Skip to main content
6. desember 2022

Fjörutíu ár frá útskrift fyrstu félagsráðgjafanna frá HÍ

Fjörutíu ár frá útskrift fyrstu félagsráðgjafanna frá HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þess var minnst í liðinni viku að í ár eru 40 ár liðin frá því að fyrstu nemendurnir brautskráðust úr félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Á samkomu í Veröld – húsi Vigdísar af þessu tilefni komu saman bæði frumkvöðlar í félagsráðgjöf hér á landi og fyrstu kennarnarnir í náminu ásamt fulltrúum úr fyrsta útskriftarárganginum. 

Kennsla í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands hófst við Félagsvísindadeild árið 1981, fyrst um sinn sem aukagrein en til þess að fá réttindi sem félagsráðgjafar þurftu nemendur jafnframt að ljúka eins árs starfsréttindanámi. Fyrstu félagsráðgjafarnir útskrifuðust strax haustið 1982 frá Háskóla Íslands. Náminu var svo breytt í fjögurra ára nám til starfsréttinda um síðustu aldamót og árið 2008 var því enn á ný breytt til samræmis við Bologna-viðmiðin með þriggja ára bakkalárnámi og tveggja ára meistaranámi til starfsréttinda. Á sama tíma tók Félagsráðgjafardeild til starfa undir hatti nýsameinaðs Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands.

Á viðburðinum í Veröld fluttu þau Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Sigrún Júlíusdóttir, prófessor emerita og fyrsti lektorinn í félagsráðgjöf við HÍ, Sigurveig Sigurðardóttir, prófessor í félagsráðgjöf, og Kristján Sturluson, sem var í hópi þeirra fyrstu sem brautskráðust úr náminu, ávörp. Hervör Alma Árnadóttir, dósent og forseti Félagsráðgjafardeildar, stýrði athöfninni. Í ávörpum sínum minntust ræðumenn m.a. bæði þeirra breytinga sem námið færði með sér og fjölluðu um þau víðtæku áhrif sem félagsráðgjafar hafa víða í samfélaginu í dag.

Á undanförnum árum hefur aðsókn í félagsráðgjöf stóraukist og stunda nú um 650 nemendur nám við deildina á hverjum tíma og hefja um 100 nýnemar nám að hausti. Kennarar Félagsráðgjafardeildar stunda enn fremur öflugt rannsóknastarf og hafa nokkrir doktorar brautskráðst frá deildinni.  
 

Fulltrúar úr hópi þeirra fyrstu sem brautskráðust úr félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands.
Gestir í Veröld.
Gestir í Veröld.
Jón Atli Benediktsson
Gestir í Veröld.
Sigurveig Sigurðardóttir
Gestir í Veröld.
Kristján Sturluson
Tónlistaratriði
Gestir í Veröld.
Gestir í Veröld.
Sigrún Júlíusdóttir