni fyrirlestranna á facebook.
Megindlegar rannsóknaraðferðir I (MVS301F, MVS302F)
Markmið
Að nemendur þekki og geti beitt algengustu tölfræðiaðferðum við úrvinnslu gagna og geti metið tölfræðilegar niðurstöður. Að nemandi hafi kunnáttu og þekkingu til þess að greina og miðla tölulegum upplýsingum skv. APA útgáfustaðlinum (t.d. í lokaritgerð) og geti sýnt frumkvæði við tölfræðilega úrvinnslu gagna. Einnig að nemendur kynnist helstu rannsóknarsniðum í megindlegri aðferðafræði.
Inntak og viðfangsefni
Fjallað verður um megindlegar rannsóknaraðferðir og rannsóknarsnið. Í tölfræði verður mest áhersla lögð á fylgni og fjölbreytuaðhvarfsgreiningu. Einnig verður unnið með aðferðir dreifigreiningar og þáttagreiningar (leitandi og staðfestandi). Að lokum verða nemendur kynntir fyrir grunnhugsun Bayesískrar tölfræði og mati á heildarvillu (e. Total survey error). Nemendur læra að vinna greiningar með tölfræðiforriti. Sérstök áhersla verður á túlkun gagnasafna sem tengjast jafnréttismálum og inngildandi menntun.
Vinnulag
Námskeiðið verður kennt vikulega á fjarfundum. Tvær staðlotur eru á önninni. Skyldumætingu er í staðlotunum. Þeir sem eiga um langan veg að fara geta tekið þátt í staðlotunum í fjarfundi. Nemendur verða að hafa nýjustu stöðugu (e. solid) útgáfu af Jamovi (sjá jamovi.org) uppsetta á fartölvum sem þeir mæta með í kennslustundir.
Foreldrafræðsla: Stuðningur við foreldra í uppeldishlutverkinu (FFU301F)
Fjallað verður um tilgang þess að styðja við hæfni foreldra og um hugtök, rannsóknir og kenningar um nám og þroska fullorðinna/foreldra. Þýðing þessara kenninga fyrir foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf verður skoðuð í gagnrýnu ljósi og greindir þættir sem hafa áhrif á samskipti foreldra og barna. Stuðlað verður að fagmennsku hvers og eins með áherslu á að kanna þá þekkingu og hæfni sem mikilvægt er að þeir sem sinna foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf búi yfir.
Lokaverkefni (FFU401L)
Lokaverkefni til MA-prófs er einstaklingsbundið rannsóknarverkefni sem nemandi vinnur sjálfstætt undir leiðsögn leiðbeinanda/leiðbeinenda.
Nemendur skulu hafa samráð við formann námsbrautar um val á leiðbeinanda. Leiðbeinandi er að jafnaði valinn úr hópi fastra kennara Menntavísindasviðs.
Val viðfangsefnis er fyrst og fremst á ábyrgð nemandans en í samráði við leiðbeinanda. Þess skal gætt að verkefnið tengist sérsviði því sem nemandi hefur valið, það er að segja, að verkefnið tengist viðfangsefnum viðkomandi námsleiðar og einnig kjörsviði/sérsviði/námssviði þar sem það á við.
Að öllu jöfnu tekur undirbúningur og vinna lokaverkefnis a.m.k. tvö misseri. Nemendur skulu fylgja nánari leiðbeiningum og reglum um verklag við MA-verkefni sem birtar eru á innri vef Menntavísindasviðs, Uglu: Fræðasvið >> Menntavísindasvið >> Meistaraverkefni.
Lokaverkefni (FFU401L)
Lokaverkefni til MA-prófs er einstaklingsbundið rannsóknarverkefni sem nemandi vinnur sjálfstætt undir leiðsögn leiðbeinanda/leiðbeinenda.
Nemendur skulu hafa samráð við formann námsbrautar um val á leiðbeinanda. Leiðbeinandi er að jafnaði valinn úr hópi fastra kennara Menntavísindasviðs.
Val viðfangsefnis er fyrst og fremst á ábyrgð nemandans en í samráði við leiðbeinanda. Þess skal gætt að verkefnið tengist sérsviði því sem nemandi hefur valið, það er að segja, að verkefnið tengist viðfangsefnum viðkomandi námsleiðar og einnig kjörsviði/sérsviði/námssviði þar sem það á við.
Að öllu jöfnu tekur undirbúningur og vinna lokaverkefnis a.m.k. tvö misseri. Nemendur skulu fylgja nánari leiðbeiningum og reglum um verklag við MA-verkefni sem birtar eru á innri vef Menntavísindasviðs, Uglu: Fræðasvið >> Menntavísindasvið >> Meistaraverkefni.
- Heilsársnámskeið
- Gagnvirk og eflandi menntun IV
- Haust
- Barnavernd - hvað er börnum fyrir bestu?V
- Lífsleikni - sjálfiðVE
- Margbreytileiki og félagslegt réttlætiV
- Jákvæð sálfræði og velferðV
- Málþroski og þróun málnotkunarV
- Fréttamennska 1: Fréttamat, fréttaöflun og fréttaskrifVE
- Nám fullorðinna og þróun mannauðsVE
- Vor
- Siðfræði og samfélagV
- Trúarbrögð og lífsgildi í fjölmenningarsamfélagiVE
- Hegðun og tilfinningar barna: Áskoranir og úrræðiV
- Lýðræði, mannréttindi og borgaravitund barna og ungmennaV
- Menntun og kyngerviV
- Félags- og tilfinningahæfni í uppeldi og menntunV
- Mat á vettvangiV
- Áhættuhegðun og seigla ungmennaV
- Sumar
- Þáttagerð. Vinnsla fræðilegs efnis fyrir útvarp (í samvinnu við RÚV)V
- Óháð misseri
- Gæði og árangur í símenntunV
- Menntun allra í fjölmenningarsamfélagi: Kenningar og rannsóknirV
- Greining á fræðsluþörfumV
- Markaðssetning fræðsluVE
- Mat og vottun á þekkingu og færni fullorðinnaVE
Gagnvirk og eflandi menntun I (UME001M)
Námskeiðið gagnvirk og eflandi menntun er tækifæri til að læra hagnýta þætti kennslu, miðlunar og skapandi vinnu með hópum. Námskeiðið er opið öllum nemendum Háskóla Íslands og í gegnum Endurmenntun HÍ einnig öðrum. Það er boðið bæði haust og vor. Fyrirkomulag námskeiðsins er þannig að nemendur taka stutt hagnýt færninámskeið þar sem unnið er með margvíslegar aðferðir í kennslu, miðlun og lóðsun (sbr. lista fyrir neðan) og ljúka námskeiðinu með því að ljúka a.m.k. þremur færninámskeiðum.
