Skip to main content
18. nóvember 2022

Klausturrannsóknir Steinunnar á Hringbraut

Klausturrannsóknir Steinunnar á Hringbraut - á vefsíðu Háskóla Íslands

Klausturhald og aftökur á Íslandi voru í brennidepli í fjórða þætti af þáttaröðinni Vísindin og við á Hringbraut fyrr í vikunni. Þar ræddu umsjónarmenn við Steinunni  J. Kristjánsdóttur, prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands. 

Rannsóknir á klausturhaldi hér á landi hafa skipað stóran sess í störfum Steinunnar en hún stjórnaði m.a. fornleifarannsóknum á miðaldaklaustrinu að Skriðu í Fljótsdal yfir 10 ára tímabil, frá 2002-2012, og var það ein viðamesta fornleifarannsókn sem ráðist hefur verið í á Íslandi. Á daginn kom að Skriðuklaustur var ekki aðeins aðsetur munka með helgihaldi og heitum bænum heldur einnig skjól hinna sjúku og dauðvona. Samtals voru grafnar upp tæplega 300 beinagrindur í kirkjugarði Skriðuklausturs og var um helmingur þeirra bein sjúklinga. 

Steinunn vann einnig að því að skrá minjar allra klaustra sem rekin voru á Íslandi á kaþólskum tíma og birtist afrakstur þeirrar vinnu m.a. í verðlaunabókinni Leitin að klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir. Þá hefur hún stundað frekari fornleifauppgröft á klausturstöðum hér á landi á síðustu árum, þar á meðal á Þingeyrum í  Austur-Húnavatnssýslu.

Þá hefur Steinunn enn fremur stýrt rannsóknarverkefninu Dysjar hinna dæmdu þar sem markmiðið var að leita upplýsinga um þá einstaklinga sem teknir voru af lífi hér á landi á árunum 1550-1830. Í tengslum við verkefnið var opnuð sérstök kortasjá á netinu með upplýsingum um fólkið sem tekið var af lífi og aftökustaði en þessum tíma voru nærri 250 manns tekin af lífi eins og sjá má í kortasjánni.

Fyrir rannsóknir sínar á sviði íslenskrar sögu og fornleifa hefur Steinunn verið sæmdi riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu. 

Joe Wallace Walser III, fyrrverandi doktorsnemi Steinunnar og sérfræðingur í mannabeinafræðum hjá Þjóðminjasafninu, er einnig tekinn tali í þættinum en hann rannsakaði áhrif eldgosa á heilsufar Íslendinga í gegnum aldirnar í doktorsnámi sínu. 

Þáttinn um rannsóknir Steinunnar Kristjánsdóttur og samstarfsfólks má finna á vef Hringbrautar

Nánar um þáttaröðina

Vísindin og við er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Hringbrautar en það hófst fyrr á þessu ári með frumsýningu fimm þátta um vísindamenn skólans. Umsjón með þáttunum hafa þau Þóra Katrín Kristinsdóttir, efnafræðingur og fjölmiðlakona, og Sigmundur Ernir Rúnarson, sjónvarpsmaður, rithöfundur og ritstjóri Fréttblaðsins og Hringbrautar. Þau taka hús á vísindafólki á öllum fræðasviðum skólans og úti á rannsóknasetrum hans. Þar forvitnast þau um rannsóknir vísindafólksins ásamt því að bregða ljósi á manneskjuna á bak við vísindamanninn. Einnig er rætt við nemendur og samstarfsfólk þess vísindafólks sem er í brennidepli í hverjum þætti.
 

Steinunn Kristjánsdóttir