Skip to main content

Lýðheilsuvísindi - Viðbótardiplóma

Lýðheilsuvísindi - Viðbótardiplóma

Þverfræðilegt framhaldsnám

Lýðheilsuvísindi

Viðbótardiplóma – 30 einingar

Diplómanám í lýðheilsuvísindum er sérstaklega ætlað fagfólki innan heilbrigðis- félagsmála- eða menntakerfisins sem vill auka þekkingu sína á heilsueflingu og skilning á lýðgrunduðum rannsóknum. 

Skipulag náms

X

Lýðheilsa: Vísindi, stjórnmál, forvarnir (LÝÐ101F)

Í námskeiðinu er farið yfir skilgreiningar, sögu, markmið, gildissvið, siðfræði og aðferðir lýðheilsuvísinda svo og íslensk- og alþjóðleg lög og sáttmála sem tengjast lýðheilsu. Nokkur áhersla er lögð á lýðheilsu og heilbrigðisvísa í alþjóðlegu samhengi en einnig á íslenska heilbrigðiskerfið, stjórnun og fjármögnun þess svo og samanburð við heilbrigðiskerfi annara þjóða. Ennfremur er farið yfir söfnun heilbrigðisupplýsinga á Íslandi sem á alþjóðavísu og nýtingu þeirra til rannsókna og stefnumótunar í heilbrigðismálum. Einnig er lögð áhersla á þau svið lýðheilsu sem eru á döfinni hverju sinni.

X

Áhrifavaldar heilbrigðis, forvarnir og heilsuefling (LÝÐ104F)

Stærstu áhættuþættir ótímabærra dauðsfalla svo sem hár blóðþrýstingur, tóbaksnotkun, yfirþyngd og hreyfingarleysi valda um 22 milljónum dauðsfalla árlega á heimsvísu. Bæta mætti allt að 5 árum við meðalaldur jarðarbúa með því að draga hóflega úr algengi átta algengstu áhættuþáttanna. Markmið námskeiðsins er að undirbúa nemendur fyrir þetta viðfangsefni og skiptast áherslur í nokkra meginþætti:

1. Áhrifavaldar heilbrigðis: Hvaða þættir hafa mest áhrif á heilsu og heilbrigði?

2. Aðferðafræði:

a) Hvernig skipuleggjum við forvarnar- og heilsueflingarverkefni?

b) Hvar er hagkvæmast að byrja? Hagfræðileg greining á inngripum.

c) Hvernig höfum við jákvæð áhrif á atferli einstaklinga? Líkön í atferlisfræði, áhugahvetjandi samtöl, atferlishagfræði, samskiptafræði og félagsleg markaðsfærsla.

d) Hvernig höfum við áhrif á ,,kerfið”? Hagsmunagæsla (lobbyismi), bréfaskrif til þingmanna, umfjöllun í fjölmiðlum.

3. Nánari umfjöllun um helstu viðfangsefni: háþrýsingur, sykursýki, hjarta- og æðasjúkdomar, næring og mataræði, ofþyngd og offita, hreyfing, tóbaksvarnir, krabbamein, áfengi og vímuefni, slysavarnir, umhverfi og atvinna, geðrækt og sjálfsvígsforvarnir, kynheilbrigði og sjálfsmynd, sértækar lausnir fyrir börn og unglinga.

Framsetning: Fyrirlestrar umsjónarkennara og valinna gestafyrirlesara sem eru meðal fremstu sérfræðinga þjóðarinnar á sínu sviði. Lagt verður upp úr umræðum, virkni og þátttöku nemenda í tímum. Einnig vinna nemendur hópverkefni þar sem þeir kynna sér til hlítar valinn áhættuþátt og gefa tillögur að úrbótum.

X

Faraldsfræði - megindleg aðferðafræði (LÝÐ107F)

Námskeiðið er inngangur að faraldsfræðilegum rannsóknaraðferðum og nálgun orsaka. Námskeiðið gefur yfirlit yfir mælingar á tíðni sjúkdóma, áhættu og afstæðri áhættu, gerðir faraldsfræðilegra rannsókna (tilraunir og íhlutandi rannsóknir, hóprannsóknir, tilfella-viðmiðsrannsóknir). Áhersla er lögð á kerfisbundna skekkjuvalda og á aðferðir til að sneiða hjá þeim á undirbúningsstigi rannsókna svo og í úrvinnslu gagna. Nemendur fá þjálfun í því að ritrýna faraldsfræðilegar rannsóknarniðurstöður.