Færninámskeiðin skiptast í fjóra flokka og getur nemandi ýmist tekið námskeið úr ólíkum flokkum eða einbeitt sér að námskeiðum í einum flokki.
Gagnvirk og eflandi kennsla
- Fagmannleg samskipti í fræðslu og samvinnu
- Fjölbreyttar aðferðir til að virkja þátttakendur
- Leiðbeinandinn sem samferðamaður / lóðs (facilitator)
Framsetning námsefnis
- Lifandi og áhrifarík framsögn
- Sýnileg framsetning við fundi og fræðslu
Lýðræðislegar og skapandi aðferðir
- Open Space Technology
- Miðlunaraðferðin
- World Café
- Skapandi lausnaleit (Creative Problem Solving)
Upplýsingatækni til fræðslu og gagnvirkni
- Notkun Upplýsingatækni við nám og kennslu
- Áhrifarík kennsla með fjarfundabúnaði
- Gerð kennsluefnis með hljóð og mynd
Barnavernd - hvað er börnum fyrir bestu? (KME118F)
Markmið námskeiðsins er að auka fræðilega þekkingu og hæfni sérkennara, starfsfólks leik- og grunnskóla og nema í tómstunda- eða uppeldis- og menntunarfræði til að efla hagsmunagæslu, vernd og stuðning við börn.
Námskeiðið tengist Heimsmarkmiðum Sameinuðuþjóðanna nr. 3 (heilsa og vellíðan) nr. 4 (menntun fyrir alla).
Í námskeiðinu er fjallað um réttindi og skyldur starfsmanna, barna og forsjáraðila. Rætt um lög og reglugerðir þessu viðkomandi. Fjallað er um einkenni og vísbendingar þess að farsæld barns sé ábótavant, ofbeldi gagnvart börnum sem og mati á slíkum aðstæðum. Sjónum verður beint sérstaklega að farsæld barna og þá læsi á einkenni áfalla og steitu í hegðum og háttum barna. Fjallað er um gildi þverfaglegs samstarfs þegar unnið er að velferð barna, það tengt forvarnarstarfi og gerð viðbragðsáætlanna. Kennsla er í formi fyrirlestra á upptöku og í staðlotum, umræðna og verkefna.
Kennsla er í formi fyrirlestra og umræðu í tveimur staðlotum, vikulega umræðutíma innan námshópa yfir önnina og verkefnavinnu. Viðvera í staðlotum er skylda og því forsenda þess að taka þátt í námskeiðinu. Áhersla er á sjálfstæða vinnu nemenda. Nemendur þurfa að skipuleggja lestur sinn og þannig kynna sér efnið sem kennari leggur fram. Krafa er gerð til nemenda að þeir deili þekkingu sinni með samnemendum og eigi í reglulegum samskiptum við aðra nemendur.
Lífsleikni - sjálfið (SFG104F)
Viðfangsefni: Á námskeiðinu er unnið með þá þætti lífsleikni sem miða að sjálfinu og persónulegri hæfni með fræðilegum og hagnýtum hætti. Efni námskeiðsins er í samræmi við ákvæði úr námskrám íslenskra leik-, grunn- og framhaldsskóla um að efla andlega heilsu, heilbrigða sjálfsmynd og siðferðilegan styrk nemenda. Meðal annars er fjallað um mannkostamenntun, lífstilraunir og nútvitund.
Vinnulag: Fyrirlestrar og umræður verða í flestum vikum. Fyrirlestrar verða að jafnaði teknir upp fyrirfram og settir á Canvas-vef námskeiðsins. Gert er ráð fyrir að nemendur kynni sér þá og taki svo þátt í umræðum. Umræðutímarnir verða ekki teknir upp en þeir sem ekki komast í umræðutíma geta uppfyllt þátttökuskyldu með því að skila þátttökubloggi. Einnig eru unnin þrjú verkefni auk lokaverkefnis.
Margbreytileiki og félagslegt réttlæti (UME103F)
Markmið: Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist skilning á margbreytileika samfélagsins, mikilvægi hans í menntunarlegu félagslegu tilliti, átti sig betur á stöðu einstaklinga og hópa sem þrýst er að jaðri samfélagsins. Einnig munu nemendur öðlast þekkingu á margvíslegum myndum, tilurð og afleiðingum útilokunar og stimplunar og kunna skil á afmörkuðum þáttum í sögu og siðfræði sem varða margbreytileika, félagslegan auð, útilokun og félagslegt réttlæti. Einnig verður lögð áhersla á að nemendur öðlist færni í að beita fræðilegum hugtökum á vettvangi og geti sett hugmyndir um fagmennsku og fagstétt í sögulegt og siðfræðilegt samhengi. Rík áhersla er á að nemendur geti ígrundað eigin viðhorf og vinnu í ljósi siðfræðilegra, félagsfræðilegra og menntunarfræðilegra hugtaka eins og sjálfræðis, virðingar, mannlegrar reisnar, trausts og umhyggju, félagslegt réttlæti og félagsleg mismunun, félagsauður og valdefling.
