Skip to main content
18. október 2023

Varað við netsvikasíðu í nafni HÍ

Varað við netsvikasíðu í nafni HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands varar við tilraunum til netsvika í nafni Háskólans en uppi er vefsíða í hans nafni á ensku þar sem reynt er að blekkja notendur til að skrá sig í nám við skólann. Samtímis því eru notendur krafðir um greiðsluupplýsingar eins og verið sé að innheimta skráningargjald í HÍ. 
 
Við fyrstu sýn virðist ekkert athugavert við síðuna en þegar grannt er skoðað er margt vafasamt. Aðilar sem hafa svona síður virkar virðast enda æ klókari í að setja gögn fram til að blekkja fólk. 
 
Þessi tiltekna vefsíða, er eins og alltaf í svona tilvikum, einungis gerð til þess hafa fé ólöglega af fólki eða til að fá fram fjárhagslegar upplýsingar til nota í ólöglegum tilgangi.
 
Fólk er hvatt til að sniðganga þessa síðu alfarið og alls ekki að setja inn gögn á hana. Eins er fólk hvatt almennt til að sýna ítrustu varúð á netinu og gefa ekki upp upplýsingar á vefsvæðum sé minnsti grunur um að eitthvað vafasamt geti verið á ferðinni.

Athygli er vakin á því að einungis er unnt að skrá sig til náms á vefsíðum Háskóla Íslands, hi.is og english.hi.is. 
 
 
 

Aðalbygging