Úthlutun úr Samstarfi háskóla
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk:
„Kæra samstarfsfólk.
Fyrr í dag tilkynnti ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar hvaða verkefni hljóta styrki við fyrstu úthlutun úr Samstarfi háskóla. 11 samstarfsverkefni sem Háskóli Íslands leiðir fengu samtals úthlutun upp á 729 milljónir króna. Til viðbótar hlutu 10 önnur verkefni sem Háskóli Íslands tekur þátt í stuðning upp á 329 milljónir kr. Þetta eru allt mikilvæg og vönduð verkefni sem ánægjulegt er að geta hrint í framkvæmd. Hér er yfirlit úthlutunar.
Ljóst er að fjöldi og umfang umsókna var langt umfram styrkfjárhæðina sem í boði var í þessari fyrstu lotu. Því var ekki unnt að styrkja allar umsóknir sem sendar voru inn í nafni Háskóla Íslands þótt þær byggi á framúrskarandi verkefnum og væru vel unnar. Háskólar geta sótt um fé til samstarfs við innlenda háskóla, stofnanir og fyrirtæki aftur á þessu ári. Háskóli Íslands mun kappkosta að hafa ferlið innan húss skýrt og einfalt og veita starfsfólki stuðning við gerð næstu umsókna.
Ég vil þakka þeim fjölmörgu starfsmönnum Háskóla Íslands sem lögðu á sig mikla vinnu við að koma á framfæri spennandi hugmyndum og öflugum umsóknum í fyrstu lotu úthlutunar úr sjóðnum. Ég veit að umsóknirnar voru gerðar á miklum annatíma rétt fyrir jól þegar álag á akademíu og stjórnsýslu er í hámarki. Ég er stoltur af þeim góðu umsóknum sem sendar voru inn í nafni Háskóla Íslands og þær endurspegluðu það gróskumikla samstarf sem við eigum nú þegar við alla háskóla landsins og metnað til að auka slíkt samstarf í þágu aukinna gæða háskólastarfs og þróunar samfélagsins.
Kær kveðja,
Jón Atli Benediktsson rektor“