Viðfangsefni: Meginviðfangsefni námskeiðsins er margbreytileiki samfélagsins og staða jaðarhópa í skóla og samfélagi. Námskeiðið skiptist í þrjá hluta þar sem fyrstu tveir hlutarnir byggjast á fræðilegri umfjöllun um álitamál, sögu og siðfræði, en í þriðja hlutanum er gert ráð fyrir að nemendur beiti þeim fræðilegu undirstöðum sem lagðar hafa verið í fyrstu tveim hlutunum til að skoða vettvang, eigið starf og eigin viðhorf.
Jákvæð sálfræði og velferð (UME106F)
Fjallað verður um hvernig efla megi velfarnað í uppeldis og menntastörfum í víðum skilningi. Fræðilegur rammi námskeiðsins byggir á rannsóknum á velfarnaði, meðal annars út frá jákvæðri sálfræði. Fjallað verður um ólíkar kenningar um hamingjuna, sem og nokkur lykilhugtök sem tengjast velfarnaði í uppeldi og menntun svo sem ynnri/ytri hvati, sjálfstjórnun og sjálfræði, seigla, dygðir, hugarfar, lífssýn, núvitund, atbeini/sjálfstiltrú, tilfinningar, félagstengsl og áfallaþroski. Einnig eru kynntar aðferðir (positive intervention) til að stunda sjálfsrýni, aðferðir sem stuðla að aukinni sjálfsþekkingu; svo sem núvitund, markmiðasetning og hvernig vinna megi að því að þroska mannkosti og dygðir.
Nemendur fá tækifæri til að vinna verkefni sem fela í sér sjálfsrýni um líf og störf útfrá lífssýn, gildum og persónustyrkleikum. Einnig vinna nemendur fræðileg verkefni þar sem þeir tengja fræðin við eigin starfsvettvang eða áhugasvið. Þá munu nemendur fara í gegnum heildstætt grunnnámskeið í núvitund, fara í gegnum æfingar heima og halda dagbók í tengslum við núvitundarþjálfunina.
Námskeiðið er sérstaklega hugsað fyrir nemendur í uppeldis og menntavísindum og fagfólk í skóla-, frístunda- og uppeldisstörfum. Markmiðið er að þeir þekki leiðir til að efla sinn eigin velfarnað og í kjölfarið leiðir til að stuðla að velfarnaði í uppeldis- og menntastörfum.
Málþroski og þróun málnotkunar (KME104F)
Námskeiðinu er ætlað að efla skilning nemenda á þróun málþroska barna frá fæðingu og fram á unglingsár og á mikilvægum áhrifsþáttum á málþroska þeirra. Megin áhersla námskeiðsins er á að auka færni nemenda við að veita börnum árangursríka málörvun sem undirstöðu undir nám og lestur. Ennfremur eru nemendur hvattir til að tengja saman fræði og vettvang og máta viðfangsefnin við eigin reynslu. Áhersla er lögð á að nemendur kynnist íslenskum og erlendum rannsóknum á sviðinu og ígrundi hvaða lærdóm kennarar geta dregið af rannsóknaniðurstöðum um það hvers konar reynsla, uppeldi, samskipti og örvun heima og í skóla veita bestu forsendur fyrir góðan málþroska.
Meginumfjöllunarefni: Þróun málnotkunar í sögulegu samhengi, hvati, lífshættir og meðfæddir hæfileikar. Þróun málþroska frá fæðingu, hljóðþróun, þróun orðaforða, málfræði, og setningagerðar. Mikilvægi málörvunar heima og í skóla. Tengsl málþroska við annan þroska svo sem vitsmuna, félagsþroska og læsisþróun. Helstu frávik í máli og tali svo sem málþroskaröskun (DLD), framburðarfrávik og stam. Málþroski fjöl/tvítyngdra barna. Mikilvægi snemmtækrar íhlutunar og almennrar málörvunar. Mat á málþroska barna og margvísleg málörvun með það að meginmarkmiði að gefa börnum næg tækifæri til að efla málþroska sinn og til að verða öflugir málnotendur
Fréttamennska 1: Fréttamat, fréttaöflun og fréttaskrif (BLF110F)
Grundvallarnámskeið í blaðamennsku. Markmið þess er að nemendur öðlist skilning á störfum blaðamanna og færni í fréttaöflun og skrifum og framsetningu frétta fyrir mismunandi miðla. Helstu hugtök og aðferðir við fréttaskrif eru kynnt; hvað er frétt, á hverju byggja fjölmiðlar fréttamat, hvernig er frétta aflað og hvernig þær eru uppbyggðar o.s.frv. Nemendur verða þjálfaðir í að skrifa markvissa fréttatexta og greinar á góðri íslensku og að nota orðbækur og önnur slík hjálpartæki. Jafnfram verður lögð áhersla á að kenna nemendum að nota samfélagsmiðla, bæði til þess að afla upplýsinga og miðla fréttum.
Námsmatið byggir alfarið á verkefnum sem unnin eru jafnt og þétt yfir önnina. Nemendur afla og skrifa fréttir sem birtar verða á fréttavef námsins og eftir atvikum í öðrum fjölmiðlum. Helstu fjölmiðlar landsins verða heimsóttir og nemendum fara í stutta starfskynningu.
