Bók Stefáns tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna
Bók Stefáns Ólafssonar, prófessors emeritus í félagsfræði við Háskóla Íslands, „Baráttan um bjargirnar: Stjórnmál og stéttabarátta í mótun íslensks samfélags“ hlaut á dögunum tilnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðibóka og rita almenns efnis. Bókin kemur út á vegum Háskólaútgáfunnar.
Tilkynnt var um tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna á Kjarvalsstöðum í liðinni viku en alls eru fimm verk tilnefnd í hverjum hinna þriggja flokka verðlaunanna, flokki skáldverka, barna- og ungmennabóka og fræðibóka og rita almenns efnis.
Um bók Stefáns segir dómnefnd: „Í bókinni greinir höfundur efnahagslíf, völd og stjórnmál á Íslandi með vandlega rökstuddum málflutningi. Greiningin byggir á umfangsmiklum gögnum sem sett eru fram í skýrum og lýsandi myndritum þar sem þróun á íslensku samfélagi er sett í alþjóðlegt samhengi. Slíkt rit er nauðsynlegt fyrir stjórnmálaumræðu á Íslandi.“
Enn fremur segir m.a. á kápu bókarinnar: „Þessi bók varpar nýju ljósi á þróun íslensks samfélags og lífskjara almennings. Hún sýnir hvernig vald og hagsmunir ólíkra stétta og átök þeirra um áhrif réðu för. Vinstri stjórnmálaöfl urðu ekki jafn áhrifamikil hér og á hinum Norðurlöndunum, en íslensk verkalýðshreyfing bætti það upp að hluta. Samt er íslenska velferðarríkið vanbúið, forréttindi fjármálaafla mikil og skattkerfið óréttlátt. Of margir búa við þrengingar þrátt fyrir mikla hagsæld í landinu. Þetta er grænbók um hvað má betur fara í samfélaginu.“
Bókin er fáanleg í helstu bókaverslunum og sömuleiðis í vefverslun Háskólaútgáfunnar.
Íslensku bókmenntaverðlaunin verða afhent um mánaðamótin janúar-febrúar á komandi ári að Bessastöðum.