HÍ fær fyrstur norrænna háskóla vottun um upplýsingaöryggi
Háskóli Íslands fékk á dögunum vottun um upplýsingaöryggi frá alþjóðlega vottunarfyrirtækinu BSI á Íslandi að undangenginni innleiðingu sérstaks upplýsingaöryggisstaðals. Skólinn er fyrstur norrænna háskóla til að fá slíka vottun.
Háskóli Íslands hefur undanfarin ár unnið markvisst að bættu upplýsingaöryggi með því að innleiða upplýsingaöryggisstaðalinn ISO27001:2017. Slík vottun er nú í höfn en hún og tekur m.a. til reksturs upplýsingakerfa, öryggis neta, öryggisvitundar starfsfólks, umgengni við húsnæði, aðgengi að og meðferð upplýsinga. Vottun samkvæmt þessum staðli felur í sér alþjóðlega viðurkenndan gæðastimpil á upplýsingaöryggi.
Guðmundur H. Kjærnested, sviðsstjóri upplýsingatæknisviðs Háskóla Íslands, sem stýrt hefur innleiðingu staðalsins er afar ánægður með áfangann. „Þetta hjálpar skólanum að formfesta betur og skilgreina verklag um rekstur og meðferð upplýsinga og upplýsingakerfa,“ segir hann og bendir á að nú hefjist vegferð stöðugra umbóta á upplýsingaöryggi sem verði fylgt eftir árlega með umbótáætlun og úttektum.
Háskóli Íslands er einn fárra háskóla sem hafa hlotið vottun samkvæmt ISO27001 og er sá fyrsti til að fá slíka vottun á Norðurlöndum.
Í tilefni þess að vottunin var staðfest afhenti Árni H. Kristinsson, framkvæmdastjóri BSI á Íslandi, Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, vottunarskírteini að viðstöddum Guðmundi H. Kjærnested, Oddi Hafsteinssyni, upplýsingaöryggisstjóra HÍ, Guðnýju Benediktsdóttur, rekstrarsjóra gæðakerfa, og Magnúsi Jökli Sigurjónssyni, lögfræðingi á rektorsskrifstofu.