Nám fullorðinna og þróun mannauðs (NAF003F)
Símenntun, endurmenntun, mannauðsþróun eru hugtök sem æ fleiri þurfa að takast á við vegna vinnu sinnar. Stjórnendur þurfa til dæmis að útbúa símenntunaráætlanir, sérfræðingar þurfa að kenna samstarfsfólki sínu, kennarar koma að foreldrastarfi eða starfsþróun samkennara sinna og svo mætti lengi telja. Þetta námskeið er fyrir fólk sem vill dýpka skilning sinn á námi fullorðinna, til að geta betur tekið ákvarðanir um símenntun, skipulagt fræðslustarf eða unnið á annan hátt með fullorðnum sem ætla að læra. Námskeiðið gefur fræðilegan grunn undir allt fræðslustaf með fullorðnum.
Markmið
Markmið námskeiðsins er að þátttakendur öðlist haldgóða þekkingu á rannsóknum og kenningum um nám fullorðinna, og geti nýtt þá þekkingu til að taka rökstuddar ákvarðanir í tengslum við skipulagningu náms fyrir fullorðna og / eða við það hjálpa fullorðnum á annan hátt til að læra, takast á við breytingaferli og þroskast.
Inntak / viðfangsefni
Til að ná þessum yfirmarkmiðum takast nemendur við þrjú aðal viðfangsefni á námskeiðinu:
- Greiningu á hlutverki náms og menntunar fullorðinna í ljósi þróunar samfélagsins, rannsókn á því hvernig stofnanir samfélagsins hafa brugðist við - einkum hvað varðar aðgerðir sem ætlað er að styðja við nám fullorðinna. Þátttakendur læra að nota ýmis verkfæri til þess að greina samtímann og meta mögulegar þarfir fullorðinna fyrir nám.
- Rannsókn á sérkennum og sérstöðu fullorðinna námsmanna. Könnun á kenningum um hið sama og greining á gagni þeirra til að skýra og skipuleggja nám fyrir fullorðna og með þeim.
- Þátttakendur kynna sér nokkur meginstef úr kennslufræði fullorðinna. Hugmyndir um fullorðna námsmenn, þátttöku þeirra í fræðslu, áhugahvöt og hindranir, hlutverk leiðbeinenda í fullorðinsfræðslu, mótun námsumhverfis, samskipti kennara og nemenda og fleira.
Vinnulag
Námskeiðið verður kennt á formi sem er kallað "Valvíst nám". En það þýðir að þátttakendur geta valið hvort þeir mæta í skólann, taka þátt í gegnum fjarfundabúnað í rauntíma eða hlusta á upptökur og taka virkan þátt í samvinnu þátttakenda á netinu milli reglulegra funda.
Á námskeiðinu eru tvær "vinnulotur" þar sem allir þátttakendur vinna saman í heilan dag í tengslum við efni namskeiðsins. Þátttakendur eru hvattir til að mæta í húsnæði Menntavísindaseviðs við Stakkahlíð í vinnuloturnar. Þar verða teknar mikilvægar ákvarðanir um námskeiðið, þátttakendur kynnast vel og það styður við samvinnu þeirra á námskeiðinu, þá reynum við að beita aðferðum sem nýtast vel í fullorðinsfræðslu, þannig að þátttakendur upplifa ýmsar aðferðir sem þeir geta síðan nýtt við skipulagningu náms og kennslu.
Síðan hittast þeir vikulega í húsnæði skólans eða á netinu.
Á milli funda og vinnulota fer samvinnan fram á vef námskeiðsins, t.d. í gegnum skriflegar umræður á umræðuþráðum námskeiðsins.
Fyrir hverja er þetta námskeið?
Námskeiðið hentar öllum þeim sem koma – eða vilja koma – á einhvern hátt að ákvörðunum um nám fullorðinna, skipulagningu þess og útfærslu. Það hentar þannig fólki sem starfar við mannauðs- og fræðslumál innan fyrirtækja og stofnana, stjórnendur og verkefnastjóra í stofnunum sem bjóða upp á nám og námskeið fyrir fullorðna sem og sérfræðingum sem hafa áhuga á að kenna fullorðnum. Námskeiðið býður þessu fólki tækifæri að afla sér góðrar grunnþekkingar á helstu spurningum og viðfangsefnum sem snerta nám fullorðinna, forsendur, aðstæður og skipulagningu þess. Námskeiðið gefur þannig góða undirstöðu fyrir alls konar verkefni er varða nám fullorðinna almennt.
Siðfræði og samfélag (MVS210F)
Viðfangsefni
Í námskeiðinu verða greind tiltekin siðferðileg álitamál í íslensku samfélagi. Sjónum verður beint að siðferðilegum spurningum sem til dæmis tengjast heilbrigðis, umhverfis- og menntamálum. Dregið verður fram hvað einkennir sérstaklega siðferðilegan vanda og rætt hvernig hægt er að takast á við hann. Til að nálgast það verkefni verða skoðuð dæmi um siðferðileg málefni í opinberri umræðu í íslensku samfélagi, þau greind þar sem átakalínur og undirliggjandi gildi verða skoðuð.
Trúarbrögð og lífsgildi í fjölmenningarsamfélagi (KME003M)
Námskeiðið miðar að því að nemendur dýpki þekkingu sína á stöðu og áhrifum trúarbragða í fjölmenningarsamfélagi. Fjallað verður um ýmsar kenningar er snerta trúarþörf og trúarreynslu mannsins, trúarlega sjálfsmynd og valda þætti nokkurra helstu trúarbragða heims. Einnig siði og venjur tengdar trúariðkun, einkum er haft geta áhrif á skólastarf. Þá verður fjallað um trúarbrögð og siðfræði, sameiginleg gildi ólíkra trúarbragða, stöðu trúarbragða, menningarleg og trúarleg átök sem eiga sér stað í dag og fordóma og misskilning tengdan trúarbrögðum. Nemendur velja sér trúarbrögð sem þeir dýpka þekkingu sína á, einkum með tilliti til þess að þau endurspegli vaxandi menningarlegan og trúarlegan fjölbreytileika hér á landi og vinna jafnframt vettvangstengd verkefni.