X

Svefn, heilsa og endurheimt (ÍÞH049F)

Í námskeiðinu verður fjallað almennt um svefn en einnig verður fjallað um svefn í tengslum við íþróttir, heilsu og almenna vellíðan. Fjallað verður um svefn uppbyggingu, svefn hinna ýmsu aldurshópa og svefn í tengslum við heilsu, íþrótta- og afrekshópa, kvíða og algengar svefnraskanir. Námskeiðið verður byggt á útgefnu efni um lífeðlisfræði svefns og rannsóknum á svefni tengdum lýðheilsu og íþróttum.

X

Faraldsfræði næringar (NÆR701F)

Markmið námskeiðsins er að auka skilning nemenda á helstu rannsóknaraðferðum í faraldsfræði næringar og að efla skilning nemenda á notkun erfðafræði innan þessa sviðs.

Námskeiðið mun í byrjun fjalla um grunnatriði faraldsfræðinnar og svo verður farið ítarlega í rannsóknaraðferðir innan faraldsfræði næringar. Þar á eftir verða kynnt sérstök viðfangsefni innan þessa sviðs. Í lokin verður fjallað um notkun erfðafræði í faraldsfræði næringar (nutrigenomics).

X

R forritun (MAS102M)

Í námskeiðinu munu nemendur framkvæma hefðbundnar tölfræðiaðferðir á raunverulegum gagnasöfnum. Áhersla verður lögð á fjölbreytu aðhvarfsgreiningu (e. multiple linear regression). Nemendur beita fáguðum aðferðum við myndræna framsetningu sem og sjálfvirka skýrslugerð. Námsmat verður í formi raunhæfra verkefna þar sem nemendur framkvæma ofangreind atriði á raunverulegum gagnasöfnum með það fyrir augum að svara rannsóknarspurningum.

X

Kenningar og sjónarhorn í fötlunarfræði (FFR102F)

Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist þekkingu á þróun hugmynda og kenninga um fötlun og fái innsýn í fræðilega umfjöllun og rannsóknir á því sviði. Lögð er áhersla á þróun fötlunarfræða sem þverfræðilegrar og gagnrýnnar fræðigreinar með náin tengsl við réttindabaráttu fatlaðs fólks. Fjallað verður um margbreytileg félagsleg og menningarleg sjónarhorn og kenningar fræðigreinarinnar. Sérstök áhersla verður á þá hugmyndafræði sem legið hefur til grundvallar stefnumótunar og þjónustu við fatlað fólk undanfarna áratugi, þ.e.; 1) hugmyndafræði um “eðlilegt líf” normaliseringu, 2) hugmyndafræði um “sjálfstætt líf” independent living og 3) mannréttindasjónarmið. Jafnframt verður fjallað um tengsl hugmyndafræðinnar við daglegt líf fatlaðs fólks. 

X

Rekstur og heilbrigðisþjónusta (HJÚ142F)

Markmið námskeiðsins er að veita nemendum innsýn í fræðilega nálgun ýmissa hagrænna þátta sem hafa áhrif á starfsumhverfi í heilbrigðisþjónustu. Þessir þættir eru óumflýjanlegir í öllum rekstri stórum og smáum, hvort sem er opinber rekstur eða einkarekstur.  Í námskeiðinu er farið yfir með hvaða hætti þættirnir birtast og hvernig hægt er að hafa áhrif á þá rekstrinum til góða.  Meðal hugtaka sem farið verður yfir:

  • Framboð, eftirspurn, framleiðsluþættir, teygni
  • Breytilegur-, fastur-, beinn- og óbeinn kostnaður.
  • Áhrif skattheimtu og utanaðkomandi áhrif. Einkagæði og sameiginleg gæði.
  • Viðskipti og hlutfallslegir yfirburðir. Hringrás efnahagslífsins.
  • Framfærslukostnaður, vísitölur og þjóðhagsreikningar.
  • Fjárhagsbókhald, rekstrar- og efnahagsreikningur.
  • Rekstrarbókhald, mismunandi rekstrargreiningar.
X

Almenn kynjafræði (KYN101F)

Í námskeiðinu er fjallað um helstu viðfangsefni kynjafræða í ljósi margbreytileika nútímasamfélaga. Kynjafræðilegu sjónarhorni er beitt til að gefa yfirlit yfir stöðu og aðstæður ólíkra hópa í samfélaginu. Fjallað er um upphaf og þróun kvennabaráttu og kynjafræða. Kynnt verða helstu hugtök kynjafræða svo sem kyn, kyngervi, eðlishyggja og mótunarhyggja. Skoðað er hvernig kyn er ávallt samtvinnað öðrum samfélagslegum áhrifabreytum.

