Framleiddi þýskan sjónvarpsþátt um Guðríði Þorbjarnardóttur
Þýska ríkisútvarpið ARD/ZDF hefur tekið til sýningar þátt um Guðríði Þorbjarnardóttur og víkingatímann fyrir börn sem Anita Sauckel, verkefnisstjóri við Hugvísindasvið Háskóla Íslands og stundakennari við Íslensku- og menningardeild skólans, hafði umsjón með.
Þátturinn um Guðríði Þorbjarnarsdóttir nefnist „Triff … Gudridur“ og er hluti af þáttaröð ARD/ZDF þar sem börn fá tækifæri til að hitta persónur úr mannkynssögunni eins og Albert Einstein, Marie Curie, Fridu Kahlo og Karlamagnús. Anita segir að í þættinum um Guðríði hafi verið reynt að kynna víkingatímann fyrir börnum út frá sjónarhorni kvenna. Þátturinn var frumsýndur 1. febrúar og er aðgengilegur á vef ARD/ZDF.
Anita Sauckel hefur meðal annars starfað sem lektor í skandinavískum miðaldabókmenntum við Háskólann í Greifswald í Þýskalandi árin 2012-2016, nýdoktor við Háskóla Íslands og sem verkefnisstjóri og stundakennari við alþjóðlegt meistaranám í Viking and Medieval Norse Studies við Íslensku- og menningardeild HÍ. Hún lauk meistaraprófi í miðaldasagnfræði við Ludwig-Maximilians-Universität í München árið 2009 og doktorsprófi í fornleifafræði frá sama skóla árið 2012. Hún er höfundur bókarinnar Die literarische Funktion von Kleidung in den Íslendingasögur und Íslendingaþættir sem var gefin út árið 2014, auk þess sem hún er höfundur fjölda greina og bókarkafla. Þá vinnur hún núna að heildarútgáfa Íslendingasagna á þýsku í fimm bindum hjá Sögu forlagi í samstarfi við Rebeccu Merkelbach og fleiri.