Litháarnir við Laptevhaf í íslenskri þýðingu
Út er komin bókin Litháarnir við Laptevhaf eftir Daliu Grinkevičiūtė í þýðingu Geirs Sigurðssonar, prófessors við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands og Vilmu Kinderyté.
Bókin er safn minninga Daliu Grinkevičiūtė frá útlegðarárum hennar í Síberu en árið 1941 var hún meðal þeirra þúsunda íbúa Eystrasaltsríkjanna sem sovésk yfirvöld fluttu þangað nauðuga í þrælkunarvinnu. Þá var Dalia fjórtán ára gömul og bókin hefur að geyma minningar hennar frá fyrstu árum útlegðarinnar sem hún skrifaði á laus blöð og faldi í garði við æskuheimili sitt í Kaunas í Litháen. Minningarnar eru sögulegur vitnisburður um þá hryllilegu meðferð sem útlagarnir þurftu að sæta af hendi sovéskra yfirvalda en greina einnig frá hetjulegri lífsbaráttu, draumum um betra líf og viðhaldi mennskunnar í ómanneskjulegum kringumstæðum.
Rebekka Þráinsdóttir, aðjunkt við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands, ritstýrði bókinni og útgefandi er Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur.
Geir Sigurðsson lauk doktorsgráðu í heimspeki frá Hawaii háskóla árið 2004 og var ráðinn lektor við Hugvísindasvið Háskóla Íslands árið 2007. Hann setti á stofn námsleið kínverskra fræða við Háskóla Íslands sem hann hefur stýrt síðan. Hann kom einnig á fót Konfúsíusarstofnuninni Norðurljósum og var forstöðumaður hennar árin 2008-2012. Hann hefur verið prófessor í kínverskum fræðum við Háskóla Íslands síðan árið 2016.
Rannsóknir Geirs hverfast einkum um siðfræði, samfélagsheimspeki og heimspeki menntunar. Meginrit hans er bókin Confucian Propriety and Ritual Learning: A Philosophical Interpretation, sem kom út hjá State University of New York Press árið 2015. Geir hefur einnig þýtt ritið Hernaðarlist Meistara Sun úr frummálinu (fornkínversku) og skrifað við það ítarlegar skýringar og inngang. Einnig hefur hann birt á sjötta tug greina um ýmis heimspekileg efni, flest á ensku.