Skip to main content
16. nóvember 2022

Rektor í hópi þeirra áhrifamestu fimmta árið í röð 

Rektor í hópi þeirra áhrifamestu fimmta árið í röð  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði, heldur stöðu sinni á lista yfir áhrifamestu vísindamenn heims en nýr listi hins virta greiningarfyrirtækis Clarivate Analytics var birtur í gær. Þetta er fimmta árið í röð sem rektor er á listanum en hann er jafnframt eini vísindamaðurinn á Íslandi sem kemst á listann að þessu sinni.

Listinn kallast Highly Cited Researchers og nær til þess eins prósents vísindamanna innan hverrar fræðigreinar sem mest er vitnað til í vísindagreinum sem birtast í alþjóðlegum vísindatímaritum. Listinn byggist á gögnum úr gagnabankanum Web of Science sem eru jafnframt gæðakönnuð sérstaklega. Í ár er tekið mið af tilvitnunum á árabilinu 2011-2021 og nær listinn til tæplega 7.000 vísindamanna á 21 fræðasviði.

Jón Atli Benediktsson er í hópi fremstu vísindamanna heims á sviði fjarkönnunar og stafrænnar myndgreiningar. Fjarkönnun felst m.a. í því að taka stafrænar myndir úr flugvélum, drónum og gervitunglum og vinna úr þeim hvers kyns upplýsingar um yfirborð jarðarinnar, t.d. í tengslum við eldgos, útbreiðslu gróðurs og hopun jökla. Árangur Jóns Atla á listanum er ekki síst áhugaverður þegar horft er til þess að hann hefur verið rektor Háskóla Íslands undanfarin sjö ár og á þeim tíma ekki sinnt rannsóknum í sama mæli og fyrr á ferlinum. 

Jón Atli er er höfundur meira en 400 fræðigreina og bókarkafla á sviði rafmagns- og tölvuverkfræði og hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín, bæði rannsóknir og framlag til menntunar á sviði fjarkönnunar. Þá var hann í fyrra í hópi 400 fremstu vísindamanna heims á sviði tölvunarfræði og rafeindatækni (e. electronics) samkvæmt mati Guide2Research, vefvettvangs um rannsóknir á þessu fræðasviði. 

Tveir gestaprófessorar við Háskóla Íslands, þeir Bernharð Örn Pálsson og Jocelyn Chanussot, eru einnig á lista Clarivate Analytics yfir áhrifamestu vísindamenn heims í ár. Bernharð er prófessor í líftækni og læknisfræði við Kaliforníuháskóla í San Diego og hefur m.a. sérhæft sig í svokallaðri kerfislíffræði. Chanussot er prófessor við Universite Grenoble Alpes í Frakklandi og hefur sérhæft sig í fjarkönnun eins og Jón Atli. Hann hefur verið gestaprófessor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands frá árinu 2013. 
Heildarlista Clarivate Analytics yfir áhrifamestu vísindamenn heims og forsendur hans má finna á vef fyrirtækisins: https://clarivate.com/highly-cited-researchers/
 

Jón Atli Benediktsson