Vinnulag
Fyrirlestrar, samræður, mat og beiting fræða á tiltekin viðfangsefni, samstarf í hópum. Verkefni, m.a. vettvangstengt rannsóknarverkefni, og kynning í málstofum.
Hegðun og tilfinningar barna: Áskoranir og úrræði (MAL003F)
Markmiðið með námskeiðinu er að gefa þátttakendum kost á að kynnast völdum þáttum, bæði fræðilegum og hagnýtum, sem auðvelda almennum kennurum og sérkennurum að skilja, meta og bregðast við þörfum nemenda sem eiga við hegðunar- og/eða tilfinningavanda að etja. Fjallað verður um aðferðir við skimun og mat, áhrifaþætti og algengi mismunandi hegðunar- og/eða tilfinningalegra erfiðleika, s.s. mótþróa, þunglyndis og kvíða. Einnig verður fjallað um hegðunar- og/eða tilfinningalega erfiðleika nemenda með athyglisbrest með ofvirkni (ADHD) eða röskun á einhverfurófinu. Sérstök áhersla er á að auka færni þátttakenda í að sníða skólastarf og skólasamfélag betur að þörfum nemenda með hegðunar- og/eða tilfinningalega erfiðleika og veita kennurum og skólastjórnendum ráð um hvernig unnt er að gera slíkt og fjarlægja hindranir sem útiloka og einangra nemendur með slíkan vanda.
Nemendur hafi aflað sér grunnþekkingar á helstu hugtökum og sjónarhornum þroskasálfræði eða félagsvísinda á námsferli sínum áður en þeir sækja námskeiðið. Reynsla af vinnu með börnum eða ungmennum æskileg.
Helstu efnisþættir
- Mismunandi skilgreiningar á hegðunar- og tilfinningaörðugleikum - alþjóðleg viðmið og flokkunarkerfi.
- Hegðunar- og tilfinningaörðugleikar í samfélagslegu samhengi.
- Helstu kenningar um hegðunar- og tilfinningaörðugleika barna og unglinga (conceptual models).
- Viðbrögð skólasamfélagsins; nemendasýn og skólastefna - skóli án aðgreiningar, sérdeildir eða sérskólar? Ólík sjónarhorn við að skilgreina vandann.
- Sértæk úrræði innan skólasamfélagsins og fræðilegur bakgrunnur þeirra.
- Mismunandi aðferðir við virknimat (functional behavioral assessment) til að ákvarða hvaða þættir ýta undir hegðunar- og/eða tilfinningalega erfiðleika nemenda.
- Gerð stuðningsáætlunar með margvíslegum aðferðum til að fyrirbyggja erfiða hegðun eða vanlíðan, kenna og styrkja viðeigandi hegðun og bregðast þannig við erfiðri hegðun þannig að dragi úr henni með tímanum og nemendum líði betur.
- Aðferðir til að auka félagsfærni og sjálfstæð vinnubrögð nemenda með hegðunar- og/eða tilfinningalega erfiðleika.
Vinnulag
Í staðlotum verða fyrirlestrar auk verkefnatíma. Á kennsluvefnum Canvas verða birtar hljóðglærur og kennslubréf, og þar fara fram umræður úr völdum efnisþáttum. Námskeiðið er kennt með fjarnámssniði en mætingarskylda er í staðlotur. Námsmat er að mestu leyti fólgið í hópverkefnum.
Lýðræði, mannréttindi og borgaravitund barna og ungmenna (UME002F)
Í námskeiðinu er fjallað um þætti sem undirbyggja og styðja við menntun til hnattrænnar borgaravitundar (e. global citizenship education). Rætt er um mikilvægi þess að borgarar skynji að þeir hafi tiltekinn rétt í samfélaginu en jafnframt ábyrgð og skyldur. Áhersla er lögð á fræðilega og stefnumótandi umræðu um hugtök á borð við hnattvæðingu, borgaravitund, borgaralega þátttöku, lýðræði, mannréttindi, menntun og sjálfbærni. Fjallað verður um ólíkar nálganir og skilgreiningar á hnattrænni borgaravitund þar sem áhersla er lögð á gagnrýna nálgun og unnið með dæmi af alþjóðlegum og innlendum vettvangi menntunar svo sem heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og grunnþætti menntunar. Þá verður kastljósinu einnig beint að stöðu barna og ungmenna og hvernig við lærum og kennum í anda hnattrænnar borgaravitundar.
Menntun og kyngervi (UME004M)
Markmið: Markmið námskeiðsins er að nemar kynnist hugmyndum, kenningum og rannsóknum um uppeldi og menntun í ljósi kynjafræðilegra sjónarmiða og hugtaksins kyngervi (gender).
Viðfangsefni. Unnið verður með hugtökin, kyngervi, kynjun, kynímyndir, staðalmyndir, kvenfrelsi, félagsleg mismunun, kynhlutverk, kynjablinda, tvíhyggja og valdatengsl. Fjallað verður um hvernig hugmyndir um menntun kynjanna hafa þróast sögulega, rýnt í orðræðuna um drengi og stúlkur og staðreyndir og gagnrýni á menntun og kynferði á öllum skólastigum. Sjónarmið félagslegar mótunarhyggju og eðlishyggju verða notuð til að útskýra mismunandi hugmyndir um kynjamismunun. Athyglinni verður beint sérstaklega að nýjum rannsóknum á sviðinu og fræðilegri nálgun mismunandi fræðimanna. Að síðustu verður athyglinni beint að íslenska skólakerfinu, stöðu drengja og stúlkna, leiðtogum og stjórnendum, námskrám og stöðu lögbundinnar jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum. Lesnar verða nýjar íslenskar og erlendara rannsóknir á kyngervi og skólastarfi, t.d. rannsóknir á námsframmistöðu kynjanna, mismunandi hugmyndum stelpna og stráka um námsgreinar, námshæfni og námsval og hvernig skólar bregðast við kynjun skóla og samfélags.