Kennslufyrirkomulag: Námið byggir á vendikennslu sem þýðir að allir fyrirlestrar verða aðgengilegir á Canvas. Stað- og fjarnemar mæta vikulega í umræðutíma í háskólanum eða á Teams og netnemar taka vikulega þátt í umræðum á Canvas.

X

Líftölfræði I (LÝÐ105F)

Inngangur að hagnýtri líftölfræði í lífvísindum. Yfirlit er gefið yfir tegundir breyta; flokkabreytur, strjálar og samfelldar talnabreytur. Lýsandi tölfræði; lýsistærðir og myndræn framsetning gagna. Fræðilegar líkindadreifingar; tvíkostadreifing, Poisson dreifing og normaldreifing. Skilgreiningar á slembiúrtaki og þýði. Dreifingar lýsistærða. Notkun á öryggisbilum og tilgátuprófum. Samanburður á meðalgildi hópa (samfelldar mælingar). Tölfræðipróf fyrir tíðnitöflur (flokkabreytur). Einföld og lógistísk aðhvarfsgreining og ROC greining. Lifunargreining með aðferð Kaplan Meier og Cox. Í fyrirlestrum og dæmatímunum verður notast við tölfræðiforritið R og RStudio umhverfið.

X

Líftölfræði II (Klínísk spálíkön) (LÝÐ301F)

Námskeiðið er beint framhald af Líftölfræði I og veitir nemendum praktíska handleiðslu í tölfræðiúrvinnslu í eigin rannsóknarverkefnum. Útreikningar á hlutfallslegri áhættu og leiðréttri hlutfallslegri áhættu. Fylgni og einföld aðhvarfsgreining, margvíð línuleg aðhvarfsgreining og lógistísk aðhvarfsgreining. Námskeiðið byggist á fyrirlestrum og dæmatímum. Í dæmatímunum verður notast við tölfræðiforritið R.

X

Hnattræn heilsa (MAN0A3F)

Í námskeiðinu verður farið yfir helstu forgangsverkefni á fræðasviði hnattrænnar heilsu (e. global health). Fjallað verður um mismunandi sjúkdómsbyrði landa, ójöfnuð og helstu félags- og efnahagslegu áhrifaþætti á líf og heilsu fólks í hnattvæddum heimi. Sérstök áhersla verður á að skoða heilsu mæðra, nýbura, barna og ungs fólks frá hnattrænu sjónarhorni og uppbyggingu heilbrigðiskerfa til að veita góða og tímanlega þjónustu. Jafnframt verður fjallað um áskoranir í næringu þjóða og geðheilbrigði og forvarnir og samfélagslega þýðingu sýkinga eins og malaríu, berkla, HIV/AIDS, kóleru, Ebólu og COVID-19. Þá verður fjallað um áhrif umhverfis, ofbeldis, menningar, neyðarástands og starf alþjóðlegra stofnana og þróunarsamvinnu, Heimsmarkmiðin og siðfræðileg álitamál.

Vinsamlega athugið að ef þörf krefur vegna þátttöku erlendra nemenda þá verður námskeiðið kennt á ensku.

X

R fyrir byrjendur (MAS103M)

Námskeiðið fjallar um tölfræðiúrvinnslu í forritinu R. Gert er ráð fyrir að nemendur hafi grunnþekkingu í tölfræði og munu nemendur læra að beita þeim tölfræðiaðferðum sem þeir þekkja í R. Farið verður í innlestur gagna, myndræna framsetningu, lýsandi tölfræði og hvernig algengustu tilgátupróf (t-próf, kí-kvaðratpróf o.s.frv) eru framkvæmd í R. Að auki verður nemendum kennt að nota knitr pakkann til að vinna skýrslur.

Námskeiðið er kennt á fimm vikum í þrjár kennslustundir á viku. Kennari heldur fyrirlestra og nemendur vinna verkefni.

