Öflugt samstarf um samfélagsvaxtarrýmið Snjallræði
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, og skrifuðu nýverið undir samning um aukið samstarf Háskólans í Reykjavík við Höfða friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands um samfélagsvaxtarrýmið Snjallræði.
Snjallræði er ætlað að draga fram og efla nýjar lausnir sem styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og leysa aðkallandi áskoranir samtímans. Það geta verið lausnir sem snúa að heilbrigðisþjónustu, velferðartækni, bættu menntakerfi og jafnréttismálum, svo dæmi séu tekin.
„Það er mikilvægt að háskólasamfélagið taki höndum saman þegar brýnar úrlausnir við áskorunum samtímans eru annars vegar og við erum virkilega ánægð með að sjá Háskólann í Reykjavík koma inn í verkefnið af svona miklum krafti. Háskólinn í Reykjavík hefur verið samstarfsaðili að Snjallræði allt frá því hraðallinn fór fyrst fram árið 2018 en kemur nú inn með mun öflugri hætti en áður,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Snjallræði fer nú fram í fjórða sinn frá upphafi og teymin taka um þessar mundir þátt í þriðju vinnustofu MITdesignX sem af er þessu misseri, undir handleiðslu Svöfu Grönfeldt og samstarfsaðila hennar frá MITdesignX. Þetta er annað árið í röð sem KLAK sér um framkvæmd hraðalsins en KLAK býr yfir áralangri reynslu af nýsköpun og þróun viðskiptahugmynda á Íslandi.
„Við erum stolt af því að hafa verið hluti af þessu verkefni síðan 2018 og erum afskaplega ánægð með að efla enn frekar aðkomu HR. Háskólar gegna lykilhlutverki í að finna lausnir á þeim áskorunum sem við er að eiga. Fyrir HR skiptir einnig miklu að allir nemendur, líka þau sem eru ekki á tæknisviði, hafi kost á því að kynnast nýsköpun“ segir Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík.
Í ár voru valin tíu sprotafyrirtæki til þátttöku í Snjallræði sem starfa að fjölbreyttum lausnum, allt frá hringrásarlausnum í matvæla- og byggingariðnaði til lausna sem ætlað er að efla frumkvöðlafærni meðal barna og veita stelpum með ADHD greiðari leið að auknum tækifærum.
„Við komum nýverið á samstarfi við MITdesignX til næstu þriggja ára um aðkomu þeirra að Snjallræði en MITdesignX sér um fjórar tveggja daga vinnustofur yfir 16 vikna tímabil, frá því í lok ágúst og yfir í byrjun desember. Aukin þátttaka Háskólans í Reykjavík mun nýtast afar vel inn í það samstarf og við fögnum því að sjálfsögðu að samstarfið sé að eflast milli ára,“ segir Pia Hansson, forstöðumaður Höfða friðarseturs Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands.
Snjallræði fer nú fram í fjórða sinn frá upphafi og teymin taka um þessar mundir þátt í þriðju vinnustofu MITdesignX sem af er þessu misseri, undir handleiðslu Svöfu Grönfeldt og samstarfsaðila hennar frá MITdesignX. Þetta er annað árið í röð sem KLAK sér um framkvæmd hraðalsins en KLAK býr yfir áralangri reynslu af nýsköpun og þróun viðskiptahugmynda á Íslandi.
Lokadagur Snjallræðis 2022 fer fram í Grósku miðvikudaginn 7. desember og þá gefst öllum áhugasömum tækifæri á að kynna sér betur teymin sem tóku þátt í ár og þeirra mikilvægu lausnir.