Starfsþjálfun og sjávarútvegsnámskeið vendipunktar í lífi nema
Möguleikar á starfsþjálfun, sem Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands hefur boðið nemendum deilarinnar upp á undanfarin ár, hafa sannarlega skapað þeim frábær tækifæri í atvinnulífi. Þetta þekkir Þorvaldur Arnarsson af eigin raun en hann er nú bæði kominn í draumastarfið og vinnur enn fremur að spennandi nýsköpunarverkefni sem vakið hefur feiknaathygli.
Alls bárust 56 umsóknir fyrir þær 20 starfsþjálfunarstöður sem í boði eru fyrir nemendur í Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands fyrir vormisserið 2023. Enn fremur bættust fjögur fyrirtæki við í þann stóra hóp félagasamtaka, fyrirtækja, ráðuneyta og stofnana sem eru í samstarfi við deildina um starfsþjálfun. Eitt þeirra er hið ört vaxandi fyrirtæki Landeldi hf. sem hefur starfsstöðvar í Þorlákshöfn og í Reykjavík. Tengiliður landeldis er Þorvaldur Arnarsson sem hefur sjálfur sannarlega góða reynslu af starfsþjálfun við deildina.
Nýsköpunarverkefni um fullnýtingu afurða í laxeldi
Þorvaldur, sem er lögfræðingur að mennt, er jafnframt með gráðu í næringarfræði frá Acadia University og leggur nú lokahönd á meistaranám í sjávarauðlindafræði við Háskóla Íslands. „Ég var sjómaður um nærri tveggja áratuga skeið og kláraði laganám í kjölfarið en svo langaði mig að breyta til. Það varð upphafið á einhverju hreint út sagt stórkostlegu sem enn sér ekki fyrir endann á,“ segir Þorvaldur og heldur áfram: „Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að skrá mig í námskeiðið Rekstur í sjávarútvegi sem Ásta Dís Óladóttir dósent kennir við Háskóla Íslands. Námskeiðið var frábært og stærsti kostur þess er hversu vel kennarar tengja saman námsmenn og atvinnulíf. Að undirlagi Ástu Dísar sótti ég um starfsþjálfun hjá Landeldi hf. sem ég uppgötvaði í námskeiðinu að væri að byggja risavaxna laxeldisstöð á landi,“ segir Þorvaldur, en þess má geta að Ásta Dís hefur um langt skeið stundað rannsóknir tengdar sjávarútvegi og tók nýverið við sem formaður Jafnvægisvogarráðs, hreyfiaflsverkefnis Félags kvenna í atvinnulífinu.
„Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að skrá mig í námskeiðið Rekstur í sjávarútvegi sem Ásta Dís Óladóttir dósent kennir við Háskóla Ísalnds. Námskeiðið var frábært og stærsti kostur þess er hversu vel kennarar tengja saman námsmenn og atvinnulíf,“ segir Þorvaldur. Hér eru nemendur í námskeiðinu í heimsókn hjá einu af sjávarútvegsfyrirtækjum landsins.
Og þar með er ekki öll sagan sögð. Þorvaldur sótti jafnframt um styrk í Nýsköpunarsjóð námsmanna síðasta sumar til að vinna að frumkvöðlaverkefni undir leiðsögn Ástu Dísar sem snerist um endurnýtingu hliðarafurða í laxeldi. „Ég hef, allt frá mínum dögum sem sjómaður, fylgst með því hvernig fullnýting þorsks hefur getið af sér gríðarmikil verðmæti úr því sem áður var hent. Mig langaði þess vegna til að kanna hvað og þá hvernig nýta mætti úrgang laxeldis enda er greinin vel á veg komin með að verða ein af grunnstoðum verðmætasköpunar á Íslandi,“ bendir hann á.
Í draumastarfið hjá Landeldi
„Skemmst er frá því að segja að verkefnið gekk svo vel að ég fékk vinnu sem ég get með sanni sagt að sé draumastarfið mitt, en ég gegni nú stöðu verkefnastjóra hjá Landeldi. Verkefnið mitt, undir dyggri handleiðslu Ástu Dísar, er meðal þeirra sem tilnefnd eru til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands og þar að auki hefur það hlotið brautargengi og viðurkenningar vítt og breitt síðan það hófst.“
Þorvaldur er himinlifandi með námskeiðið Rekstur í sjávarútvegi. „Ég gæti ekki, þótt ég reyndi, mælt meira með námskeiðinu eða þeirri hvatningu kennara þar að fara í starfsþjálfun. Það opnaði mér leið inn á slóðir sem áður voru mér lokaðar og leiddu mig á brautina sem ég hyggst feta svo lengi sem ég lifi. Ég þakka þann árangur sem ég hef náð þeirri ákvörðun minni að sitja námskeiðið Rekstur í sjávarútvegi og kennara þess fyrir að hafa komið mér í starfsþjálfun hjá Landeldi hf.,“ segir hann að endingu.