X

Inngangur að umhverfis- og auðlindafræði (UAU102F)

Hin öra fjölgun mannkynsins og umsvifin sem henni fylgja hafa á undanförnum áratugum haft gríðarleg og sívaxandi áhrif á náttúruauðlindir og umhverfi. Til þess að skilja þessi áhrif og og geta valið réttu leiðirnar til að takast á við þau, þarf að beita þverfræðilegum aðferðum, þar sem gripið er jöfnum höndum til náttúrufræði, félagsfræði, hagfræði,verkfræði og fleiri greina. Áður en nemendur læra um þverfræðilegar aðferðir til að nálgast aðsteðjandi vanda, þurfa þeir að átta sig á því í hverju vandinn er fólginn en það er einmitt markmið þessa námskeiðs. Fjallað verður um umhverfi og auðlindir almennt með áherslu á gildi þeirra fyrir mannkynið og helstu orsakir umhverfisvandamála og þýðingu þeirra bæði í íslensku og alþjóðlegu samhengi. Einkum verður farið yfir eftirtalda efnisflokka: Fólksfjölgun, tækni og hagvöxt. Líffræðilega fjölbreytni og útrýmingu tegunda. Jarðveg og jarðvegseyðingu. Landbúnað og umhverfisáhrif. Mengun og heilsu . Loftmengun, vatnsmengun og jarðvegsmengun. Helstu mengunarvalda í andrúmslofti og áhrif þeirra. Eyðingu ósonlagsins og loftslagsbreytingar. Sorp og spilliefni. Ferskvatnsauðlindir. Auðlindir sjávar. Auðlindir skóga og votlendis. Orkuauðlindir. Orkunýtingu og umhverfisáhrif.

X

Áföll og heilsufarslegar afleiðingar þeirra (LÝÐ0A0F)

Námskeiðið fjallar um áföll í æsku og á fullorðinsárum, þ.m.t. ofbeldi, slys og hamfarir, og lífshættuleg veikindi, og tengsl þeirra við sálræna og líkamlega heilsu. Sérstök áhersla verður lögð á að kynna vísindagrunn þessara fræða og veita þjálfun í að lesa úr rannsóknum á þessu sviði. Helstu efnisatriði námskeiðsins eru m.a.:

  • Algengi áfalla og streituviðbrögð í kjölfar þeirra.
  • Sálrænn vandi í kjölfar áfalla, m.a. áfallastreituröskun, kvíði, þunglyndi, svefnvandi, fíknisjúkdómar og langvarandi sorg.
  • Sjúkdómsbyrði áfalla m.a. vegna hjarta- og æðasjúkdóma, krabbameina, sjálfsónæmissjúkdóma og sjálfsvíga.
  • Áhrif umhverfis- og erfðafræðilega þátta í þróun sálrænna og líkamlegra sjúkdóma í kjölfar áfalla.
  • Þættir sem stuðla að bata í kjölfar áfalla og draga úr áhættu á langvarandi heilsufarsvanda.
  • Gagnreynd meðferðarúrræði við áfallastreituröskun.

Námskeiðið er ætlað nemendum sem vilja auka vísindalega þekkingu sína á tengslum áfalla og heilsu og er einungis ætlað nemendum í framhaldsnámi. Námskeiðið byggir á fyrirlestrum umsjónarkennara og valinna gestafyrirlesara sem eru sérfræðingar á sviði áfalla. Lagt verður upp úr umræðum og virkri þátttöku nemenda í tímum. 

X

Faraldsfræði hreyfingar (ÍÞH211F)

Markmið: Að nemendur

– dýpki þekkingu sína á samspili lífshátta sem tengjast hreyfingu og heilbrigði og skoði rannsóknir á því sviði

– öðlist aukna þekkingu á ýmsum lífsstílstengdum sjúkdómum og á áhrifum hreyfingar og þjálfunar á þá, bæði gegnum fyrirbyggjandi aðgerðir (fyrsta stigs forvarnir) og sem meðferðarúrræði (annars stigs forvarnir).

Námskeiðinu er ætlað að kynna faraldsfræðilegar rannsóknaraðferðir á sviði tengsla hreyfingar og heilsufars og auka skilning og færni nemenda í að lesa vísindagreinar með gagnrýnum hætti. Farið verður í saumana á því hvernig hreyfing hefur áhrif á heilbrigði og minnkar áhættu á ýmsum lífsstílstengdum sjúkdómum. Rannsóknir og athuganir á samspili hreyfitengdra lífshátta og ólíkra heilsufarsþátta verða reifaðar. Námskeiðið verður kennt í fyrirlestraformi.

X

Heilsuefling (ÍÞH209F)

Fjallað verður um fyrirkomulag og mikilvægi heilsueflingar í skólum, á vinnustað, í hvers kyns þjálfun, endurhæfingu, íþróttum og tómstundastarfi. Mismunandi kenningar um heilsueflingu verða kynntar, sem og framkvæmd, mat og heildstætt ferli heilsueflingar. Allt frá því hvernig heilsueflandi verkefni eru skipulögð og hvernig þau eru innleidd, framkvæmd og metin. Sérstök áhersla verður lögð á fræðilegan þátt heilsueflingarferlisins til að undirbúa nemendur fyrir faglegt starf tengt heilsueflingu á vettvangi.