Vinnulag
Námskeiðið er skipulagt sem staðnám, með möguleikum til fjarnáms ef þörf krefur. Námskeiðið byggist á fyrirlestrum, umræðum, málstofum, hópvinnu og verkefnavinnu.
Félags- og tilfinningahæfni í uppeldi og menntun (UME208F)
Fjallað verður um hvernig efla megi félags- og tilfinningahæfni í uppeldis og menntastörfum í víðum skilningi. Fræðilegur grunnur námskeiðsins er m.a. sóttur í alþjóðleg samstarfsverkefni. Annars vegar vegar í svokallað UPRIGHT verkefni þar sem búið var til náms- og kennsluefni til að efla seiglu ungmenna. Hinsvegar verkefni alþjóðlegra sérfræðinga um eflingu félags- tilfinninga og siðferðilegra þátta sem við köllum FTS nám (félags- tilfinninga- og siðferðisnám) eða SEE learning (social-, emotional and ethical learning) Þá er einnig sótt smiðju jákvæðrar sálfræði og mannkostamenntunar. Fjallað verður um nýjar hugmyndir um farsæld sem markmið menntunar, sem nú eru í vinnslu innan OECD, og um hvernig best sé að hjálpa nemendum að þroska mannkosti sína og dygðir.
Lykilhugtök: Félags- tilfinninga og siðferðinám, menntun til farsældar, mannkostamenntun, tilfinningalæsi, núvitund, samkennd, sjálfsvitund og samfélagsleg vitund, samskipti og tengsl.
Námskeiðið er meðal annars hugsað út frá framkvæmd menntastefnu 2030 þar sem meðal annars er lögð áhersla á „forvarnir með kennslu og þjálfun í hegðunar-, félags- og tilfinningafærni til að styrkja nemendur (Mennta og barnamálaráðuneyti, 2022).
Mat á vettvangi (STM201F)
Í námskeiðinu verða matsfræðin lítillega kynnt en megináherslan verður á matsverkefni tengt starfsvettvangi að eigin vali. Námskeiðið er skipulagt í kringum matsverkefni sem felur í sér mótun rannsóknarspurningar, rökstuðning fyrir matsnálgun, val á og rökstuðning fyrir aðferðum við gagnaöflun, greiningu gagnanna og skrif og kynningu á lokaskýrslu.
Áhættuhegðun og seigla ungmenna (UME206F)
Í námskeiðinu er lögð áhersla á umfjöllun um áhættuhegðun ungmenna (t.d. vímuefnaneyslu, frávikshegðun, brokkgenga skólagöngu) og seiglu þeirra í tengslum við ýmsa uppeldislega, félagslega og sálfræðilega þætti. Viðfangsefni eru m.a. samskiptahæfni, geðraskanir, kynheilbrigði og áföll. Fjallað er ítarlega um ýmis konar verndandi þætti og áhættuþætti og þátt heimila, skóla og tómstundastarfs í að stuðla að velferð ungmenna. Kynntar eru bæði innlendar og erlendar rannsóknir á fræðasviðinu. Sérstök áhersla er á rannsóknir sem skoða tengsl ýmissa þroskaþátta og áhættuhegðunar. Verkefni í námskeiðinu miða að því að leita eftir sýn ungs fólks á áhættuþætti í lífi sínu.
Athugið: Hægt er að taka námskeiðið í fjarnámi. Kennsluinnlegg eru almennt tekin upp og sett inn á námsumsjónarkerfið CANVAS fyrirfram en ef kennsla fer fram í rauntíma þá er hún tekin upp. Vikulega eru umræðutímar (60 mín.) þar sem nemendur geta valið milli þess að koma á staðinn eða vera með á netinu. Hið sama á við þegar ritgerðir eru kynntar einu sinni á önninni þá geta nemendur verið á staðnum eða með á netinu.
Þáttagerð. Vinnsla fræðilegs efnis fyrir útvarp (í samvinnu við RÚV) (BLF201M)
Markmiðið með námskeiðinu er að gefa nemendum tækifæri til að koma rannsóknum sínum og annarra á framfæri við hlustendur Ríkisútvarpsins, jafnframt því að rýna í samfélag og menningu á fræðilegum forsendum. Nemendum gefst um leið tækifæri til að kynnast útvarpinu sem miðli, fá reynslu af þáttagerð og kynnast verklagi reynds fjölmiðlafólks.
Á meðal þess sem rætt verður um á námskeiðinu er: Ríkisútvarpið sem miðill, útvarp sem farvegur fræða, gerð fléttuþátta fyrir útvarp, viðtöl við fræðimenn, hvernig nýta megi eigin sérfræðiþekkingu við dagskrárgerð og krafturinn sem býr í hinu ósagða. Rætt verður um talmál og tónlist í safni Ríkisútvarpsins. Lögð verður áhersla á hvernig tækni hefur þróast varðandi varðveislu og afspilun og hvernig hægt er að flétta eldri upptökur inn í nýja dagskrá.
Auk þessa fræðast nemendur um handritsgerð, viðtöl og vinnu í hljóðstofu. Þættir nemenda verða á dagskrá Ríkisútvarpsins á komandi vetri.
