Lykillinn að litum í íslenskum handritum
Árni Magnússon er goðsagnakennt nafn í Íslandssögunni en hann fæddist árið 1663 að Kvennabrekku í Dölum. Þótt Árni hafi látist árið 1730 gætir áhrifa hans rækilega á okkar dögum og á Giulia Zorzan, doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands, honum það að þakka að hún hafi aðgang að nær öllu því sem hún hefur í háskerpu í doktorsrannsókn sinni.
Árni Magnússon safnaði nefnilega handritum og bjargaði mörgum þeirra vafalítið frá því að tortímast. Árni Magnússon kolféll ungur eins og Giulia fyrir fornum fræðum og hóf að safna handritum af miklum þrótti – ekki síst í ferðum sínum til Íslands en hann bjó lungann úr ævinni í Kaupmannahöfn. Þegar kom að söfnun var Árni með meginþungann á íslensk handrit frá miðöldum en á öðrum áratugi 18. aldar hafði hann komið sér upp safni íslenskra og norskra miðaldahandrita án nokkurrar hliðstæðu. Hluta af handritunum hafði Árni forðað úr íslenskum híbýlum þar sem tíminn hafði unnið á þeim af sinni slægu grimmd.
Þegar hugað er að handritum eru engin takmörk fyrir því hvað unnt er að rannsaka og hvernig. Þannig hefur margt fræðafólk áhuga á innihaldi handritanna, textunum, sögunum sem þar eru geymdar. Annað vísindafólk vill vita meira um samfélagslegar aðstæður að baki uppruna þeirra og um höfunda textannna jafnvel út frá þeim skilgreiningum sem við notum í dag um höfundaverk. Svo hefur annað fólk áhuga á aldri og tæknilegri þáttum á borð við efni og liti í letrinu sjálfu - blekinu.
Með því að greina hvernig mismunandi litir endurtaka sig á síðunum er hægt að skilja betur hvernig litirnir voru þróaðir og hvernig þeir hafa gildi sem heilsteyptur þáttur í hverju handriti, segir Guilia.
Rannsakar blekið í handritunum
Núna, röskum þrjú hundruð árum eftir að Árni hafði myndað bróðurpartinn af handritasafni sínu, vinnur Giulia Zorzan að því að rannsaka litað blek sem notað var í elstu íslensku handritunum frá 12. og 13. öld. Hún leggur meginþungann á að skoða mismunandi þætti sem litir þjóna í uppsetningu hverrar síðu. Í raun hlýtur það að teljast með ólíkindum að enn skuli vera unnt að rýna og lesa texta sem ritaður var á bókfell fyrir um átta hundruð árum – hvað þá að hægt sé auðveldlega að greina sundur liti með berum augum. Giulia skoðar einmitt hvernig litur á bleki er notaður sem nokkurs konar lykill að sjálfum textanum. Hún beinir líka sjónum sínum að gæðum litarefna sem notuð voru á þessu fyrsta tímabili íslenskrar handritagerðar.
„Ég er aðallega að vinna með notkun á rauðum, grænum, bláum og gulum litum í titlum, upphafsstöfum og í öðrum textafræðilegum þáttum,“ segir Giulia.
„Verkefnið er enn á upphafsstigum og greining litarefnanna er áformuð á næstu árum. Fyrstu niðurstöður gefa þó vísbendingar um að fljótlega hafi skrifarar nýtt sér liti í handritum sem skrifuð voru hér. Með því að greina hvernig mismunandi litir endurtaka sig á síðunum er hægt að skilja betur hvernig litirnir voru þróaðir og hvernig þeir hafa gildi sem heilsteyptur þáttur í hverju handriti.“
Giulia segir að á heildina litið gefi rannsóknin færi á að fræðast meira um upphaf ritmenningar á Íslandi og skynja betur þann einstaka arf sem miðaldahandritin eru fyrir íslenskt samfélag. „Samtímis því höfum við færi á að auka skilning okkar á því menningarlega og félagslega samhengi sem handritin eru sprottin úr.“ MYND/Sigurður Stefán Jónsson
Vill skilja betur upphaf og þróun ritmenningar á Íslandi
Heimavöllur handritanna hefur verið í Árnagarði en nú líður að því að þau fái nýtt lögheimili í húsi íslenskunnar sem verður formlega vígt síðar á þessu ári.
Giulia er að rýna í blek og texta í handritum til að nálgast frumupplýsingar um litarefni í íslenskum handritum. Hún vill klófesta þannig áður óþekkt gögn um eðliseiginleikann í þessum þáttum á frumstigi íslenskrar bókaútgáfu ef þannig má að orði komast.
Hún segir að markmiðið með rannsókninni þjóni mikilvægi þess að skilja betur hvernig ritmenning þróaðist í landinu og að skynja þær forsendur sem leiddu til þess að ritun blómstraði hér á miðöldum. „Í fyrri verkefnum mínum hef ég mikið rannsakað elstu íslensku handritin og aðallega beint sjónum að stafsetningu í texta þeirra. En í þessu verkefni ákvað ég að beina sjónum að fleiri þáttum og gera tilraunir með nýja nálgun sem vonandi mun hvetja til frekari rannsókna á þessu sviði.“
Giulia segir að á heildina litið gefi rannsóknin færi á að fræðast meira um upphaf ritmenningar á Íslandi og skynja betur þann einstaka arf sem miðaldahandritin eru fyrir íslenskt samfélag. „Samtímis því höfum við færi á að auka skilning okkar á því menningarlega og félagslega samhengi sem handritin eru sprottin úr.“
Giulia segir að mikilvægi rannsókna á þessum sérstæðu þáttum í flóknu eðli íslensku handritanna auki skilning okkar á uppruna efna og á faglegri þekkingu sem var til staðar í svokölluðum ritstofum á Íslandi en þar urðu handritin til. Einnig verði hægt að koma auga á tengsl þessara ritstofa við hefðina eins og hún var þá á meginlandi Evrópu.
Leiðbeinendur Giuliu eru Beeke Stegmann, handritafræðingur og rannsóknarlektor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og Már Jónsson, prófessor í sagnfræði við HÍ.
Fædd á Ítalíu og fékk ég áhuga á handritafræðum í Mílanó
Giulia er fædd á Ítalíu og er með MA-gráðu í norræni textafræði frá Háskólanum í Mílanó. Áhugi hennar á íslenskri menningu og handritum kviknaði þegar hún var skiptinemi við Háskólann í Lundi í Svíþjóð. Þar tók Giulia námskeið í forníslenskri tungu og bókmenntum í grunnnámi í skandinavískum fræðum.
„Í MA-náminu mínu í Mílanó fékk ég áhuga á handritafræðum, með áherslu fyrst á latnesku hefðina, og síðan ákvað ég að sameina þetta nýja áhugamál mitt við námið í norrænu samhengi. Þess vegna flutti ég til Íslands til að halda áfram akademískum ferli mínum. Fyrst tók ég norrænt meistaranám í víkinga- og miðaldafræðum við HÍ og hélt svo áfram í doktorsnám,“ segir Giulia sem líkar afar vel við sig á Íslandi.
„Mér finnst stúdentalífið hér frábært enda er mér alls staðar vel tekið, bæði við HÍ og Stofnun Árna Magnússonar. Ég hef alltaf verið hvött áfram í rannsóknum og ég nýt þess sérstaklega hversu náið samstarf nemenda og vísindamanna er í háskólanum. Hér er líka mjög auðvelt að kynnast nemendum úr ólíkum áttum og af mismunandi fræðasviðum.“