Skip to main content
24. mars 2023

Mugison treður upp á Háskólatónleikum í Hátíðasal

Mugison treður upp á Háskólatónleikum í Hátíðasal - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hinni metnaðarfullu Háskólatónleikaröð vindur áfram þetta vorið og nú er það enginn annar en sjálfur Mugison sem heiðrar eyru vor sem sálartetur föstudaginn 24. mars kl. 12.15 í Hátíðasal Aðalbyggingar HÍ. Aðgangur er ókeypis og öll velkomin en tónleikarnir verða einnig sendir út í streymi.

Þennan ástsæla tónlistarmann þarf vart að kynna en það verður engu að síður gert. Allt frá því að hann steig fram árið 2002 með plötunni Lonely Mountain - fyrir rúmum tuttugu árum - hefur Mugison átt hug og hjörtu þjóðar. Hvort heldur sem um er að ræða latte-lepjandi hipstera í 101 Reykjavík eða ömmu þína sem býr á Fáskrúðsfirði þá elska allir þetta hæfileikaríka sjarmabúnt. Njótið því Mugison eins og hann hefði sagt sjálfur!

Tónleikarnir fara fram föstudaginn 24. mars og hefjast leikar kl. 12.15. Staðsetning er hinn glæsilegi Hátíðasalur Háskóla Íslands og megum við vart við minna. Tónleikunum verður einnig streymt og hægt verður að horfa á þá síðar í upptökuformi. Hvort sem þú ert í borginni, úti á landi eða úti í heimi getur þú notið hinna fögru tóna Háskólatónleikaraðarinnar og upplifað stemninguna í skólanum. Allir velkomnir á staðinn og aðgangur gjaldfrjáls.

Slóð á streymið má finna hér: https://livestream.com/hi/mugison

Um Háskólatónleikaröðina

Háskólatónleikaröðin hóf göngu sína með nýjum áherslum haustið 2020 og hafa listamenn af alls kyns toga troðið upp. Tónleikunum hefur öllum verið streymt með glæsibrag og má nálgast upptökur hér.

Umsjónarmaður tónleikaraðarinnar og listrænn stjórnandi er dr. Arnar Eggert Thoroddsen. Segist hann styðjast við slagorðið „Háskóli fyrir alla - Tónlist fyrir alla“ og er myndast við að endurspegla það í dagskránni.

Mugsion