X

Heilsufar eldri aldurshópa (ÍÞH051F)

Farið er yfir líffræðilegar og lífeðlisfræðilegar breytingar sem eiga sér stað við öldrum og áhrif þeirra á þrekþætti, hjarta- og æðakerfi og lungu. Skoðuð verða breytingar á helstu kerfum líkamans, s.s. líkamsamsetningu, beinum, vöðvum, hjarta og lungum og hvernig þessar breytingar valda breytingum á styrk, þoli og loftfirrtri getu. Fjallað verður um hreyfingu aldraðara og mikilvægi hreyfingar fyrir líkamsástand og heilsufar. Sérstök áhersla verður lögð á að gera grein fyrir tengslum hreyfingar við þrek, holdafar og ýmsa aðra lífstílsþætti hjá öldruðum. Nemendur fá þjálfun í að greina og meta hreyfifærni og þrek hinna eldri, vinna úr niðurstöðum og hanna einstaklingsmiðaðar þjálfunaráætlanir. Í gegnum verklegar æfingar og fræðilega kennslu er stefnt að því  að nemandi öðlist góðan skilning á ýmsum sérhæfðum þáttum í þjálfun eldri aldurshópa og geti nýtt sér þekkingu við þjálfun aldraðra.

Vinnulag

Kennslustundir skiptast nokkuð jafnt milli verklegra og fræðilegra kennslustunda auk mælinga og verkefnavinnu. Nemendur þjálfast í lestri rannsóknargreina og taka þátt í umræðum um öldrun og hreyfingu. Skipulagðar verða vettvangsheimsóknir og nemendur þjálfast í ýmsum mælingum fyrir hina eldri, eins og mælingar á blóðþrýsting, liðleika, hreyfifærni, styrk og þoli.

Markmið

Markmið námskeiðs er að nemandi

  • Geti gert grein fyrir og skilgreint öldrun
  • Efli þekkingu sína á ýmsum breytingum sem eiga sér stað við öldrun
  • Fræðist og taki þátt í að kynna atriði sem snúa að einstaklingsbundum muni eldri aldurshópa
  • Auki þekkingu sína á mikilvægi markvissar hreyfingar fyrir eldri aldurshópa
  • Geri sér grein fyrir tengslum hreyfingar við almenna heilsu, lýðheilsu og lífsgæði þeirra eldri
  • Auki þekkingu sína á líkamlegri uppbyggingu aldraða, s.s starfsemi hjarta- og æðakerfis, vöðvastyrk, jafnvægi, líkamsstöðu og almennri hreyfingu
  • Fái þjálfun og reynslu í verklegri útfærslu æfinga sem stuðla að bættri lýðheilsu hinna eldri
  • Fái þjálfun í að mæta einföldum mælingum og greiningu á stöðu einstaklinga og hópa
X

Siðfræði vísinda og rannsókna (HSP806F)

Námskeiðið er eingöngu ætlað framhaldsnemum. Tekið verður mið af þörfum nemenda af ólíkum fræðasviðum við útfærslu námskeiðsins. 

Kennsla fer fram frá 12. janúar til 16. febrúar á föstudögum kl. 13:20 til 15:40.

Viðfangsefni:
Meðal annars verður fjallað um eftirfarandi efni: Fagmennska og ábyrgð vísindamanna. Kröfur um fræðilega hlutlægni og hlutleysi vísinda. Jafnréttissjónarmið og ríkjandi viðmið í vísindastarfi. Vald og vísindi. Hagsmunaárekstrar í vísindastarfi. Vísindin og samfélagið. Siðfræði rannsókna.

Markmið: 
Nemendur öðlist þekkingu á siðferðislegri vídd vísinda og rannsókna og fái þjálfun í að greina og rökræða um siðferðileg ágreiningsefni tengd vísindum og rannsóknum í nútímasamfélagi.

Kennsla er í formi fyrirlestra og umræðna. Námskeiðið er hugsað sem akademískt samfélag þar sem nemendur taka virkan þátt í markvissri umræðu um viðfangsefnin. Hver nemandi flytur framsöguerindi samkvæmt áætlun sem gerð er í upphafi misseris og jafnframt kynna aðrir nemendur sér efnið og ræða það í málstofunni undir handleiðslu kennara.

