Vinna handbók fyrir unga karlmenn um kynlíf
„Það sem gerist um leið og ungt fólk er komið með góð tök á þessu góða og fallega sem er uppbyggjandi í kynferðislegum samböndum er að þau koma í veg fyrir þunganir og kynsjúkdóma af því þau kunna tjáskiptin. Þau hafa þá öll tækin og tólin til að geta notið kynlífs,“ segir Sóley Sesselja Bender, prófessor við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands og sérfræðingur í kynheilbrigði. Sóley hefur unnið frumkvöðlastörf við stefnumótun um kynheilbrigðismál hér á landi og á alþjóðavísu og unnið við þróun á kennslu um kynheilbrigði í áratugi.
Rannsóknir og störf Sóleyjar hafa fjallað um kynheilbrigðismál og einkum beinst að kynfræðslu unglinga, kynheilbrigðisþjónustu, þungun unglingsstúlkna og kynhegðun unglinga. „Ég hef í rauninni frá því ég var í mínu meistaranámi lagt gríðarlega mikla áherslu á ungt fólk og langflestar af mínum rannsóknum og þeim verkefnum sem ég hef leiðbeint eru í tengslum við unga fólkið. Það er meginþráðurinn.“
Sóley vinnur nú að verkefninu „Ertu klár í kynlífið? Handbók fyrir unga karlmenn um kynheilbrigði“ sem ætluð er ungum karlmönnum á aldrinum 16-24 ára. Verkefnið vinnur hún í samvinnu við tvo fyrrverandi meistaranema, Katrínu Hilmarsdóttur og Lóu Guðrúnu Gísladóttur. Saman hafa þær unnið að þremur rannsóknum um kynheilbrigði ungra karlmanna sem lagðar eru til grundvallar handbókinni en innblásturinn að bókinni er ekki síst það sem ungu karlmennirnir nefndu sjálfir í rannsókn Lóu Guðrúnar, að það vantaði handbók sem gæfi þeim leiðbeiningar um kynlíf.
Stúlkur oftar í ábyrgðarhlutverki
„Síðan fer ég að taka eftir því að það er lögð ótrúlega mikil áhersla á stúlkur og kynverund stúlkna og smám saman, svona eftir sem árin líða, fara að renna á mig tvær grímur. Ég fer að verða ósáttari við það að við erum að setja stúlkurnar í svona mikið ábyrgðarhlutverk. Af hverju eiga þær alltaf að semja um smokkanotkun og af hverju eiga þær að sjá um að redda málum ef það er tekinn einhver séns?“ spyr Sóley.
Hún segir spurningar sem þessar, rannsóknir þeirra Katrínar og Lóu Guðrúnar og aðrar rannsóknir ásamt þörfinni fyrir betra fræðsluefni sé því leiðarljós í bókinni. „Markmiðið er að efla unga menn og að þeir átti sig á því að það að vera í einhverju kynlífssambandi við manneskju er allt byggt á samspili, tjáskiptum, gagnkvæmri virðingu og tillitssemi. Þetta þurfa þeir að tileinka sér,“ segir hún.
Bókin eigi því að vera eins konar leiðarvísir og gefa ungum karlmönnum hugmyndir um hvernig er best að nálgast hlutina á heilbrigðan hátt. „Skrif bókarinnar eru flókin því skilaboðin þurfa að vera skýr en án þess að vera að prédika því þú nærð aldrei neinum árangri ef þú ætlar að prédika.“
„Síðan fer ég að taka eftir því að það er lögð ótrúlega mikil áhersla á stúlkur og kynverund stúlkna og smám saman, svona eftir sem árin líða, fara að renna á mig tvær grímur. Ég fer að verða ósáttari við það að við erum að setja stúlkurnar í svona mikið ábyrgðarhlutverk. Af hverju eiga þær alltaf að semja um smokkanotkun og af hverju eiga þær að sjá um að redda málum ef það er tekinn einhver séns?“ spyr Sóley. MYND/unsplash.com
Bókin er rafræn og sexí
Bókin verður rafræn og hægt að glugga í kafla hennar þegar hentar. Markmiðið er að hafa efnið grípandi, bjóða upp á spurningar og svör, gagnvirkar æfingar og beinar tilvísanir í ungu karlmennina úr rannsóknunum „af því að það eru þeirra raddir og við viljum fræða þá um hvað jafnaldrar þeirra eru að segja, t.d. að flestum tekst bara virkilega vel að nota smokkinn. Gefa þeim þennan glugga til að þeir geti sjálfir náð árangri.“
Sóley segir þetta nokkuð vandasamt verkefni þar sem það snýst um að grípa athygli og vekja áhuga notenda en á sama tíma ná að upplýsa lesendur. Efnið þarf því að vera spennandi. „Þetta er allt voða sexí hjá okkur og byggist bókin á sex meginþemum,“ segir Sóley um hönnun bókarinnar. Þemun eru sjálfsöryggi, sambönd, samþykki, stunda kynlíf, smokkanotkun og Samskipti.
Handbókin er enn í þróun en Sóley segir hugsunina á bak við hana vera að þótt einstaklingurinn lesi hana ekki frá A til Ö geti hann gluggað í hana eða hluta hennar, jafnvel oftar en einu sinni. Með því sé hægt að styrkja þá sem eiga erfitt, eins og kom fram í rannsóknunum, t.d. með tjáskipti, við að nota smokkinn og margt fleira.
Áhersla á tjáskipti og tilfinningar
„Það kom fram í okkar rannsóknum að það reyndist oft erfitt fyrir ungu karlmennina að ræða á þægilegan hátt við kynlífsfélaga. Ef unga stúlkan sagði ekki neitt þá einhvern veginn gerðu ungu karlmennirnir ráð fyrir því að hún væri bara á pillunni en hún var kannski ekkert á pillunni. Hún þorði ekki að segja neitt og hann þorði ekki að segja neitt,“ bendir Sóley á.
Sóley nefnir að bókin eigi að gefa þau skilaboð að kynlíf sé stór regnhlíf. Það er ekki aðeins það að stunda kynmök með manneskju heldur allt sem er undir þeirri regnhlíf: að taka utan um manneskju, kyssa hana, horfast í augu, njóta saman og læra hvert á annað. Þannig sjái ungt fólk að þegar það gefi sér tíma fyrir kynlífið og þegar það noti smokkinn sé það að gefa sér möguleika á að njóta kynlífs. Kynfræðsla eigi ekki einungis að snúast um að koma í veg fyrir þungun og kynsjúkdóma heldur margvíslega þætti kynverundar mannsins, eins og tjáskipti og tilfinningar.
Hlustað á raddir ungu karlmannanna
„Nú er handritið fyrir bókina komið aðeins áleiðis en það þarf að vera alveg klárt áður en að við fáum einhverja tæknimenn inn,“ segir Sóley. Hún bætir við að leitað verði álits hjá hópi ungra karlmanna á handritinu til þess að átta sig á hvað þeim finnist virka og hvað ekki. Verkefnið sé byggt á röddum ungra manna og þarfir þeirra séu því í fyrirrúmi, segir Sóley og bætir svo við: „Með því að lesa handbókina teljum við að ungir karlmenn geti á öruggan hátt notið kynlífs með kynlífsfélaga.“
Höfundur greinar: Apríl Auður Helgudóttir, nemi í blaða- og fréttamennsku.