Samfélagslegum nýsköpunarverkefnum fagnað í Snjallræði
Aðstandendur átta samfélagslegra nýsköpunarverkefna, sem snerta jafnt unga sem aldna og styðja m.a. við innflytjendur, fólk með geðraskanir og náttúruna, kynntu afrakstur vinnu síðustu mánaða á uppskeruhátíð Snjallræðis sem fram fór í Grósku þann 15. desember.
Snjallræði, sem nú er haldið í fimmta sinn, er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Háskólans á Akureyri og MITdesignX og hefur það markmið að styðja við nýsköpunarteymi sem leggja sitt af mörkum til að takast á við aðkallandi áskoranir samtímans og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Verkefnið er styrkt af Reykjavíkurborg, Marel og Vísindagörðum Háskóla Íslands.
Átta teymi voru valin til þátttöku í Snjallræði í ár og hafa áorkað miklu undir leiðsögn reynds hóps mentora á þeim 16 vikum sem liðnar eru frá því á verkefnið hófst. Verkefni teymanna eru afar fjölbreytt og fást við ólíkar samfélagslegar áskoranir. Verkefnið Bragðlaukaþjálfun miðar að því að draga úr matvendni barna, Co-living Iceland er gervigreindarforrit fyrir húsnæði og meðleigjendur, og Eldrimenntun tengir eldri borgara við innflytjendur til að efla tungumálakunnáttu og draga úr félagslegri einangrun.
Á uppskeruhátíðinni voru einnig kynnt verkefnin Fine Foods Íslandica sem stundar sjálfbæra þangræktun í samstarfi við sjávarútveginn, Jafningjahús sem veitir stuðning í geðrænni krísu, Opni leikskólinn sem býður upp á ókeypis leiksvæði fyrir börn og foreldra, Svepparíkið sem þróar nýjar svepparæktunaraðferðir og Weave Together Foundation sem styður við flóttamenn og hælisleitendur.
Þá var á hátíðinni boðið upp á pallborð með sérfræðingunum Elvu Rakel Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Festu, Hauki Hafsteinssyni, yfirverkfræðingi hjá Marel, og Eddu Konráðsdóttur, stofnanda Iceland Innovation Week.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar Reykjavíkur, flutti jafnframt ávarp og veitti viðurkenningar, og lokaræðuna hélt Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á Snjallræði.