X

Heilbrigðis- og lífssiðfræði (HSP823M)

Fjallað verður um nokkur helstu álitamál á sviði lífsiðfræði á síðustu árum, einkum í tengslum við þróun á sviði erfðavísinda og erfðarannsókna og hugsanleg áhrif þeirra á heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstefnu.

Námskeiðið verður kennt samþjappað frá 2.–25. mars. Fyrirlestrar eru á þriðjudögum og fimmtudögum 15–17:20. 

Í lok námskeiðsins verður haldin málstofa með framsögum nemenda og verður tilhögun hennar ákveðin í samráði við nemendur. 

X

Heilsuhegðun og fæðuval – áhrifaþættir og mótun (ÍÞH036M)

Viðfangsefni námskeiðsins er heilsuhegðun í víðum skilningi. Fjallað verður um heilsuhegðun mismunandi aldurshópa og samband líffræðilegra þátta, heilsuhegðunar og félagslegra aðstæðna. Farið verður yfir hvernig hegðun einstaklinga, bjargráð og streita hafa áhrif á heilsufar. Hegðun í tengslum við fæðuval og neysluvenjur er sérstaklega skoðuð. Þá verður horft til þess hvernig má móta heilsusamlegar lífsvenjur frá æsku, svo sem hafa áhrif á fæðuval og vinna á matvendni. Samfélagsáhrif og þáttur fjölmiðla eru einnig könnuð. Námsefnið byggir á fræðbókum og vísindagreinum frá mismunandi áttum og ólíkum sviðum sem spanna viðfangsefnið og nálgast það á ólíkan hátt.
Námskeiðið er ætlað nemendum á efri stigum grunnnáms og á meistarastigi og er opið öllum.

X

Faraldsfræði hreyfingar (ÍÞH211F)

Markmið: Að nemendur

– dýpki þekkingu sína á samspili lífshátta sem tengjast hreyfingu og heilbrigði og skoði rannsóknir á því sviði

– öðlist aukna þekkingu á ýmsum lífsstílstengdum sjúkdómum og á áhrifum hreyfingar og þjálfunar á þá, bæði gegnum fyrirbyggjandi aðgerðir (fyrsta stigs forvarnir) og sem meðferðarúrræði (annars stigs forvarnir).

Námskeiðinu er ætlað að kynna faraldsfræðilegar rannsóknaraðferðir á sviði tengsla hreyfingar og heilsufars og auka skilning og færni nemenda í að lesa vísindagreinar með gagnrýnum hætti. Farið verður í saumana á því hvernig hreyfing hefur áhrif á heilbrigði og minnkar áhættu á ýmsum lífsstílstengdum sjúkdómum. Rannsóknir og athuganir á samspili hreyfitengdra lífshátta og ólíkra heilsufarsþátta verða reifaðar. Námskeiðið verður kennt í fyrirlestraformi.

X

Heilsuefling (ÍÞH209F)

Fjallað verður um fyrirkomulag og mikilvægi heilsueflingar í skólum, á vinnustað, í hvers kyns þjálfun, endurhæfingu, íþróttum og tómstundastarfi. Mismunandi kenningar um heilsueflingu verða kynntar, sem og framkvæmd, mat og heildstætt ferli heilsueflingar. Allt frá því hvernig heilsueflandi verkefni eru skipulögð og hvernig þau eru innleidd, framkvæmd og metin. Sérstök áhersla verður lögð á fræðilegan þátt heilsueflingarferlisins til að undirbúa nemendur fyrir faglegt starf tengt heilsueflingu á vettvangi.

X

Alþjóðaheilsa (LÝÐ045F)

Námskeiðið fjallar um lýðheilsu í hnattrænu samhengi, sögu og áherslur. Fjallað verður um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og stefnu Íslands í innleiðingu þeirra. Einnig munu sérfræðingar á hverju sviði, íslenskir og erlendir, fjalla um viðfangsefni innan alþjóðaheilsunnar, svo sem heilbrigðisvísa; sjúkdómsbyrði og áhrifaþætti heilsu í löndum heimsins sem búa við fátækt og ójöfnuð og þær leiðir sem gætu stuðlað að bættri heilbrigðisþjónustu og auknu heilbrigði; áhrif öryggis og átaka á heilsu; og heilsuáhrif hamfara.

Stefnt verður á að nemendum verði boðið í vettvangsheimsókni til stofnana sem koma að stefnu Íslands í alþjóðastarfi og móttöku flóttamanna.