Gæði og árangur í símenntun (NAF001F)
Markmið námskeiðsins er að hjálpa þátttakendum að nýta sér helstu kenningar og aðferðir til að meta, mæla og ræða gagnrýnið um árangur af fræðslustarfsemi fyrir fullorðina.
Þátttakendur læra að framkvæma mat á mismunandi þáttum fræðslustarfs. Þeir munu læra aðferðir og orðaforða sem nýtast þeim bæði við formlegt mat og óformlegt mat á einstaka námskeiðum sem og starfsemi fræðslustofnana eða deilda. Þá verða kannaðar leiðir til að nýta niðurstöður mats til þess að bæta gæði starfsins.
Þá kynna þátttakendur sér nokkrar viðurkenndar leiðir við gæðastjórnun fræðslustarfsemi.
Innihald
Gæðastjórnun, fræðslumat sem hluti gæðastjórnunarferlis. Helstu hugmyndir og aðferðir gæðastjórnunar og mats á fræðslustarfsemi. Tekin verða greiningardæmi og raunhæf verkefni úr atvinnulífinu.
Menntun allra í fjölmenningarsamfélagi: Kenningar og rannsóknir (MAL104F)
Hugmyndir um menntun allra, fjölmenningarmenntun og sérkennslu eru mikilvægir þættir í skilvirkum skólum með fjölbreyttum nemendahópum.
Megintilgangur námskeiðsins er að gefa nemendum kost á að dýpka þekkingu sína og skilning á rannsóknum og kenningum á sviði menntunar allra og fjölmenningarfræða á Íslandi og í öðrum löndum.
Fjallað verður um rannsóknir og kenningar er varða jaðarsetningu barna og ungmenna í skólakerfinu út frá hugmyndum um jafnræði, jafnrétti og mannréttindi. Ennfremur verður fjallað um menntun allra og fjölmenningarlega menntun í sögulegu og alþjóðlegu samhengi, stöðu minnihlutahópa og stöðu flóttafólks.
Hugtakið samtvinnun (e. intersectionality) dregur athygli að því að þegar breytur eins og kynþáttur, tungumál, trú, þjóðerni, fötlun, kynhneigð mætast, hafa þær margfeldisáhrif á stöðu nemenda.
Greining á fræðsluþörfum (NAF201F)
Eitt fyrsta skrefið við skipulagningu náms fyrir fullorðna er að greina þörf væntanlegra þátttakenda fyrir fræðslu. Það gerirst æ algengara að fræðsluaðilar ýmiskonar þurfa að vinna með væntanlegum viðskiptavinum sínum, fyritækjum, stofnunum eða félagasamtökum að þróun sérsmíðaðra námstilboða sem taka mið af menningu og þörfum viðkomandi viðskiptavinar. Markmið þessa námskeiðs er að þátttakendur geti greint námsþarfir fullorðinna og sett niðurstöðurnar þannig fram að þær nýtist þeim sjálfum eða öðrum við skipulagningu námskeiða.
Vinnulag:
Námskeiðið verður kennt á formi sem er kallað "Valvíst nám". En það þýðir að þátttakendur geta valið hvort þeir mæta í skólann, taka þátt í gegnum fjarfundabúnað í rauntíma eða hlusta á upptökur og taka virkan þátt í samvinnu þátttakenda á netinu milli reglulegra funda.
Á námskeiðinu eru tvær "vinnulotur" þar sem allir þátttakendur vinna saman í heilan dag í tengslum við efni namskeiðsins. Þátttakendur eru hvattir til að mæta í húsnæði Menntavísindaseviðs við Stakkahlíð í vinnuloturnar. Þar verða teknar mikilvægar ákvarðanir um námskeiðið, þátttakendur kynnast vel og það styður við samvinnu þeirra á námskeiðinu, þá reynum við að beita aðferðum sem nýtast vel í fullorðinsfræðslu, þannig að þátttakendur upplifa ýmsar aðferðir sem þeir geta síðan nýtt við skipulagningu náms og kennslu.
Síðan hittast þeir vikulega í húsnæði skólans eða á netinu.
Á milli funda og vinnulota fer samvinnan fram á vef námskeiðsins.
Markaðssetning fræðslu (NAF005F)
Hvernig fáum við þátttakendur á námskeiðin okkar? Hvernig skipuleggjum við námskeið eða önnur námstilboð þannig að þau höfði til þeirra sem þau eru skipulögð fyrir? Hvernig náum við til "réttu" þátttakendanna? Hvernig er hægt að nota nýja miðla til að ná til þátttakenda?
Þessum spurningum og fleiri svipuðum munu þátttakendur leita svara við á námskeiðinu "Markaðssetning fræðslutilboða fyrir fullorðna"
Bæði markaðsfræðin og kennslufræðin búa yfir kenningum, og aðferðum sem geta hjálpað stjórnendum, skipuleggjendum og kennurum að skipuleggja og kynna námstilboð þannig að þau mæti þörfum væntanlegra þátttakenda, og til þess að þeir sem hefðu gagn af því að nýta sér námstilboðin viti af þeim og geti sótt þau.
Markmið námskeiðsins er að þátttakendur geti nýtt sér kenningar og aðferðir markaðsfræði og kennslufræði við skipulagningu á fræðslu fyrir fullorðna, einkum við það að velja viðfangsefni, markhópa, námsform, staðsetningu og kynningu. Á námskeiðinu verður fjallað bæði um „innri“ markaðssetningu – þ.e. innan fyrirtækis eða stofnunar sem og markaðssetningu fyrir hinn almenna markað.
Stefnt er að því að þátttakendur muni að námskeiði loknu…
- hugsa um fræðslustarf fyrir fullorðna frá sjónarhóli væntanlegra þátttakenda.
- geta nýtt sér hugmyndir markaðsfræði og kennslufræði um s.k. þátttakendamiðun og markhópamiðun við skipulagningu fræðslu.
