Sérsvið hjúkrunar - Örnám


Sérsvið hjúkrunar
Örnám – 30 einingar
Boðið er upp á stutt nám á meistarastigi í hjúkrun til þess að gefa hjúkrunarfræðingum kost á að auka þekkingu sína og færni á ákveðnu sviði.
Kjörsvið námsins eru skipulögð í takt við samfélagslegar þarfir og eftirspurn hjúkrunarfræðinga hverju sinni.
Skipulag náms
- Haust
- Fræðileg aðferð
- Heilsufarsmat móður-og barns
- Grunnur að farsælli brjóstagjöf
- Vor
- Stuðningur og ráðgjöf við brjóstagjöf
Fræðileg aðferð (HJÚ140F)
Markmið námskeiðsins er að nemendur nái tökum á fræðilegum vinnubrögðum á þann hátt að þeir geti hagnýtt fyrirliggjandi fræðilega þekkingu í hjúkrun. Athyglin beinist að aðferðum við öflun heimilda í gagnasöfnum og mati á þeim. Fjallað er um gagnreynda starfshætti, s.s. notkun klínískra leiðbeininga og verklagsreglna. Áhersla er lögð á að þjálfa aðferðir við leitir og mat á fræðilegu efni ásamt textavinnslu.
Námskeiðið er haldið í upphafi kennslumisseris.
Heilsufarsmat móður-og barns (HJÚ166F)
Farið verður í heilsufarsmat móður og barns, einkum þætti sem áhrif geta haft á framgang brjóstagjafar. Lögð verður áhersla á að undirbúa nemendur fyrir heildrænt mat á líðan og heilsu móður og barns svo sem út frá líkamlegri og lífeðlisfræðilegri og sálfélagslegri aðlögun. Varðandi heilsufarsmat barns verður einnig lögð áhersla á að nemendur öðlist þekkingu og færni í að lesa í hegðun og tákn barns og áhrif þroska og heilsu barns á brjóstagjöf og næringu. Sérstök áhersla verður lögð á þroskamat barna.
Grunnur að farsælli brjóstagjöf (HJÚ165F)
Farið verður í grunnþekkingu varðandi brjóstagjöf svo sem líffærafræði brjósta, lífeðlisfræði brjóstagjafar s.s. mjólkurmyndunarferlið og mjólkurlosun. Lögð verður áhersla á þekkingu og kennslu um hvetjandi og hindrandi þætti á mjólkurmyndunarferlið og almennt á gang brjóstagjafar. Einnig verður áhersla lögð á samsetningu brjóstamjólkur í samanburði við til dæmis þurrmjólk og heilsufarslegan ávinning brjóstagjafar fyrir móður, barn og samfélagið
Stuðningur og ráðgjöf við brjóstagjöf (HJÚ275F)
Hér verður lögð sérstök áhersla á greiningu áhættuþátta, mat og meðferð á helstu áskorunum og vandamál sem upp geta komið í tengslum við næringu barns einkum tengdum brjóstagjöf. Samhliða fræðilegri áherslu verður í samstarfi við brjóstagjafaráðgjafa og klínískan vettvang lagt upp úr klínískri þjálfun í að veita stuðning og ráðgjöf við brjóstgjöf.
Sérhæfð fjölskylduhjúkrun (HJÚ0ADF)
Námskeiðinu er ætlað að gefa hjúkrunarfræðingum sem og öðrum fagaðilum tækifæri á að auka hæfni sína í að meta og útfæra hugmyndafræði fjölskyldumiðaðrar nálgunar. Stuðst verður við hugmyndafræði Calgary og fjölskyldukenningar sem hún byggir á. Auk þess verður áhersla lögð á að þróa klíníska færni fagaðila í að sinna einstaklingum og fjölskyldum þeirra sem fást við ýmsa sjúkdóma, raskanir og eða áföll. Í ljósi þess verður sérstök áhersla á, að vinna með aðlögun, tengsl, bjargráð, virkni, tilfinningar, hegðun, samskipti, færni, álag og viðhorf fjölskyldumeðlima.
Samskiptakenningar og hugmyndafræði Wright og Bell (2009) og Wright og Leahey (2019) um breytt tengsl fjölskyldumeðlima vegna langvinnra eða bráðra sjúkdóma og eða áfalla og hugmyndafræði um samvinnu við fjölskyldur á klínískum vettvangi er meðal þess efnis sem farið verður yfir. Megin áhersla á námskeiðinu er á gagnreynda starfshætti fjölskyldumiðaðrar þjónustu og á þróun meðferðarsamræðna við fjölskyldur. Unnið er meðal annars með áhrif viðhorfs fjölskyldumeðlima, viðhorf fagaðila og samspil þeirra á milli. Ítarleg umfjöllun verður um undirbúning og framkvæmd fjölskylduviðtala sem meðferðarform og þróun styrkleikamiðaðrar meðferðar fyrir fjölskyldur.
Námskeiðinu er ætlað að gefa nemendum tækifæri á að þróa eigin færni í að aðstoða fjölskyldur við aðlögun og/eða takast á við alvarleg veikindi, röskun og áföll og á þann hátt að virkja og styrkja fjölskyldur í eigin eflingu. Sérstök áhersla verður lögð á einstaklingsbundna þjálfun þar sem nemendur fá persónulega leiðbeiningu um framkvæmd og aðferðir meðferðarsamræðna við fjölskyldumeðlimi.
Námsmat er í formi einstaklingsverkefna og hópverkefna en þar sem um próflausan áfanga er að ræða er gerð krafa um 80% mætingu á námskeiðið.
Forysta í heilbrigðisþjónustu (HJÚ258F)
Á síðustu árum hafa orðið miklar breytingar á starfsumhverfi heilbrigðisstofnana sem gerir auknar kröfur til hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstarfsmanna um færni í leiðtogahlutverkinu, hvort heldur er í klínísku starfi, við stjórnun eða kennslu. Námskeiðinu er ætlað að búa nemendur undir forystuhlutverk í starfi.
Fjallað verður um ýmis hugtök, kenningar og hugmyndafræði forystu almennt. Enn fremur verður fjallað um hlutverk og hegðun leiðtoga og hlutverk leiðtoga í breytingaferlinu. Fjallað verður um forystuhlutverk hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstétta innan heilbrigðisstofnana og í samfélaginu, staðbundið og í alþjóðlegu samhengi, nú og til framtíðar. Lögð er áhersla á hnattræna framtíðarsýn og frumkvöðlahugsun.
Fyrirkomulag
Staðlotur og vefkennsla.
Hafa samband
Skrifstofa Hjúkrunarfræðideildar
Eirberg, 1. hæð, Eiríksgata 34
101 Reykjavík
Sími 525 4960
hjukrun@hi.is
Opið virka daga frá kl. 9-12 og 13-14

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.