Starfsfólk og stúdentar fjölmenna á Arctic Circle

Öryggismál, breytingar hafstraumum, tungumál frumbyggja og framtíð háskólamenntunar, rannsókna og vísindastarfs á norðurslóðum ásamt nýjum hugmyndum um sjálfbærarn lausnir er á svæðinu er meðal þess sem stór hópur starfsfólks og stúdenta Háskóla Íslands mun ræða á ráðstefnunni Hringborði norðurslóða (Arctic Circle) sem fram fer í Hörpu dagana 19.-21. október.
Arctic Circle er ein stærsta norðurslóðarráðstefna hvers árs í heiminum en upphafsmaður hennar er Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands og prófessor við Háskóla Íslands. Ráðstefnuna sækir áhrifafólk úr stjórnmálum, efnahagslífi, háskólum, félagasamtökum og minnihlutahópum úr öllum heimshornum.
Markmiðið Arctic Circle er að stuðla að bæði samtali og samstarfi um framtíð og þróun norðurskautsins, en talið er að mikilvægi norðurslóða muni aukast á næstu áratugum, ekki síst vegna loftslagsbreytinga. Ráðstefnan er nú haldin í tíunda sinn og að þessu sinni hafa um 2.000 manns boðað komu sína á hana.
Boðið verður upp á yfir 200 málstofur, umræðufundi og aðra viðburðir á ráðstefnunni og alls eru fyrirlesarar um 700. Í þeirra hópi eru starfsfólk og nemendur við Háskóla Íslands sem standa fyrir eða taka þátt í á þriðja tug viðburða á ráðstefnunni.
Auk ofangreindar viðfangsefna skipuleggur fræðafólk HÍ og tekur m.a. þátt í málstofum sem snerta stöðu smáríkja, hlutverk fjarkönnunar í rannsóknum á loftslagsbreytingum, geópólitík og stefnumótun á svæðinu, hlutverk réttarkerfisins við verndun norðurslóða, nýsköpun og rannsóknir tengdar geimrannsóknum, norðurslóðastefnu Íslands, öryggismál í ferðaþjónustu og leiðir til að hvetja fólk á norðurslóðum til að láta sig málefni svæðisins varða.
Að þessum málstofum kemur fræðafólk úr HÍ af jafn ólíkum fræðasviðum og stjórnmálafræði, alþjóðasamskiptum, jöklafræði, fjarkönnun, tungumálum, tölvunarfræði, sálfræði, jarðvísindum, sagnfræði, ferðamálafræði og umhverfis- og auðlindafræði.
Fulltrúar Háskólans tóku ásamt fleirum forskot á sæluna strax í gær með málþingi í samstarfi við aðstandendur Arctic Circle í Hátíðasal Aðalbyggingar. Þar voru áskoranir norðurslóða í brennidepli. Meðal þeirra sem þar tóku til máls var Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands og prófessor við Háskóla Íslands, sem er upphafsmaður Hringborðs norðurslóða. MYND/Kristinn Ingvarsson

Nemendur HÍ láta mikið að sér kveða
Auk þess standa nemendur í nýstofnuðu leiðtoganámskeiði tengdu norðurslóðum, sem nefnist ARCADE og Rannsóknasetur um norðurslóðir og Sjálfbærnistofnun HÍ eiga aðild að, fyrir málstofu á Arctic Circle. Markmið námskeiðsins er að þjálfa fólk í takast á við þær flóknu áskoranir sem blasa við samfélögum og í umhverfismálum á norðurslóðum.
Þá eru nemendur úr Háskóla Íslands meðal þátttakenda í Arctic Innovation Lab, samkeppni um sjálfbærar lausnir fyrir norðurslóðir. Háskóli Íslands skipuleggur samkeppnina innan Arctic Circle í samstarfi við Harvard Kennedy School of Government í Bandaríkjunum, Orkuskólann innan Háskólans í Reykjavík, Grænlandsháskóla og Fletcher School við Tufts-háskóla í Bandaríkjunum, Alaskaháskóla, Norðurslóðaháskóla Noregs, Samtök ungra norðurskautsrannsakenda á Íslandi og í Danmörku (APECS) og Ungmennarái Barentssvæðisins. Markmið samkeppninnar er hvetja ungt vísindafólk til að ræða þær öru breytingar sem eru að verða á norðurslóðum, áhrif þeirra á jörðina í heild og að koma með sjálfbærar lausnir við áskorunum á svæðinu.
Enn fremur sækir ríflega 90 manna þverfræðilegur hópur nemenda og kennara í námskeiði innan umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands ráðstefnuna en námskeiðið hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár. Markmið þess er m.a. að veita nemendum þekkingu frá ýmsum fræðasviðum sem snerta málefni norðurslóða og auka skilning þeirra á hlutverki og samspili milli fræðilega og hagnýtra rannsókna, svæðisbundinna stjórna (sveitarstjórna) og ríkisstjórna, frjálsra félagasamtaka og almennings auk mikilvægis efnahagslegra og samfélagslegra þátta í málefnum norðurslóða.
Háskóli Íslands verður einnig með kynningarbás á sýningarsvæði Arctic Circle þar sem gestir og gangandi geta m.a. kynnt sér ólíkar hliðar norðurslóðarannsókna í Háskóla Íslands, ýmist í spjalli við starfsfólk og nemendur eða á myndböndum.
Fulltrúar Háskólans tóku ásamt fleirum forskot á sæluna strax í gær með málþingi í samstarfi við aðstandendur Arctic Circle í Hátíðasal Aðalbyggingar. Þar voru áskoranir norðurslóða í brennidepli. Málþingið var tekið upp og hægt er að horfa á það hér.
Dagskrá ráðstefnunnar í heild má finna á vef Arctic Circle