- kunni til verka við að útbúa markaðsáætlun fyrir tiltekin námstilboð, þjónustu eða fyrir stofnun sína sem heild.
- geti rökstutt svokallað val svokallaðra söluráða fyrir tiltekið námstilboð (þætti eins og markhóp, staðsetningu, kynningu, skipulagningu námskeiðsins sjálfs, hvað þátttakendur fá út úr námskeiðinu ofl. ).
- hafi haldgóðar hugmyndir um það hvernig megi nýta vefinn og aðra miðla í markaðsstarfi fræðslustofnunar eða deildar
Viðfangsefni
Á námskeiðinu verður fjallað bæði um "innri" markaðssetningu - þ.e. innan fyrirtækis eða stofnunar- sem og "ytri" markaðssetningu - fyrir hinn almenna markað. Til þess að ná markmiðum námskeiðsins kynna þátttakendur sér helstu hugmyndir og kenningar markaðsfræðinnar - einkum í tengslum við markaðssetningu fræðslu. Þá munu þáttakendur einnig kynnast kenningar og nálgunum úr fullorðinsfræðslunni sem tengjast svipuðum viðfangsefnum ss. "þátttakendamiðun fræðslu" og "markhópastarf í fræðslu" og skoða hvernig sjónarhorn markaðsfræðinnar og kennslufræðinnar tengjast og geta nýst saman. Þá kynna þátttakendur sér ýmsar hagnýtar leiðir og aðferðir við markaðssetningu námskeiða. Þátttakendur geta unnið bæði hagnýt og fræðileg verkefni og tengt þau við þær kenningar, hugmyndir og aðferðir sem þeir tileinka sér á námskeiðinu.
Fyrir hverja er námskeiðið?
Námskeiðið hentar sérlega vel öllum þeim sem þurfa eða vilja skipuleggja námstilboð fyrir fullorðna og/eða koma þeim á framfæri við mögulega þátttakendur. Það nýtist t.d. starfsfólki sem kemur að mannauðs- og fræðslumálum fyrirtækja og stofnana, stjórnendum og verkefnastjórum í stofnunum sem bjóða upp á nám og námskeið fyrir fullorðna sem og öðru fólki sem vill koma námskeiðum sínum og öðrum námstilboðum á framfæri við væntanlega þátttakendur.
Vinnulag
Námskeiðið er skipulagt sem blandað nám. Það þýðir að þátttakendur hittast (ef aðstæður leyfa) á tveimur staðlotum í húsnæði skólans og vinna saman gegnum netið þess á milli. Nánari upplýsingar koma þegar nær dregur.
Í fjarlotum vinna nemendur saman á vefnum, einstaklingsverkefni, hópverkefni og með öllum hópnum.
Á staðlotum verða stuttir fyrirlestrar kennara og nemenda og umræður, en umfram allt er lögð mikil áhersla á samvinnu þátttakenda um úrvinnslu námsefnisins.
Námsmat
Þátttakendur sem taka námskeiðið til háskólaeininga vinna nokkur einstaklings- og hópverkefni sem verða metin til einkunnar.
Lesefni
- Aðal bók námskeiðsins er: Foundations of Marketing 6. útgáfa eða nýrri eftir John Fahy og David Jobber
- Reiknað er með að þátttakendur lesi a.m.k. tvær aðrar bækur af þessum lista
- Fræðilegar greinar, blogg og vefsíður sem tengjast efninu.
Mat og vottun á þekkingu og færni fullorðinna (NAF004F)
Mat og vottun á þekkingu og færni er miðlægur þáttur í öllu skólastarfi og nauðsynlegur hluti fræðslustarfs með fullorðnum. Slíkt mat liggur meðal annars til grundvallar ýmsum réttindum á atvinnumarkaðnum. Með aukinni sókn í símenntun hefur fullorðið fólk og atvinnurekendur í auknum mæli leitað eftir staðfestingu á nýrri á þekkingu og færni starfsmanna sinna. Þar að auki hafa, á undanförnum árum, æ fleiri gert kröfu um vottun á þekkingu og færni sem fullorðnir hafa aflað sér á „óformlegan“ hátt í gegnum starf sitt, tómstundir og reynslu. Einkum á þetta við þegar kemur að því að fullorðinn einstaklingur sest á skólabekk eftir margra ára hlé og vill að það sem hann hefur lært við störf sín verði metið til styttingar námstíma.
Á námskeiðinu Mat og vottun á þekkingu og færni fullorðinna verður tekist á við þessi málefni frá nokkrum sjónarhornum.
Inntak, viðfangsefni og vinnulag
Á námskeiðinu dýpka þátttakendur þekkingu sína á því hvernig hæfni fólks er metin. Þeir kynna sér ákveðna þætti um tengsl námsmats, námsskírteina og starfsréttinda. Þeir gera þetta með því að kynna sér stefnu stjórnvalda, viðhorf framkvæmdaaðila, algeng viðhorf, kenningar og aðferðir, ásamt því að dýpka tiltekin svið með því að finna, meta og ræða rannsóknargreinar á sviðinu. Þeir kynna sér hvað tíðkast á Íslandi (og jafnvel víðar) um mat og vottun á færni og þekkingu fullorðina.
Þá setja þátttakendur sig inn í nýlega umræðu um mat á "raunfærni" fullorðinna og grennslast fyrir um hver stefnan og staðan sé á Íslandi í þeim málum og bera saman við stefnu og framkvæmd nágrannalandanna.
Hafðu samband
Kennsluskrifstofa Menntavísindasviðs
1. hæð, Stakkahlíð – Enni
s. 525 5950 mvs@hi.is
Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga
Fylgstu með Menntavísindasviði
Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.