Skip to main content
4. nóvember 2022

Íslendingar gefa nærri tvöfalt fleiri hjörtu en þeir þiggja 

Íslendingar gefa nærri tvöfalt fleiri hjörtu en þeir þiggja  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hjartagjöfum hér á landi hefur fjölgað umtalsvert á síðustu tveimur áratugum og Íslendingar gefa nú næstum tvöfalt fleiri hjörtu en þeir þiggja samkvæmt nýrri rannsókn vísindamanna Háskóla Íslands og Landspítala sem sagt er frá í Læknablaðinu. Rannsóknin sýnir enn fremur að lifun Íslendinga eftir hjartaígræðslu er ágæt og sambærileg við það sem best gerist í nágrannalöndunum.

Hjá sjúklingum með hjartabilun á lokastigi, þar sem önnur meðferð hefur verið fullreynd og þeir ekki taldir eiga 12 mánuði ólifaða, getur hjartaígræðsla komið til greina. Er þá notast við gjafahjarta úr einstaklingi með alvarlega höfuðáverka eða heilablæðingu þar sem hjartað starfar eðlilega. Gjafahjartað verður að græða í þegann innan fjögurra klukkustunda en með því að notast við einkaþotu geta Íslendingar gefið hjörtu fyrir ígræðslu sem nýtast annars staðar á Norðurlöndum. Markmið rannsóknarinnar, sem sagt er frá í Læknablaðinu, var að birta heildstætt yfirlit um tíðni, ábendingar og árangur af hjartaígræðslu á Íslendingum en einnig kanna þann fjölda hjarta sem gefin eru út til ígræðslu erlendis og bera saman við nágrannalöndin.

Hjartaígræðslur  eru ekki gerðar hérlendis en alls hafa 24 Íslendingar gengist undir slíka aðgerð erlendis frá því að sú fyrsta var gerð í Bretlandi 1988, flestir á Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg. Rannsókn á afdrifum þessa hóps leiðir í ljós að meðallifun eftir aðgerð var 24,2 ár og voru 91% sjúklinga á lífi einu ári frá aðgerð og 86% fimm árum síðar, sem er á pari við stærri ígræðslusjúkrahús nágrannalandanna.
 

Hjá sjúklingum með hjartabilun á lokastigi, þar sem önnur meðferð hefur verið fullreynd og þeir ekki taldir eiga 12 mánuði ólifaða, getur hjartaígræðsla komið til greina. Er þá notast við gjafahjarta úr einstaklingi með alvarlega höfuðáverka eða heilablæðingu þar sem hjartað starfar eðlilega. Gjafahjartað verður að græða í þegann innan fjögurra klukkustunda en með því að notast við einkaþotu geta Íslendingar gefið hjörtu fyrir ígræðslu sem nýtast annars staðar á Norðurlöndum.

Af 24 sjúklingum voru 19 karlar og fengu þrír hjarta- og lungnaígræði samtímis, tveir hjarta- og nýranaígræði samtímis og einn endurígræðslu. Meðalaldur sjúklinga var tæp 40 ár og  voru 20 aðgerðanna framkvæmdar í Gautaborg, þrjár í  London og tvær í Kaupmannahöfn. Algengustu ábendingar voru ofþensluhjartavöðvakvilli (n=10), meðfæddir hjartagallar (n=4) og hjartavöðvabólga eftir vírussýkingu (n=3). Nýgengi hjartaígræðslu reyndist 2,7 á milljón íbúa/ári, og jókst marktækt í 4,6 á milljón íbúa/ári eftir 2008. Á sama tímabili voru gefin 42 hjörtu frá Íslandi til ígræðslu, það fyrsta 2002, og fjölgaði þeim úr 0,8 hjörtum/ári á fyrri hluta tímabilsins í 3,0 á síðari hluta tímabilsins. Hjartagjöfum hefur því fjölgað umtalsvert á síðustu tveimur áratugum og Íslendingar gefa nú næstum tvöfalt fleiri hjörtu en þeir þiggja.

Þótt hjartaígræðslur séu ekki framkvæmdar hér á landi fer eftirmeðferðin, ef frá eru skildar fyrstu vikurnar eftir aðgerðina, að stærstum hluta til fram á ígræðsludeild Landspítala. Í dag eru framkvæmdar árlega um 6.000 hjartaígræðslur í heiminum og hafa töluverðar tækniframfarir orðið í framkvæmd þeirra frá því fyrsta hjartaígræðslan var framkvæmd í Höfðaborg árið 1967. Framfarir í ónæmisbælandi meðferð vega þó enn þyngra enda lykillinn að góðum langtímaárangri.

Fyrsti höfundur greinarinnar er Atli Steinn Valgarðsson, sérnámslæknir í skurðlækningum í Lubbock í Texas, en leiðbeinandi hans í verkefninu, sem unnið var við hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, var Tómas Guðbjartsson, hjarta-og lungnaskurðlæknir og prófessor við Læknadeild HÍ.

Hjartaaðgerð