X

Líftölfræði III (Lifunargreining) (LÝÐ079F)

Námskeiðið fjallar um tölfræðigreiningu á nýgengi (incidence) og eftirfylgnitíma (survival time) í ferilrannsóknum. Kennd verður notkun Poisson aðhvarfsgreiningarlíkana og aðferða í lifunargreiningu (survival analysis) eins og Kaplan-Meier aðferðarinnar (log-rank), Cox aðhvarfsgreiningar, Poisson aðhvarfsgreiningar og líkana með óstikuðum hættuföllum. Notast verður við tölfræðiforritin R. 

X

Aðferðir í faraldsfræði (Faraldsfræði II) (LÝÐ085F)

Markmið námskeiðsins er að auka skilning nemenda á ítarefnum í faraldsfræði og að efla hæfi nemenda í að meta gæði og túlka niðurstöður faraldsfræðilegra rannsókna.

Námskeiðið mun fjalla ítarlega um framhaldsaðferðir í faraldsfræði. Fjallað verður um áhrif jákvæðrar og neikvæðrar blöndunar (positive and negative confounding), pörun (matching), líkindaskor (propensity score), áhrifsbreytingu (effect modification and interaction), nýlegar aðferðir til að takast á við blöndun (instrumental variables), orsakamyndir (causal diagrams), og hvað á að gera þegar gögn vantar í rannsóknina (missing data). Teknar verða fyrir vísindagreinar sem tengjast faraldsfræðilegum álitamálum í rannsóknum og þær ræddar ítarlega.

X

Lýðheilsunæringarfræði (NÆR611M)

Námskeiðslýsing:

Í námskeiðinu eru kynnt helstu viðfangsefni og áskoranir lýðheilsunæringarfræðinnar en einnig aðferðir og nálganir á sviði heilsueflingar. Áhersla verður lögð á heilsueflingarverkefni á sviði næringar á vesturlöndum en einnig í þróunarlöndum. Næring er sett í samhengi við aðra heilsutengda hegðun, aðstæður fólks og lífshætti. Kynntar verða helstu kenningar um heilsutengt atferli hvaða þættir stýra neysluhegðun og hvað getur skipt máli ef unnið er að breytingum á heilsutengdri hegðun. Kynnt verða helstu næringartengdu forvarna- og heilsueflingarverkefni á Íslandi auk erlendra verkefna. Nemendur öðlast færni í að skipuleggja lýðheilsuverkefni á sviði næringar og hvernig má nota rannsóknaniðurstöður til forvarna og aðgerða sem miða að bættri heilsu. Fjallað verður um öll helstu skref í mótun og undibúningi verkefnis, framkvæmd þess og mati á árangri.

Meðal spurninga sem leitað er svara við á námskeiðinu má nefna:

Ráðum við því raunverulega hvað við leggum okkur til munns – eða höfum við takmarkað val?

Ákvarðast lýðheilsa einungis af pólitík?

Er næringarlæsi mikilvægt hugtak?

Er mataræði þitt að eyðileggja heilsu móður jarðar?

Færð þú eitthvað að borða ef það er stríð í útlöndum?

Hver er ábyrgð þín á börnum sem svelta í heiminum?

Hvað stjórnar heiminum í raun og veru?

Viltu eiga þátt í að breyta heiminum?

Skapaðu heilsueflingarverkefni að eigin vali.

X

Áhættuhegðun og seigla ungmenna (UME206F)

Í námskeiðinu er lögð áhersla á umfjöllun um áhættuhegðun ungmenna (t.d. vímuefnaneyslu, frávikshegðun, brokkgenga skólagöngu) og seiglu þeirra í tengslum við ýmsa uppeldislega, félagslega og sálfræðilega þætti. Viðfangsefni eru m.a. samskiptahæfni, geðraskanir, kynheilbrigði og áföll. Fjallað er ítarlega um ýmis konar verndandi þætti og áhættuþætti og þátt heimila, skóla og tómstundastarfs í að stuðla að velferð ungmenna. Kynntar eru bæði innlendar og erlendar rannsóknir á fræðasviðinu. Sérstök áhersla er á rannsóknir sem skoða tengsl ýmissa þroskaþátta og áhættuhegðunar. Verkefni í námskeiðinu miða að því að leita eftir sýn ungs fólks á áhættuþætti í lífi sínu.

Athugið: Hægt er að taka námskeiðið í fjarnámi. Kennsluinnlegg eru almennt tekin upp og sett inn á námsumsjónarkerfið CANVAS fyrirfram en ef kennsla fer fram í rauntíma þá er hún tekin upp. Vikulega eru umræðutímar (60 mín.) þar sem nemendur geta valið milli þess að koma á staðinn eða vera með á netinu. Hið sama á við þegar ritgerðir eru kynntar einu sinni á önninni þá geta nemendur verið á staðnum eða með á netinu.

