Skip to main content
8. janúar 2024

Nýr sjóður við HÍ styður framhaldsnema á sviði heilsu, líftækni og lyfjaþróunar 

Nýr sjóður við HÍ styður framhaldsnema á sviði heilsu, líftækni og lyfjaþróunar  - á vefsíðu Háskóla Íslands

STAFN – Styrktarsjóður Brynju Einarsdóttur og Arnar Almarssonar hefur verið stofnaður undir hatti Styrktarsjóða Háskóla Íslands. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirritaði skipulagsskrá sjóðsins ásamt stofnendum sjóðsins, þeim Brynju og Erni. Markmið sjóðsins er að stuðla að menntun og víðsýni efnilegs námsfólks í raungreinum, heilbrigðisvísindum, verkfræði og tölvugreinum, þar á meðal  gervigreind og lífupplýsingafræði. Einkum er horft til þess að styðja námsmenn á sviði heilsu, líftækni og lyfjaþróunar. Stofnfé sjóðsins er 50 milljónir króna.

Sjóðurinn veitir íslenskum nemendum í framhaldsnámi við Háskóla Íslands eða erlenda háskóla styrki, ekki síst þeim sem vinna þvert á ólíkar fræðigreinar, rannsaka t.d. líffræðilega ferla með tölvulíkönum og aðferðafræði gervigreindar. Sjóðnum er þannig ætlað að efla þverfræðilega samvinnu og hvetja námsfólk til að opna hugann fyrir tengslum ólíkra tæknisviða og -greina.

Stofnendur sjóðsins eru hjónin Brynja Einarsdóttir og Örn Almarsson. Brynja og Örn eru búsett í Bandaríkjunum en með rætur og starfsemi á Íslandi. Örn útskrifaðist úr efnafræði frá Háskóla Íslands árið 1988. Að loknu framhaldsnámi í Kaliforníuháskólanum í Santa Barbara árið 1994 héldu Örn og Brynja til austurstrandar Bandaríkjanna og hafa þau búið og starfað þar síðan. Örn hefur gegnt ábyrgðar- og áhrifastöðum í lyfjaþróun og líftækni síðustu þrjá áratugina, þ.á m. í sjö ár hjá Moderna á síðastliðnum áratug við þróun mRNA-lyfja og bóluefna. Árið 2022 stofnuðu hjónin, ásamt meðstofnanda á Englandi fyrirtækið Axelyf sem er íslenskt fyrirtæki starfandi á alþjóðlegum grundvelli. Axelyf fæst við nýsköpun og lyfjaþróun byggða á astaxanthin-afleiðum og öðrum lípíðum.  

Rektor Háskóla Íslands skipar úthlutunarnefnd sjóðsins og í henni sitja prófessorarnir Margrét Helga Ögmundsdóttir, Steinn Guðmundsson og Eiríkur Steingrímsson. Áætlað er að veita styrki til tveggja einstaklinga/verkefna á ári hverju í samræmi við markmið sjóðsins. 

Stjórn Styrktarsjóða Háskóla Íslands, sem skipuð er af háskólaráði, fer með stjórn sjóðsins. Stjórnina skipa Gylfi Magnússon, prófessor í hagfræði og formaður stjórnar, Valgerður Sólnes, prófessor við Lagadeild, og Jóhann Ómarsson, viðskiptafræðingur og ráðgjafi. Varamaður í stjórn er Sigurður Jóhannesson hagfræðingur.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta og starfsfólk. Sjóðirnir eru mikil lyftistöng fyrir háskólann, sem hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga í gegnum tíðina en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.
 

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirritaði skipulagsskrá sjóðsins ásamt stofnendum sjóðsins, þeim Brynju og Erni.