Bjarni Bessason og Katrín L.Sigurðardóttir hljóta kennsluviðurkenningu VoN
Kennsluviðurkenning VoN fyrir lofsverðan árangur í starfi á sviði kennslu var afhent í fimmta sinn á Sviðsþingi Verkfræði- og náttúruvísindasviðs sem haldið var 12. desember síðastliðinn. Þeim Bjarna Bessasyni, prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild, og Katrínu Lilju Sigurðardóttur, aðjúnkt við Raunvísindadeild, voru færðir blómvendir og viðurkenningarskjöl í fallegri athöfn sem fram fór í Grósku.
Kennslunefnd bárust fjölmargar tilnefningar frá deildum, námsbrautum og nemendum sviðsins og að þessu sinni þóttu þau Katrín og Bjarni standa upp úr.
Bjarni hefur starfað við Háskóla Íslands síðan 1995. Hann hefur í gegnum árin gegnt lykilhlutverki í kennslu deildarinnar og lagt mikla alúð við kennslustörfin á farsælum starfsferli sínum. Bjarni kennir námskeið í greiningu burðarvirkja á fyrsta ári og er því mikilvægur burðarás í þeirri stefnu deildarinnar að færustu prófessorar hennar kenni stúdentum í grunnnámi. Í rökstuðningi nefndarinnar kemur meðal annars fram að í námskeiðinu hafi hann m.a. útfært vel heppnaða samkeppni í brúarhönnun sem hefur eflt og vakið áhuga framhaldsskólanema á byggingarverkfræði. Brýr sem nemendur Bjarna hafa hannað í þessu námskeiði vekja einnig iðulega athygli nemenda sem kynna sér nám við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild á Háskóladaginn.
Auk þess er vert að nefna að námskeiðin sem Bjarni kennir eru gjarnan með hæstu námskeiðum deildarinnar að mati stúdenta í kennslukönnun og nemendur hafa í gegnum árin sent inn afar jákvæðar umsagnir um störf hans.
Katrín Lilja er öflugur kennari með stór skyldunámskeið sem margar námsbrautir taka. Einnig hefur hún haldið utan um landskeppnina í efnafræði og ólympíuþjálfun efnafræðiliðs Íslands í yfir áratug þar sem að hún hefur skipulagt þjálfun fyrir liðið og verið í fararbroddi í sjálfri þjálfuninni. Katrín Lilja hefur líka verið öflug í kynningu á efnafræði og vísindum fyrir almenningi. Hún hefur staðið fyrir fjölmörgum efnafræðisýningum í gegnum árin og á Vísindavöku Rannís má iðulega sjá hana umkringda áhugasömu fólki á öllum aldri.
Nemendur bera Katrínu Lilju vel söguna og segja hana góðan kennara, orkumikla, jákvæða og skipulagða með smitandi áhuga á námsefninu. Í kennslukönnunum skín í gegn hversu góður kennari hún er og hversu viljug hún er að útskýra efnið og aðstoða nemendur. Það kemur því ekki á óvart að Katrín Lilja er uppáhaldskennari margra nemenda, enda skilar hún umfangsmikilli kennslu sinni með eindæmum vel.
Að ofangreindu sögðu telur Kennslunefnd VoN að Katrín Lilja og Bjarni séu bæði einstaklega vel að þessari kennsluviðurkenningu komin.