X

Áhrifaþættir öldrunar: Umhverfi, félagstengsl og heilsufar (ÖLD201F)

Markmið námskeiðsins er að dýpka þekkingu þátttakenda í öldrunarfræðum (gerontology) og öldrunarlækningum (geriatri). Fjallað verður um það hvernig umhverfi, félagsleg tengsl og heilsufar hafa áhrif á vellíðan aldraðra. Rætt verður um þjónustu við aldraða almennt og einnig hópa aldraðra með sérþarfir. Mismunandi kenningar öldrunarfræða verða til umræðu og hvernig þær hafa áhrif á viðhorf og þjónustu við aldraðra. Rannsóknir innlendar og erlendar á sviðinu verða kynntar svo og rannsóknaraðferðir öldrunarfræðinnar. Fjallað verður um teymisvinnu í öldrunarþjónustu og áhersla lögð á að kynna starfsaðferðir mismunandi starfsstétta sem vinna að málefnum aldraðra.

Námskeiðið er kennt í staðlotum og fyrirlestrum. Mætingaskylda er í staðlotur. 

Gestafyrirlesarar á sérsviðum öldrunarfræða og öldrunarlækninga.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Hjördís Lilja Lorange
Heiðrún Hlöðversdóttir
Friðgeir Andri Sverrisson
Hjördís Lilja Lorange
Framhaldsnám í lýðheilsuvísindum

Framhaldsnám í lýðheilsuvísindum hefur verið mjög skemmtileg reynsla þar sem ég hef þurft að takast á við margar áskoranir. Í náminu hef ég tamið mér að beita gagnrýnni hugsun og byggt upp hæfni til að takast kerfisbundið á við vísindaleg viðfangsefni.

Námskeiðin eru vel skipulögð þar sem tækifæri gefst á að kynnast helstu viðfangsefnum lýðheilsuvísinda og kynna sér helstu ógnir sem stafa að lýðheilsu í dag. Einn af helstu kostunum við námið eru frábærir kennarar sem hafa yfirgripsmikla þekkingu sem þeir miðla með skemmtilegum og fróðlegum hætti á breiðu sviði fræðigreina.

Sú þekking og reynsla sem ég öðlaðist í meistaranáminu fór langt fram úr vonum mínum og hef ég náð að auka þekkingu á mínu áhugasviði. 

Heiðrún Hlöðversdóttir
Framhaldsnám í lýðheilsuvísindum

Sú þverfaglega nálgun sem meistaranám í lýðheilsuvísindum byggir á, þótti mér afar spennandi valkostur. Bakgrunnur minn í sálfræði kom sér vel þar sem námið byggir mikið á tölfræði og aðferðafræði rannsókna.

Námið hefur veitt mér góða innsýn inn í störf annarra fagstétta á heilbrigðissviði, bæði í gegnum kennara og samnemendur með ólíkan bakgrunn og menntun.

Helstu kostir námsins að mínu mati eru að nemendur geta valið úr fjölda valnámskeiða og þannig mótað námið eftir eigin áhugasviði.

Friðgeir Andri Sverrisson
Framhaldsnám í lýðheilsuvísindum

Ég skráði mig í meistaranám í lýðheilsuvísindum að hluta til vegna viðfangsefnisins og að hluta vegna þess sveigjanleika sem felst í þverfræðilegu skipulagi þess.

Námið stendur traustum fótum á góðum grunni þar sem koma saman einstaklingar með breiðan bakgrunn sem ýtir undir möguleika á samstarfi og tækifærum víðsvegar í samfélaginu. Eftir að námi lauk og ég sótti út á vinnumarkaðinn reyndist þessi reynsla dýrmæt í leit að starfi við hæfi.

Það að geta mótað námið að eigin áherslum tryggði mér hámarksánægju og aukna getu til að einbeita mér að því sem ég vildi sérhæfa mig í og nýta mér það sem námið hefur upp á að bjóða, eins og að læra og starfa erlendis tengt náminu.

Hafðu samband

Miðstöð í lýðheilsuvísindum

Sturlugata 8, 102 Reykjavík
Sími 525 4956
Netfang: publichealth@hi.is 

Opið mánu- til fimmtudaga 10-16 og föstudaga 10-12.

Fylgstu með okkur
 Facebook Logo Twitter PNG, Logo Twitter Transparent Background - FreeIconsPNGTwitter

""

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.